Aðalsteinn Ómar Aðalsteinsson rennismíðameistari fæddist í Reykjavík 21. maí 1947. Hann lést á heimili sínu 5. maí 2023.

Foreldrar hans voru hjónin Aðalsteinn Guðjón Guðbjartsson, sjómaður og síðar verkstjóri, f. 27.4. 1899, d. 26.9. 1973, og María Ástmarsdóttir húsmóðir, f. 3.3. 1904, d. 10.5. 2000.

Alsystkin: Rósa, f. 17.2. 1941, fv. kennari og skólastjóri, maki Úlfar Brynjólfsson, fv. bóndi og skólabílstjóri, f. 4.1. 1932, og Sigrún, kennari og myndlistarkona, f. 28.5. 1944, d. 5.3. 1975, maki Eyjólfur Haraldsson læknir, látinn.

Systkini samfeðra: Svanur Eyland, f. 10.2. 1934, d. 24.10. 1973, maki Hjördís Jónasdóttir, látin, og Elín Sigríður, f. 4.7. 1936, maki Arnar Ágústsson, látinn.

Aðalsteinn hittir konuna sína Sigurlaugu fimmtudaginn fyrir þjóðhátíð árið 1968 og giftu þau sig 2. janúar 1971. Sigurlaug fæddist 21.9. 1945 en lést 17.6. 2019. Synir þeirra hjóna eru: 1) Guðlaugur, f. 22. apríl 1964, sambýliskona hans er Hjördís Jónsdóttir, dætur Anika og Íris Helga. 2) Andri Snædal, f. 25. janúar 1969, eiginkona Eyrún Pálsdóttir, börn Aron Freyr, Sandra og Páll Snædal. 3) Eyjólfur Snædal, f. 22. október 1975, eiginkona Vigdís Gígja Ingimundardóttir, dætur Ylfa Ásgerður og Eyja Móheiður.

Aðalsteinn og Sigurlaug eiga 13 barnabarnabörn.

Aðalsteinn ólst upp í Skerjafirðinum með foreldrum og systrum, hann lærði rennismíði í Iðnskólanum og hjá Vélsmiðjunni Héðni, hann útskrifast sem sveinn árið 1967 og vann þá sem rennismiður í 56 ár.

Eftir fjórtán ár hjá Héðni var hann fenginn til að setja upp og sjá um renniverkstæðið í Njarðvíkurslipp. Gerði við þungavinnuvélar á Keflavíkurflugvelli. Eftir góð ellefu ár í Njarðvík réð Aðalsteinn sig á Hrafn Sveinbjarnarson sem frystihúsavélstjóri og var þar í sex ár. Var baadermaður á frystitogurum. Síðan lá leiðin til Óðinsvéa í kornmyllufæribandavinnuvélaviðgerðir í tvö ár.

Hann byrjaði að vinna hjá Brunnum þegar hann kom aftur heim til Íslands 1997. Hann var einn af lykilmönnum í þróun á krapavélinni og átti stóran þátt í smíði á fyrstu vélinni sem seinna átti eftir að umbylta kælingu á nýveiddum fiski um borð í skipum og síðar í framleiðslu í landi og hélt hann því áfram þar til hann lést.

Brunnar skiptu um nafn í Optimar Ísland. KAPP ehf eignaðist Optimar Ísland 2015 og þar byrjaði Aðalsteinn að vinna hjá KAPP.

Hann var formaður prófnefndar í vélsmíði á Reykjanesi í rúman áratug og samdi þar sveinspróf í öllum tegundum málmsmíða.

Hann var fenginn af menntamálaráðuneytinu til að búa til fyrstu samræmdu sveinsprófin í járniðnaði.

Aðalsteinn var menntaður byssusmiður og lagði metnað í gæði frekar en magn í smíðinni.

Útförin fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 17. maí 2023, klukkan 13.

