Guðmundur Skúli Johnsen
Margt hefur unnist lesblindum í hag á þeim tuttugu árum sem Félag lesblindra á Íslandi hefur starfað. Fjöldi kennara og fagfólk skólakerfisins á þakklæti skilið fyrir að vera boðið og búið að finna lausnir fyrir þau rúmlega tuttugu prósent nemenda sem eru með lesblindugreiningu. Lesblindir nemendur eru líklega ekki lengur sendir til að lesa fyrir skólastjóra sem leiðréttir þá eftir minni, eins og henti mig fyrir fimmtíu árum.
Í apríl síðastliðnum kynnti Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands niðurstöður þriggja ára rannsóknar sem unnin var fyrir Félag lesblindra á Íslandi. Þar kom m.a. fram að fimmti hver nemandi á aldrinum 18-24 ára hefur lesblindugreiningu. Líkur eru á að þeir séu fleiri, því greiningu fá frekar nemendur í verulegum vandræðum vegna lesblindu. Sú staðreynd að rúmlega tuttugu prósent nemenda eiga við alvarlega lesörðugleika að stríða kallar á umtalsverða stefnubreytingu í skólakerfinu. Skólarnir verða að mæta þessum stóra hópi bæði hvað varðar kennsluhætti sem og á hvaða hátt nemendur mega skila verkefnum og prófum. Þá þurfa þeir einnig að taka tillit til þess að lesblindir nemendur, einkum kvenkyns, eiga við mikinn kvíða að etja. Að greinast seint hefur mikil áhrif á skólagöngu lesblindra kvenna til lengri tíma. Að sögn viðmælenda rannsóknarinnar upplifðu lesblindir nemendur vanmátt gagnvart því að standa jafnfætis bekkjarfélögum og efasemdir gagnvart eigin hæfni til náms.
Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að greinist lesblinda fyrir 10 ára aldur má bregðast verulega við kvíðanum sem fylgir henni. Því getur skóli sem aðlagar kennsluaðferðir sínar hinum lesblindu og veitir þeim aðstoð og skilning, dregið verulega úr kvíða þeirra. Skólarnir geta því komið í veg fyrir að lesblindir nemendur flosni upp úr námi. Greining lesblindra nemenda í upphafi skólagöngunnar ætti því að vera eitt af meginmarkmiðum skólakerfisins.
Leggjumst á eitt við að finna og halda utan um þá lesblindu nemendur sem hefja skólagöngu. Hjálpum þeim að skilja hvers vegna textaumhverfið getur framkallað kvíða og veitum þeim strax þær bjargir sem þegar eru til innan skólakerfisins. Skýrum út fyrir þeim að þeir þurfi aðrar kennsluaðferðir til að læra námsefnið svo þeir standi jafnfætis samnemendum sínum. Sýnum þeim vinsemd og virðingu með því að mæta þeim þar sem þeir eru.
Höfundur er formaður Félags lesblindra á Íslandi.