Líney Sigurðardóttir
Þórshöfn
Fimm útgerðarmenn fluttu lögheimili útgerða sinna frá Raufarhöfn fyrir skömmu en þeir stunda allir strandveiðar. Núverandi fyrirkomulag strandveiða gerir þeim ekki mögulegt að byggja afkomu sína á veiðum á svæði C á sínum heimaslóðum því þar er lítið annað að fá en verðlítinn smáfisk á þessum árstíma. Þeir sáu þann kost vænstan að flytja burt og stunda strandveiðar á arðbærari svæði fyrir vestan þar sem stór fiskur er genginn á miðin.
Einar E. Sigurðsson er einn þeirra útgerðarmanna sem fluttu útgerðina frá Raufarhöfn og gerir nú út frá Grundarfirði.
„Við erum þrír frá Raufarhöfn sem fluttum okkur til Grundarfjarðar en tveir fóru á Skagaströnd og Hornafjörð. Ég vildi gjarnan geta gert út frá Raufarhöfn og við allir auðvitað, en við gáfumst hreinlega upp, heima er ekkert að hafa. Það var töluvert umstang að flytja lögheimili útgerðanna og fyrsta vika strandveiðanna fór hreinlega í það stúss.“
Einar segir ágæta veiði hafa verið fyrir vestan frá því hann hóf þar veiðar og ef fer sem horfir er líklegt að heildarpotturinn verði búinn strax í fyrstu viku í júlí en þá er stór fiskur rétt að byrja að veiðast á svæði C.
„Þetta fyrirkomulag strandveiða er hreinlega aðför að brothættum byggðum sem missa dýrmæta tekjustofna, svo sem afla- og vigtargjöld, einnig ýmis afleidd störf við verslun og þjónustu, fiskmarkað og fleira. Okkur líður eins og verið sé að hrekja okkur burt að heiman. Sú hætta er líka fyrir hendi að menn komi ekki aftur eftir svona flutninga milli veiðisvæða og ekki er nýliðun björt í þessari grein. Með óbreyttu fyrirkomulagi er líklegt að strandveiðar leggist af á þessu svæði.“
Sveitarfélögin álykta
Það væri mun sanngjarnara ef veiðidögunum sem stjórnvöld treysta sér til að láta á hverju ári væri úthlutað á hvern bát og síðan nýtti skipstjóri
sína daga. Tímasetningin er þá misjöfn milli landshluta hvenær trillur róa hér og þar; t.d. í Vestmannaeyjum róa þeir í mars til maí en á Þórshöfn og Raufarhöfn er besti tíminn frá júlí til september, segja strandveiðisjómenn.
Sveitarfélögin sjá í hvað stefnir og nýverið sendu Langanesbyggð, Norðurþing og Múlaþing frá sér áskorun um strandveiðar til Alþingis og matvælaráðherra þess efnis að jafna afkomumöguleika strandveiðisjómanna óháð búsetu. Það verði gert með lögfestingu ákveðins veiðidagafjölda án stöðvunar veiða þegar heildarpotti er náð. „Þar til því takmarki er náð krefjumst við þess að núverandi strandveiðipotti verði skipt á veiðisvæði í réttu hlutfalli við útgefin strandveiðileyfi á viðkomandi svæði,“ segir í áskoruninni.
Á Þórshöfn eru nú sex bátar á strandveiðum og er þungt í þeim hljóðið: „Menn eru lengur að ná dagskammtinum, fiskurinn er smærri og verðið þar með lélegt. Ef grásleppan verður svo sett í kvóta þá er tími til kominn að skipta um kúrs, maður er hættur að geta lifað af þessu,“ sagði útgerðarmaðurinn Halldór Rúnar á Þórshöfn.