Elsku pabbi. Það eru þvílík forréttindi að hafa fengið þig og mömmu sem foreldra og fyrirmyndir í þessu lífi. Gæði og stöðugleiki, eins og nafnið þitt gefur til kynna, einkenna þig í einu og öllu, þú varst fórnfús, örlátur og hjálpsamur og alltaf úrræðagóður. Þú gafst þér alltaf tíma til að sinna öðrum, oftast eftir langan dag í vinnu. Mamma þurfti ekki annað en að gefa þér merki og þú varst rokinn af stað að sækja það sem vantaði, hvað sem það kunni að vera. Þú hafðir unun af að segja sögur og gerðir það alltaf svo vel. Minni þitt var svo gott að þú gast rifjað upp alls kyns smáatriði og tengingar og sagðir ævintýralegu sögurnar sem afi sagði þér frá siglingaárunum sínum á lifandi hátt. Þú hafðir unun af bundnu máli og þar kom góða minnið sér vel. Þegar þú varst ekki í vinnunni hringdu stundum vinnufélagarnir og vantaði hvers kyns upplýsingar og aldrei stóð á svari. Þetta veitti þér gleði og kitlaði stoltið, því þitt annað heimili var standandi við rennibekkinn. Þú sagðir að það væri hægt að gera allt í rennibekk nema búa til börn, það yrði maður að gera annaðhvort ofan á rennibekknum eða undir honum! Alltaf stutt í grínið og brosið. Það var þér mikið áfall þegar mamma dó og ég er þakklátur fyrir að hafa getað verið hjá þér með stelpurnar fyrstu mánuðina á eftir og getað stutt við þig í gegnum sárasta sorgarferlið. Því ferli lauk í raun ekki fyrr en þú lést, á sama stað og mamma, í rúminu heima. Núna sé ég ykkur fyrir mér í bíltúr í Sumarlandinu og samgleðst ykkur að vera saman að nýju. Ég elska ykkur að eilífu.

Ykkar sonur,

Eyjólfur.

Elsku afi minn, nú ertu farinn í sumarlandið til hennar ömmu sem þú saknaðir og elskaðir svo innilega mikið.

Ég man alltaf eftir þér sem hörkuduglegum manni, þú varst vel liðinn í vinnunni þinni, varst vinmargur og gerðir allt fyrir alla.

Ég mun sakna þess að geta ekki leitað til þín, elsku afi minn.

Þú tókst að þér svo mikið af verkefnum í gegnum tíðina og kláraðir þau öll og rúmlega það, en svo var þér gefið enn eitt verkefnið og var það meinið þitt. Þetta mein varð til þess að þú veiktist hratt og mikið og tókst þér ekki að klára það verkefni, elsku afi minn.

Síðustu vikur hafa verið svakalega erfiðar, en vá, hvað ég var stolt af þér, elsku afi minn. Í dag sitjum við fjölskyldan eftir í sárum en hlýjum okkur við góðar minningar af þér, afi minn. Þú varst með risastórt hjarta úr gulli, faðmlag sem erfitt var að sleppa og risastóra lófa.

Þrjóskari manni hef ég ekki kynnst, og er ég þakklát fyrir það í dag, þakklát fyrir það að þú harðneitaðir að láta leggja þig inn á spítala, því þú, elsku afi minn, fékkst að sofna svefninum langa heima í rúminu ykkar ömmu, alveg eins og þú vildir.

Ég er svo glöð að hafa fengið að veita þér almenna aðhlynningu síðustu daga lífs þíns, það var mér mikill heiður.

Það er svo ósanngjarnt að meinið hafi sigrað þetta verkefni, elsku afi minn, þú varst ekki hættur að vinna en varst búinn að koma upp þessari góðu aðstöðu heima sem þú ætlaðir að nýta þér þegar þú hættir að vinna og halda áfram að búa til eitt af þessum frábæru verkum á rennibekknum þínum, elsku afi minn.

Sævar minn keppti á fótboltamóti nýlega, hann skoraði nokkur mörk, en eftir fyrsta markið hans kom sá stutti svakalega stoltur út af vellinum og sagði „Mamma, þetta mark var fyrir langafa og langömmu.“

Við elskum þig endalaust, elsku afi minn.

Knúsaðu ömmu Lillu frá okkur.

Þangað til næst,

Sandra
Andradóttir.

Hvernig skrifar maður minningargrein um litla bróður sinn, sem þó var orðinn harðfullorðinn þegar hann lést?

