Evrópuráðið Emmanuel Macron flytur ræðu við opnun fundarins.
Evrópuráðið Emmanuel Macron flytur ræðu við opnun fundarins. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Amnesty International kallar eftir því að gripið verði til aðgerða í tilefni af leiðtogafundi Evrópuráðsins sem nú fer fram í Hörpu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem samtökin sendu frá sér í vikunni

Amnesty International kallar eftir því að gripið verði til aðgerða í tilefni af leiðtogafundi Evrópuráðsins sem nú fer fram í Hörpu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem samtökin sendu frá sér í vikunni.

Draga þarf Rússland til ábyrgðar

Amnesty International leggur til að kerfi Evrópuráðsins verði bætt og gert skilvirkara. Leiðtogafundurinn eigi að vera tækifæri fyrir Evrópuráðið til þess að stíga skref í átt að því að draga Rússa til ábyrgðar vegna stríðsins og hinna mörgu brota þeirra á alþjóðlegum mannúðarlögum og mannréttindum í stríðsátökunum.

Aðildarríkin ættu að nýta leiðtogafundinn til þess að setja baráttuna gegn skerðingu borgaralegs samfélags og fyrir verndun óháðra og hlutlausra dómstóla í forgang, segir í tilkynningu. Þá ættu aðildarríkin að berjast gegn bakslagi í réttindum kvenna og hinsegin fólks.

Leggja ætti minni áherslu á að koma á fót nýjum stofnunum og ríkari áherslu á að efla núverandi kerfi, segir jafnframt í tilkynningunni.

Síðast en ekki síst ætti Evrópuráðið í formennskutíð Íslands að nýta það mikilvæga tækifæri sem leiðtogafundur Evrópuráðsins felur í sér til þess að þrýsta á aðildarríki að efla vernd mannréttinda í álfunni.