Lydía Birna fæddist 22. febrúar 1981. Hún lést 3. maí 2023.
Útför hennar fór fram 12. maí 2023.
Ljóshærð með stór og falleg augu, ákaflega kröftug, hvatvís og dugnaðarforkur mikill. Þannig má lýsa Lydíu Birnu, okkar kæru vinkonu, sem nú er fallin frá. Lydía var fyrsti skjólstæðingur Sibbu í þroskaþjálfun í leikskóla. Eftir stutta dvöl hennar í leikskólanum komumst við að því að Snorri faðir hennar og Steini væru nokkuð skyldir. Upp frá því var mikill vinskapur milli fjölskyldna Snorra og Steina. Þannig kynntumst við Lydíu enn frekar. Margar góðar minningar m.a. frá mörgum útileguferðum og sumarbústaðadvölum rifjast nú upp. Göngutúrar með Lydíu voru frábærir, því að hún var svo rösk að sá sem með henni gekk fékk heilmikla þjálfun í leiðinni. Einnig hafði hún unun af því að borða góðan mat: Eitt sinn vorum við öll að koma úr sumarbústað og stönsuðum á veitingastað til að fá okkur eitthvað í gogginn. Lydía var yfirleitt snögg að gera það sem hún hafði unun og áhuga á og var því langfyrst að klára sinn mat af okkur öllum. Allt í einu er hún horfin frá borðinu og Steini stendur upp og fer að athuga með hana. Situr mín þá eins og prinsessa við borð hjá vingjarnlegum manni og hamast við að borða matinn hans. Þegar Steini kom til þeirra sagði maðurinn: „Aumingja barnið var bara svo svangt.“ Lydía nýbúin að borða fulla máltíð með okkur!
En svo kom að því að alvarleg veikindi bönkuðu á dyr hjá henni. Hún stóð sig vel með ótrúlegu æðruleysi í þeirri baráttu þar til yfir lauk. Elsku Lydía, við þökkum þær stundir sem við áttum með þér. Þú kenndir okkur margt og við munum halda minningum okkar um þig lifandi.
Elsku frændfólk okkar og vinir, Stebba, Snorri, Bryndís, Steinunn, Siggi og fjölskyldur, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.
Ykkar sorg er mikil.
Megi minningin lifa um góða og duglega stúlku.
Ykkar vinir,
Sigurbjörg (Sibba), Þorsteinn (Steini), Vignir, Ríta, Sandra Lind og fjölskyldur