Skrifar maður um litla strákinn, sem fór stundum í taugarnar á systurinni, sem var sex árum eldri? Um þrjóskuna í honum, sem kom svo aftur fram seinna í lífinu, í setningunni, sem hann sagði svo oft: „Allt er mögulegt, það ómögulega tekur bara lengri tíma!“

Eða um fullorðinsárin, þegar ástin á fjölskyldunni, Lillu og strákunum hans, litaði alla dagana? Kærleikurinn til foreldra og systkina, sem sást ekki síst í því, að hann reyndi að leysa öll vandamál sem upp gátu komið?

Kannski síðustu árin, eftir að hann missti elsku Lillu sína, þegar hann fann alla hlýjuna frá samstarfsmönnum, sem kom m.a. fram þegar hann fékk ekki að hætta að vinna sjötugur, og það var líka hans ósk, ekkert vissi hann betra en fá að standa við rennibekkinn hjá þeim í Kapp.

Við systkinin vorum mjög náin og hann og Lilla heimsóttu okkur Úlfar oft og svo hann einn eftir að hún fór, eða með einhvern úr nærfjölskyldunni með sér.

Síðustu árin ferðuðumst við svo aðeins saman og ætluðum að gera mikið meira af því.

En sumt verður aldrei:

Ferðin okkar saman vestur, á æskuslóðir foreldra okkar. Hún verður aldrei farin.

Ferðin okkar saman til að heimsækja skyldfólkið okkar í Bláskógabyggð. Hún verður aldrei farin.

Ferðin okkar til Sandgerðis, til að sjá aftur „Þorstein,“ bátinn sem var svo lengi hluti af lífi okkar. Hún verður aldrei farin.

Ferðin að Mosfelli í Grímsnesi, sem við ætluðum að fara, mest vegna þess, að mig langaði svo til að taka mynd af honum við kirkjudyrnar, en hann smíðaði lamirnar sem prýða þær. En sú ferð verður aldrei farin.

En ég lofa því, litli bróðir, að ég fer þessar ferðir allar, ef ég mögulega get, og vona að þú getir fylgst með mér og brosir út í annað að litlu/stóru systur.

En nú er hann farinn, elsku bróðir minn, og við hjónin og börnin okkar syrgjum hann. Hann er áreiðanlega á góðum stað, laus við þjáningarnar og því er þetta góð lausn, fyrst svo var komið.

Innilegar samúðarkveðjur til allrar fjölskyldunnar.

Sæll, elskan mín, við sjáumst síðar.

Rósa og Úlfar.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Um engan veit ég sem þessi orð eiga betur við en Adda frænda minn. Hann gat sér hvarvetna góðan orðstír og var alls staðar aufúsugestur.

Fyrstu minningar mínar um hann tengjast því hvað ég varð ofur spennt þegar hann kom í heimsókn og lyfti mér upp að eldhúsloftinu svo ég gæti kysst loftið. Það var nefnilega enginn stærri en besti frændinn í heimi.

Löngu seinna gerði hann það sama fyrir mín börn og ég sá þau ljóma eins og ég er viss um að ég hef líka gert svo mörgum árum fyrr. Ég get enn kallað fram minningu um tilfinninguna, spennuna og gleðina sem fylgdi.

Það var mér sérstakt gleðiefni að sjá hversu djúpt og innilegt samband myndaðist milli hans og dóttur minnar en það samband styrktist fram á síðasta dag.

Elsku Addi frændi, hvað ég dáðist að þér og þínu æðruleysi þegar þú misstir klettinn í lífi þínu, hana Lillu þína. Hvernig þér tókst að halda áfram í hennar minningu. Þú sagðir þá oft: „Ég er viss um að Lilla hefði viljað hafa það svona.“

Og nú eruð þið sameinuð á ný, um það efast ég ekki.

Elsku Gulli, Andri, Eyfi og fjölskyldur, missir ykkar er mikill og hjarta okkar og hugur er hjá ykkur á þessari erfiðu kveðjustund. En þar eins og í svo mörgu öðru getum við tekið okkur Adda frænda til fyrirmyndar og lifað áfram í fullvissu þess að við munum hittast á ný þegar okkar tími kemur.

Ást og friður,

Guðlaug Úlfarsdóttir.