Guðlaug Hraunfjörð Pétursdóttir fæddist í Reykjavík 20. apríl 1930. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi 8. maí 2023.

Hún var dóttir hjónanna Jóhanns Péturs Hraunfjörð, f. 14. maí 1885, d. 5. mars 1957, og Kristjánsínu Sigurástar Kristjánsdóttur, f. 6. júní 1891, d. 27. júlí 1980. Guðlaug var næstyngst níu systkina. Systkini Guðlaugar eru öll látin, en þau voru Yngvi Hraunfjörð, f. 1914, d. 1955, Pétur Kristinn, f. 1916, d. 1917, Hugi Hraunfjörð, f. 1918, d. 1989, Hulda Hraunfjörð, f. 1921, d. 1995, Pétur Hraunfjörð, f. 1922, d. 1999, Unnur, f. 1927, d. 2019, Ásta María, f. 1928, d. 1929, og Ólöf Hraunfjörð, f. 1932, d. 2011.

Hinn 26. nóvember 1955 giftist Guðlaug Sigfúsi Jónssyni Tryggvasyni, f. 28. maí 1923, d. 14. janúar 1991. Guðlaug og Sigfús eignuðust saman fimm börn en fyrir átti Guðlaug með Hafsteini Árman Ísaksen, f. 14. júlí 1930, d. 23. júní 2005, soninn Ómar, f. 2. ágúst 1953, eiginkona Bíbí Ísabella Ólafsdóttir, f. 5. mars 1952, saman eiga þau börnin Írisi Dögg, f. 1989, Huga Hraunfjörð, f. 1990, og auk þess fjögur barnabörn. Bíbí á fjögur önnur börn.

Börn Guðlaugar og Sigfúsar eru: 1) Tryggvi, f. 21. mars 1956, eiginkona Pauline Scheving Thorsteinsson, f. 19. júní 1960. Pauline á tvo syni, Patrick og Benedikt. 2) Sturla, f. 20. júní 1958, d. 30. ágúst 1991, eiginkona Anna Soffía Guðmundsdóttir, f. 14. desember 1960, saman áttu þau börnin Sigfús, f. 1984, og Valborgu, f. 1988, en fyrir átti Anna Soffía Guðmund Gísla Víglundsson, f. 1978. Barnabörnin eru sex. 3) Örvar, f. 21. janúar 1960. 4) Álfheiður, f. 15. nóvember 1961, eiginmaður Erlingur Jóhann Erlingsson, f. 17. apríl 1958, börn Hákon Viðar, f. 1985, og Karen Anna, f. 1991. Þau eiga eitt barnabarn. 5) Ásta, f. 27. október 1963, eiginmaður Jökull Gunnarsson, f. 13. nóvember 1961, börn Valey, f. 1986, Guðlaug, f. 1987, Freyja, f. 1993, og Sturla, f. 1994. Þau eiga tvö barnabörn.

Guðlaug lauk gagnfræðaprófi og starfaði eftir það við ýmislegt, meðal annars í fiski, við afgreiðslu í verslun og á Keflavíkurflugvelli. Hún gekk auk þess í Húsmæðraskólann á Löngumýri. Guðlaug var einstaklega góð í tungumálum, bæði las og talaði ensku, dönsku, norsku og sænsku en sú færni kom sér vel í krossgátuáhugamáli hennar sem og ferðalögum um heiminn. Hún var mjög virk í ýmiss konar félagsstarfi, þá sérstaklega í kvenréttindabaráttu.

Eftir að Guðlaug giftist Sigfúsi sá hún um heimilið auk þess að ala börn. Eftir barneignir fór hún aftur út á vinnumarkaðinn og starfaði hún þá lengi á Kópavogshæli og í eldhúsinu á Sunnuhlíð.

Guðlaug missti eiginmann sinn, Sigfús, og son sinn, Sturlu, árið 1991 og í kjölfarið missti hún heilsuna og fór af vinnumarkaðnum. Hún sat þó aldrei tómhent og var áfram iðin við garðyrkju, prjónaskap, lestur, ferðalög og margt það annað sem lá vel fyrir henni.

Hún verður jarðsungin frá Kópavogskirkju í dag, 17. maí 2023, klukkan 13.

