Tékkland Guðni slær á létta strengi með Petr Pavel, forseta Tékklands.
Tékkland Guðni slær á létta strengi með Petr Pavel, forseta Tékklands. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, átti nokkra fundi með erlendum kollegum sínum hérlendis í gær. „Eins og gefur að skilja eru forsetarnir hingað komnir til að sitja leiðtogafund Evrópuráðsins en nýttu tækifærið og leituðu eftir tvíhliða…

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, átti nokkra fundi með erlendum kollegum sínum hérlendis í gær. „Eins og gefur að skilja eru forsetarnir hingað komnir til að sitja leiðtogafund Evrópuráðsins en nýttu tækifærið og leituðu eftir tvíhliða fundum í leiðinni,“ sagði Guðni þegar Morgunblaðið ræddi við hann.

Guðni fundaði með forsetum Lettlands, Litháen, Moldóvu, Tékklands, Slóveníu og Grikklands og mun í dag funda með forseta Póllands.

„Þetta voru ágæt samtöl. Ég hafði hitt þá alla áður, en fundirnir voru nýttir til að fara yfir samskipti Íslands og þessara tilteknu ríkja. Einnig var rætt hvernig auka mætti samskipti Íslands og þessara ríkja á sviði viðskipta, menningar og þess vegna jarðhitanýtingar þar sem það átti við. Auðvitað var notalegt að finna hlýhug þessara þjóðhöfðingja til íslenskrar þjóðar. Um leið var farið yfir mál sem liggja fyrir leiðtogafundinum og ég kom sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda á framfæri. Þótt formleg fundahöld væru ekki hafin á leiðtogafundinum þá leist þeim vel á móttökurnar hér.“

Forseti Íslands ávarpaði auk þess þjóðarleiðtogana alla við upphaf fundarins í Hörpu og bauð þá velkomna til Íslands. Guðni segir ekki hjá því komist að eitthvert rask á daglegum athöfnum fólks fylgi slíkum viðburði.

„Ég myndi vilja koma á framfæri þökkum til allra embættismanna sem tóku þátt í undirbúningnum, þeirra sem koma að allri löggæslu vegna fundarins og starfsfólks í Hörpu. Einnig langar mig til að þakka Reykvíkingum og öðrum fyrir þolinmæði. Ekki verður fram hjá því komist að fundur sem þessi hefur viss áhrif á okkar daglega líf. Við höfum reyndar kynnst því að götum sé lokað vegna ýmissa viðburða en manni finnst nú gott að hugsa til þess að þetta sé ekki daglegur viðburður,“ sagði Guðni.

Höf.: Kristján Jónsson