Böðvar Ingvason
Málið hefst á því að Emilía AK 57 kemur að bryggju (samkvæmt Fiskistofu kl. 00.30 hinn 22. sept. 2022) og löndun á lifandi grjótkrabba lokið kl. 03.00. Komið fyrir í kerum með sírennsli.
Grjótkrabbinn færður til vigtunar kl. 10.00 (samkvæmt Fiskistofu). Komið fyrir aftur í sírennsli.
Athugasemdir Emilíu AK 57:
Emilía AK hafði munnlegt leyfi frá Fiskistofu til að vigta grjótkrabbann þegar hann væri sendur til kaupanda meðan verið var að gera tilraunir með hvort hægt væri að halda honum lifandi í kerum. Grjótkrabbi er aðeins söluvara ef hann er lifandi.
Stuttu áður en umrædd löndun átti sér stað hafði eftirlitsmaður Fiskistofu komið á bryggjuna og spurt hvort mögulegt væri að vigta strax við löndun og var orðið við því.
Grjótkrabbi er vandmeðfarinn; hann drepst ef hann verður fyrir hnjaski og getur drepist úr stressi.
Ekki var möguleiki að geyma grjótkrabbann í bátnum til morguns, eins og gert væri ef um fisk væri að ræða, því þá væri hann allur dauður.
Skipstjóri Emilíu taldi ekki forsvaranlegt að kalla út vigtarmann um nótt og valda Faxaflóahöfnum umtalsverðum kostnaði með fjögurra tíma útkalli vigtarmanns.
Það er verið að vinna frumkvöðulsstarf sem margir fylgjast með.
Það á að gefa skriflega áminningu við fyrsta brot eins og segir í bréfi Fiskistofu sjálfrar í 15. gr. 3 mgr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar.
Faxaflóahafnir hafa ekki mannað hafnarvigtina þegar löndun er í gangi og tveggja tíma reglan brotin nánast daglega á strandveiðitímabilinu.
Smábátafélagið Sæljón á Akranesi hefur sent fundarályktanir á Faxaflóahafnir þar sem óskað er eftir því að vigtin sé mönnuð þegar landað er, ekki síst á strandveiðitímabilinu síðastliðin fimm ár.
Því hefur aldrei verið svarað og ekki orðið við því.
Því finnst mér það undarleg ákvörðun hjá Fiskistofu að svipta minn bát, Emilíu, veiðileyfi í eina viku fyrir fyrsta brot.
Ekki er fjárhagslegur ávinningur af brotinu, ef undan er skilið um 7.000 kr. gjald vegna vigtunar utan þjónustutíma.
Brotið átti sér stað í september 2022 og veiðileyfissviptingin kemur í mars 2023 og er í gildi þegar grásleppuvertíðin hefst. Grásleppuveiðar eru einn helsti grundvöllur fyrir rekstri útgerðarinnar og veitir öðrum útgerðum forskot varðandi netalagnir.
Fiskistofa hefur allan tímann vitað hvernig ástandið væri hér á Akranesi.
Það er rangt hjá Faxaflóahöfnum að ekki hafi komið upp tilvik þar sem vigtarmaður sinnir ekki útkalli.
Vonir eru bundnar við að breyting verði á þessu strandveiðitímabili, þótt forsvarsmenn Faxaflóahafna hafi ekki séð ástæðu til að mæta á nýafstaðinn samstöðufund við upphaf strandveiða.
Það hefur orðið breyting til batnaðar eftir að brotið átti sér stað. Og ég svaraði sex síðna bréfi Fiskistofu vegna vigtarbrotsins.
Það er neyðarúrræði að þurfa að koma skilaboðum til opinberra stofnana í gegn um fjölmiðla.
Faxaflóahafnir svara ekki fyrirspurnum og verða ekki við því ef óskað er eftir fundi.
Fiskistofa skellir á viðmælendur, neitar að hitta aðila máls og hefur ekki samband þegar óskað er eftir því.
Sú spurning vaknar hvort Fiskistofa hafi gætt meðalhófs, hvort brotið hafi verið það alvarlegt að það verðskuldi atvinnumissi og tekjutap.
Það eiga allir rétt á því að stofnanir og nefndir á vegum þess opinbera svari erindum fljótt og með rökum.
Starfsmenn opinberra stofnana eru þjónar fólksins í landinu sem greiðir þeim launin.
Höfundur er trillusjómaður og rekur fiskmóttöku.