Mig langar til að minnast Guðlaugar Hraunfjörð Pétursdóttur, sem lést 8. maí 2023. Hún var tengdamóðir mín, amma Lauga, móðir Sturlu míns. Þegar við kynntumst 1981, átti ég 3ja ára soninn Guðmund Gísla og kveið hálfpartinn fyrir að hitta tilvonandi tengdaforeldra mína, Laugu og Fúsa. Sturla hafði sagt mér að ég skyldi ekki reyna að ganga í augun á mömmu hans, af því að hún myndi bara gagnrýna mig og alls ekki ræða pólitík við hana. Síðan átti ég að halda Guðmundi frá afa Fúsa, því að hann þyldi ekki börn. Þau áttu engin barnabörn á þessum tíma og ég trúði Sturlu auðvitað eins og nýju neti. Ég reyndi að láta lítið fyrir mér fara, en varð fljótt vör við að þetta var eins langt frá sannleikanum og frekast var unnt. Þau tóku mér og Guðmundi einstaklega vel og skömmu síðar sagði ég þeim hvað Sturla hafði sagt mér um þau og þá var hlegið. Ég hafði eignast bestu tengdaforeldra í heimi. Þegar Sigfús fæddist 1984 var hann líka elskaður og dekraður. Borgarholtsbraut 11 í Kópavogi var fjölskyldustaðurinn og þar komu öll börnin þeirra, tengdabörn og barnabörn saman. Börnin, Ómar, Tryggva, Sturlu, Örvar, Álfheiði og Ástu, eignaðist Lauga á 10 ára tímabili, frá 1953-1963. Fúsi og Lauga voru með ólíka skapgerð. Hann fámáll og dulur, en hún mannblendin og ræðin. Þau máttu hvorugt neitt aumt sjá og réttu samferðafólki hjálparhönd, þó að oft væri úr litlu að spila. Þegar við kynntumst vann Lauga í eldhúsinu á Kópavogshælinu og seinna í Sunnuhlíð. Hún las óhemjumikið, tíður gestur á bókasöfnum og var sjálfmenntuð á mörgum sviðum t.d. í tungumálum. Hún hjálpaði mér og studdi á alla lund. Hún barðist fyrir réttindum verkakvenna, með þátttöku í verkalýðshreyfingunni m.a. sem trúnaðarmaður samverkafólks. Hún var meðlimur í menningar- og fræðslusamtökum alþýðu og hafði mikinn áhuga á pólitík og jafnréttisbaráttunni. Þegar Valborg, dóttir okkar Sturlu, fæddist 1988 þá gladdist fjölskyldan öll. Ömmurnar tvær, Valborg og Lauga dýrkuðu hana og dáðu. Hjá þeim kjarnakonum fengu mín börn sína menntun á öllum sviðum. Þau þráðu að fara í sund, á bókasafnið, í ferðalög og að vinna í garðinum með ömmu Laugu, en spila, lesa og prjóna með ömmu Valborgu. Þessum konum á ég mest að þakka í lífinu. Þegar Sturla veiktist af krabbameini vorið 1988 reyndi mjög á samheldni fjölskyldunnar. Fúsi veiktist síðan líka af krabbameini og lágu þeir feðgar saman á nýstofnaðri krabbameinsdeild Landspítala haustið 1990. Þeir létust báðir árið 1991 og missti Lauga þá bæði maka og son. Heilsu hennar sjálfrar hrakaði eftir þetta áfall, en hún náði sér á strik og léttleikinn tók aftur völdin. Ferðalög, garðvinna og samskipti við vini og fjölskyldu urðu aftur hennar líf. Síðustu árin bjó hún í Sunnuhlíð og naut þar góðrar umönnunar starfsfólks.

Mig langar að þakka fyrir að hafa kynnst ömmu Laugu, sem var einstök kona. Úrræðagóð, skemmtileg, vel gefin og mikill mannvinur. Hún var fordómalaus og hugrökk. Samúðarkveðja til fjölskyldunnar allrar. Hvíldu í friði elsku Lauga.

Anna Soffía
Guðmundsdóttir

Elskulega amma Lauga er látin. Svo hjartahlý, úrræðagóð, hæfileikarík, skemmtileg og endalaust falleg. Nafnið mitt fékk ég frá henni og myndi ég ekkert nafn heldur vilja bera. Við töluðum oft um þetta nafn, Guðlaug, að það væri svo sem ekkert merkilegt, en fyrst það tengdi okkur saman, væri það besta nafnið.

Ég á margar góðar minningar um nöfnu mína, en mig langar að deila tveimur með ykkur, sem lýsa henni svo vel. Sú fyrri átti sér stað í Sunnuhlíð, þar sem amma bjó í átján ár. Það var góðviðrisdagur í lok júlí 2013 og ég kíkti í heimsókn með ís. Amma sat að sjálfsögðu úti í sólinni með sólhattinn að hlúa að blómunum sínum, enda var hún sjúk í sól og gjarnan að safna í „homeblest-tanið“, eins og við kölluðum það. Það gerðist ekkert stórmerkilegt. Við bara sátum saman í sólinni, nöfnurnar, borðuðum ís, spjölluðum og nutum þess að vera saman.

Seinni minningin er samansafn af mörgum augnablikum, en þau áttu sér stað í Vestbjerg í Danmörku. Amma Lauga kom og var hjá okkur fjölskyldunni um nokkurra mánaða skeið. Við áttum kisu, fjölskyldan, hana Fíu, sem er ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að amma hataði ketti. En Fía reyndi endalaust að sjarma fyrir ömmu með því að færa henni gjafir – dauða fugla og mýs – sem jók ekki á hrifningu hennar. Amma fór líka með okkur í bæjarferðir. Við tókum strætó, fórum í Söstrene Grene og amma Lauga keypti kandís á línuna. Mikið sem við vorum hamingjusöm með hana, systkinin.

Amma Lauga hafði aldrei mikið á milli handanna, en við fundum aldrei fyrir því þar sem hún dekraði við okkur með góðsemd, heimasteiktum kleinum og pönnukökum auk hins fyrrnefnda kandís. Hún lofaði því jafnframt að þegar hún yrði rík eða þegar hún ynni í lottóinu, myndi hún gefa okkur allan heiminn. Amma reyndar spilaði ekki með í lottóinu, en við kipptum okkur ekkert upp við það, draumurinn var nægur. Það var alltaf gott að koma til ömmu Laugu, hvort sem var á Borgarholtsbrautina, þar sem hún bjó lengst af, eða í Sunnuhlíð. Endalaust var hægt að spjalla, hlæja, kíkja á krossgátur saman, gæða sér á góðgæti eða hlúa að blómunum.

Nú hefur þú loksins fengið hvíldina löngu, elsku nafna mín. Loksins færðu að hitta afa Fúsa og Sturlu son þinn og hvíla við hlið þeirra. Góða ferð í sumarlandið, amma mín, ég finn þig þar að ferðalokum.

Þín nafna,

Guðlaug Jökulsdóttir.

Elsku amma mín, nú ertu farin. Ég hef aldrei verið mikill penni, en ég veit að þú last alltaf minningargreinarnar og að þér hefði þótt vænt um að ég skrifaði grein um þig. Þú varst besta amma Lauga í heimi og ég mun sakna þín sárt.

Mig langar að rifja upp góðar stundir sem við áttum saman, meðal annars þegar þú varst hjá okkur úti í Danmörku. Þú þóttist hafa óbeit á kettinum okkar, henni Fíu, kallaðir hana alltaf „kattaróféti“, við vissum samt að þú elskaðir hana því þegar enginn sá til varstu voða góð við hana. Sturla bróðir okkar át þetta upp eftir þér og kallaði Fíu „kattaróféti“ þegar hann vildi vera góður við hana án þess að gera sér nokkra grein fyrir orðinu. Við gátum hlegið mikið að því, systurnar.

Það var svo dýrmætt að hafa þig hjá okkur í Danmörku, elsku amma Lauga. Þú passaðir vel upp á okkur systkinin, öll fjögur, að ógleymdum Þvottabirni, bangsanum hans Sturlu. Þegar Sturla missti eða týndi bangsanum vorum við systur sendar út um allar trissur að leita. Bangsann skyldi finna til að róa strákinn – þú passaðir upp á það. Þú fórst með okkur út um allt í strætó, við fjögur systkinin og ein gömul kona með staf, en þú lést það ekkert aftra þér, við hlýddum þér og gerðum eins og þú sagðir.

Eftir að við fluttum heim til Íslands varstu bara í næsta húsi, þannig að ef eitthvað kom upp á, þá var alltaf hægt að reiða sig á að fara í heimsókn til ömmu eða bjóða þér í heimsókn. Þú kenndir okkur að gera pönnukökur – það var samt frekar erfitt að fylgja leiðbeiningunum þínum því þær breyttust alltaf eftir því hvað var til í eldhúsinu.

Á seinni árum fékkstu að kynnast kisunni minni, henni Mýju, en þér var vel við hana frá fyrstu kynnum. Þú komst og heimsóttir okkur Guðjón í Kanada og varst ein heima úti í garði að busla í barnalauginni. Þú missteigst þig og Mýja kom til þín og var hjá þér þar til þú komst á fætur aftur. Þú talaðir sérstaklega um að Mýja hefði hjálpað þér á fætur og án hennar hefði farið mun verr. Mér þótti sérstaklega vænt um hvað þið voruð miklar vinkonur og hvað þú varst góð við hana.

Ég mun sérstaklega sakna þess að heimsækja þig á Sunnuhlíð og ræða við þig um blómin þín og allt annað sem lá mér á hjarta. Þú varst góð, brosmild og lést manni alltaf líða betur. Elska þig ávallt. Þín

Valey.

Lauga móðursystir mín var næstyngst níu systkina, af þeim komust sjö til fullorðinsára. Hún var aðeins tveimur árum eldri en mamma og mikill kærleikur með þeim systrum. Þær voru saman í Húsmæðraskólanum á Löngumýri veturinn 1949-1950. Lauga bjó lengst af í Kópavogi í grennd við okkur og var mikill samgangur milli heimilanna. Þær systur höfðu sameiginlegan þvottadag. Þá kom Lauga með óhreina tauið af Borgarholtsbrautinni til að setja í suðupottinn á Kópavogsbrautinni. Síðar komu til sögunnar sjálfvirkar þvottavélar og þá lagðist þessi þvottasuða af.

Lífið var ekki alltaf dans á rósum hjá Laugu. Áður en hún kynntist Sigfúsi lífsförunauti sínum eignaðist hún sveinbarn sem hlaut nafnið Ómar. Á þeim tíma var erfitt að vera einstæð móðir en Lauga naut mikils stuðnings frá sínu fólki, eins og vísan hér á eftir ber með sér, en hana orti Yngvi bróðir hennar og sendi henni á jólakorti þar sem bjó enn í föðurhúsum árið 1953:

Þá hefur risið við röðul nýjan,

dagur önnum hylltur.

Faðminn heitan, hlýjan

hamingjuvonum manna fylltur.

Við Sturla, sonur Laugu og Fúsa, vorum miklir mátar. Sturla lést fyrir aldur fram 1991 og fékk það mjög á Laugu en þá var hún nýorðin ekkja.

Lauga var alltaf í miklu sambandi við mig, eiginkonu mína og börnin okkar eftir að þau fluttu úr hreiðrinu. Hún prjónaði á þau ullarvettlinga og sokka, og síðar einnig á dætur Stellu Soffíu, dóttur okkar.

Í minningunni er Lauga brosandi og klædd upphlut og með skotthúfu, úti á grænu Rútstúni undir sumarsól á sautjánda júní, umkringd barnahópnum á þjóðhátíðardegi.

Við vottum aðstandendum samúð okkar.

Jóhannes, Ólöf og börn.

Elsku Lauga, uppáhaldsfrænka mín, kvaddi á vopnahlésdaginn.

Þú ert Lauga lífið mitt

ljómar augað bjarta.

Ástar flaug nú yndið þitt

og inn mér smaug í hjarta.

(Pétur J. Hraunfjörð)

Guðlaug Hraunfjörð Pétursdóttir var systir móður minnar, Ólafar P. Hraunfjörð, en um leið svo miklu miklu meira. Hún var lág vexti og hnellin með rautt kartöflunef sem hún talaði oft um í gamansömum tón.

Þær mamma voru mjög nánar enda mjög stutt á milli þeirra og þær langyngstar í stórum systkinahópi. Við börn þeirra systra vorum meira og minna alin upp eins og systkini.

Lífsbaráttan var hörð í þá daga og þær mótuðust sannarlega af þeim aðstæðum. Foreldrar þeirra voru verkafólk. Þær systur voru aldar upp við það að hjálpa ætíð þeim sem minna höfðu milli handanna og við ríka réttlætiskennd.

Nú þegar lífshlaupi þessarar merku konu er lokið þá koma ótal góðar minningar upp í hugann. Ég naut þeirra forréttinda að vera í fóstri hjá þeim sómahjónum Laugu og Fúsa sem áttu þá fjögur börn og varð ég strax ein af þeirra eigin börnum. Þá var ég fimm og sex ára en mamma mín dvaldi vegna veikinda uppi á spítala. Þegar pabbi fór með mig til Laugu plataði hún mig til að víkja aðeins frá honum í litla eldhúsinu á Borgarholtsbrautinni. Hún sagði mér að Tryggvi væri grænn af öfund af því ég ætti svo flotta ferðatösku. Forvitnin rak mig þá upp á loft til að sjá hversu grænn hann væri svo að pabbi hefði færi á að fara. En Tryggvi var auðvitað ekkert grænn í framan.

Lauga var ákveðin, með mjög eindregnar pólitískar skoðanir og var virk í verkalýðsbaráttunni. Hún var algjör lestrarhestur. Hún fór ekki í launkofa með skoðanir sínar og var afar hreinskiptin, sagði þær umbúðalaus hvort sem fólki líkaði betur eða verr. Hún var þrjósk og fljótfær sem var auðvitað bæði kostur og galli. Hún vann alla tíð sem verkakona og tók þátt í verkalýðsmálum hjá Sókn og fleiri félagasamtökum því réttlætiskenndin var henni í blóð borin. Á fermingardaginn minn kom Lauga seint vegna þess að hún hafði að sjálfsögðu verið í mótmælunum sem voru haldin 20 árum eftir Nató-aðild.

Þegar mamma dó fyrir 11 árum þá reyndist Lauga mér mjög vel. Hún hringdi iðulega í mig og við töluðum mikið saman um allt milli himins og jarðar. Árið 2020 fór ég í stóra opna hjartaaðgerð þá strauk hin níræða Lauga af elliheimilinu bara til að heimsækja mig. Það voru nú ekki margir sem léku það eftir í febrúar í brjáluðu veðri, stalst í strætó og birtist á spítalanum. Hvílík kona sem gott var að eiga að.

Hins vegar má segja að Covid hafi algjörlega farið með elsku Laugu mína. Lokanir í Covid gerðu það að verkum að hvorki voru heimsóknir né nein félagsleg örvun í boði, sem hafði verulega áhrif á heilsu hennar.

Hún hringdi alltaf í mig á afmælinu mínu hvar sem ég var stödd sem ég kunni vel meta. En árið 2020 hringdi hún og sagðist ekki myndu hringja oftar í mig og stóð við það. Það er mikill söknuður sem fylgir því að kveðja Laugu sem er síðust þeirra Hraunfjörðssystkina til að fara. Megi Lauga móðursystir mín hvíla í friði.

Petrína Rós Karlsdóttir.

Eitt síðasta skiptið sem ég sá Laugu ömmusystur mína kom hún askvaðandi á spítalann í febrúar 2020 til að heimsækja systurdóttur sína, Petrínu Rós, móður mína, eftir að hún hafði farið í hjartaaðgerð. Hún hafði stungið af úr Sunnuhlíð, níræð, litlu hærri en göngugrindin sem hún studdi sig við. Hún gekk upp í Hamraborg í vetrarfærðinni og tók þaðan strætó út að Landspítala og sem betur fer hjálpaði velviljaður farþegi henni úr vagninum. Í heimsókninni vildi hún nú ekkert láta uppi um hvernig hún hefði komist en þáði far með mér til baka í Sunnuhlíð. Þegar ég reyndi svo að fá að fara með henni inn sagði hún með stríðnisröddinni sinni að konurnar mættu nú alls ekki komast að því hvert hún hefði verið að þvælast og hló sínum einstaka, kersknislega hlátri.

Lauga var nefnilega ofsalega skemmtileg. Eitt af því skemmtilegasta sem ég veit var þegar hún og amma sátu í öðru hvoru eldhúsinu sínu og töluðu saman eins og tvær smástelpur, skríkjandi og hlæjandi. Lauga var líka góð vinkona Aðalheiðar föðurömmu minnar og kom oft til hennar á Skjólbrautina. Hún var alltaf mjög hreinskiptin og veigraði sér ekki við að segja hlutina umbúðalaust. Það stendur enn upp úr þegar hún sagði einhvern tímann við mig að ég ætti ekki alltaf að vera svona andskoti þæg. Þetta er líklega eitt besta lífsráð sem ég hef fengið í gegnum tíðina. Hún elskaði börn, talaði oft og mikið um það við mig hvað Júlían litli bróðir minn væri skemmtilegt barn og talaði um dætur mínar eins og þær væru konungbornar. Lauga var ljóðelsk og hringdi eitt sinn til að hrósa mér fyrir fyrstu ljóðabókina mína, það þótti mér einstaklega vænt um, því ég veit að Lauga talaði alltaf beint frá hjartanu. Ég votta afkomendum Laugu mína innilegustu samúð.

Tárin

Dýpsta sæla og sorgin þunga

svífa hljóðlaust yfir storð.

Þeirra mál ei talar tunga,

tárin eru beggja orð.

(Ólöf frá Hlöðum)

Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir.