Jón Guðni Sandholt fæddist 15. júlí 1958 í Reykjavík. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans 15. maí 2023 í faðmi fjölskyldunnar.

Faðir hans var Óskar Jörgen Sandholt rennismiður, f. 22. apríl 1922 í Kaupmannahöfn, d. 22. ágúst 1985 í Reykjavík. Móðir hans var Þórdís Jónsdóttir Sandholt húsfreyja, f. 28. mars 1930 í Reykjavík, d. 27. mars 2019 í Reykjavík.

Systkini Jóns Guðna: Þórunn Sandholt, Gerður Sandholt, gift Ívari Björnssyni. Guðbjörg Sandholt, Jens Sandholt, giftur Elínu Láru Eðvarsdóttur. Óskar Jörgen Sandholt, giftur Clair Janine de Vries.

Jón Guðni ólst upp í Sólheimum 16 í Reykjavík. Gekk í Vogaskóla og í framhaldi af honum fór hann í Iðnskólann í Reykjavík og lauk prófi þaðan sem húsasmiður árið 1981. Alla sína tíð starfaði Jón Guðni sem athafnamaður og löggiltur fasteignasali.

Eiginkona Jóns er Lára Sandholt, f. 3. júní 1956 í Hafnarfirði. Þau giftust 31. janúar 1990. Foreldrar hennar voru Jónatan Guðbrandsson, f. 11. janúar 1926, d. 30. september 1978, og Guðmunda Kristín Guðmundsdóttir, f. 11. maí 1925, d. 25 desember 2017. Börn Jóns Guðna og Láru eru: 1) Guðrún Katrín Sandholt, f. 21. nóvember 1975, gift Sæmundi Magnússyni, börn þeirra eru Jón Davíð Sandholt, í sambúð með Guðrúnu Valmundsdóttur, eiga þau Þórdísi Katrínu Sandholt, Magnús Andri Sæmundsson, látinn, og María Margrét Sæmundsdóttir. 2) Helga Margrét Sandholt, f. 11. september 1979, hennar börn eru Enzo Gabríel og Lára Teresa. 3) Jón Guðni Sandholt, f. 24. janúar 1990, í sambúð með Lenu Kristínu Þórðardóttur, börn þeirra eru Jón Guðni Sandholt og Móeiður Mía Sandholt. 4) Líney Sif Sandholt, f. 24. janúar 1990, börn hennar Elísabet Lára Sandholt og Erik Freyr Sandholt. 5) Þórunn Sandholt, f. 19. júní 1979, barn hennar Aníta Örk Sigurðardóttir.

Jón og Lára bjuggu flest sín ár í Garðabæ, en síðustu ár Jóns í Mosfellsbæ.

Jarðarförin fer fram frá Víðistaðakirkju í dag, 24. maí 2023, klukkan 13.

Elsku besti pabbi, ég veit ekki hvar eða hvernig ég á að byrja. Það er svo óraunverulegt að sitja og skrifa til þín minningarorð og að hugsa til þess að fá aldrei aftur að heyra í þér eða hitta. En svona er því miður lífið, allt fyrirframákveðið eins og þú sagðir gjarnan.

Þú varst jákvæðasti, umhyggjusamasti og traustasti maður sem ég hef á ævinni kynnst. Alveg sama hversu veikur þú varst í þinni baráttu við krabbameinið þá varstu alltaf til staðar fyrir mig og skipti ekki máli ef eitthvað lá mér á hjarta, þá svaraðirðu mér og gafst þér alltaf tíma fyrir mig. Þú mótaðir mig að þeim manni sem ég er í dag og kenndir mér að hafa trú á sjálfum mér og þeim verkefnum sem ég tók mér fyrir hendur og því er ég þér svo þakklátur, ég veit þú varst stoltur af mér.

Ég er líka svo þakklátur fyrir að hafa fengið að hafa þig sem mentor í því sem ég gerði en starfið okkar var eitt af áhugamálunum sem við deildum. Við spiluðum golf, veiddum saman, unnum saman og áttum okkar trúnaðarfundi sem eru mér svo kærir en ég gat treyst þér fyrir öllu.

Ég mun sakna þín svo mikið og er mér heiður að vera alnafni þinn en ég fékk svo oft að heyra „þú ert alveg eins og pabbi þinn“ og aldrei varð ég þreyttur á því að heyra það því þú varst fyrirmyndin mín í einu og öllu.

Pabbi minn, ég elska þig, sakna þín og mun ávallt hugsa um þig.

Þinn sonur,

Jón Guðni (Nonni).

Elsku pabbi minn. Ég trúi ekki að það sé komið að stundinni sem ég hef hræðst frá því ég var lítil stelpa, að ég þurfi að skrifa minningargrein um þig elsku besti pabbi minn. Þú hefur alltaf verið svo stór og mikilvægur hluti af lífi mínu að ég hreinlega veit ekki hvernig ég á að halda lífinu áfram án þín. Það var alveg sama hvað það var, ég gat alltaf leitað til þín og þú gafst alltaf bestu ráðin og faðmlögin, elsku hjartans pabbi minn, sem ég mun sakna svo sárt. Það skipti ekki máli hvað það var, þú hafðir svör við öllu og ég treysti engum betur en þér til að ráðleggja mér, hvort sem það var að velja um dress fyrir árshátíð eða sófa inn á heimilið þá leitaði ég alltaf til þín og þú varst alltaf svo áhugasamur að hjálpa mér að velja. Ég tók engar stórar ákvarðanir án þess að bera það undir þig, enda vissir þú allt best.

Þú hefur alltaf verið mín stærsta fyrirmynd og verður það alltaf. Þú kenndir mér svo margt, elsku pabbi minn, og studdir mig í einu og öllu og fyrir það er ég ævinlega þakklát. Þú lést mig alltaf finna hversu stoltur þú værir af mér og sagðir það svo oft við mig og ég við þig, því stoltari dóttur er ekki hægt að finna. Þú varst góður við alla og alltaf svo jákvæður og bjartsýnn og hafðir svo góða nærveru, enda sogaðir þú fólk að þér úr öllum áttum og ótrúlegasta fólk leitaði til þín.

Elsku pabbi minn, ég veit ekki hvernig við munum halda lífinu áfram þegar þú ert ekki með okkur en þú verður með okkur í huganum alltaf og ég mun halda áfram að leita til þín. Ég ætla halda áfram að gera þig stoltan af mér og vera sterk fyrir elsku mömmu og ég lofa þér að passa upp á elsku mömmu fyrir þig. Ég er svo óendanlega heppin að hafa átt foreldra sem elskuðu hvort annað jafn mikið og þú og mamma gerðuð. Þið voruð bestu vinir og ástin á milli ykkar fór ekki fram hjá neinum og það er eitthvað sem ég mun taka sem veganesti inn í mitt líf því betri gjöf er ekki hægt að gefa barni en að alast upp á ástríku heimili.

Elsku hjarthlýi, fallegi og besti pabbi minn. Ég elska þig svo ólýsanlega mikið og sakna þín meira en ég get lýst.

Ég verð alltaf lillan þín og prinsessan þín eins og þú kallaðir mig alltaf.

Leiddu mína litlu hendi,

ljúfi Jesús, þér ég sendi

bæn frá mínu brjósti, sjáðu,

blíði Jesús, að mér gáðu.

Hafðu gát á hjarta mínu

halt mér fast í spori þínu,

að ég fari aldrei frá þér,

alltaf, Jesús, vertu hjá mér.

Um þig alltaf sál mín syngi

sérhvern dag, þó eitthvað þyngi.

Gef ég verði góða barnið,

geisli þinn á kalda hjarnið.

(Ásmundur Eiríksson)

Þín lilla og prinsessa að eilífu,

Líney Sif Sandholt.

Elsku yndislegi pabbi kvaddi okkur hinn 15. maí síðastliðinn. Pabbi minn gat allt og kunni allt. Ef eitthvað var að þá var faðmur pabba alltaf opinn, tilbúinn til að ráðleggja hvort sem það var um fatainnkaup eða hvernig ég átti að klippa rósirnar á svölunum. Hann lét ekkert draga sig niður og var bjartsýnismaður. Trúði á mátt hugans og sá það góða í öllum. Ég er svo þakklát fyrir allt sem hann kenndi mér; að vera bjartsýn, góðhjörtuð, skipulögð og mest af öllu að vera góð mamma. Pabbi barðist við erfið veikindi síðastliðin ár, hann hafði óbilandi trú á að hann myndi sigrast á þeim og það höfðum við líka. En það varð ekki raunin.

Elsku yndislegi pabbi, takk fyrir allar þær stundir sem við áttum saman og þær voru margar. Allar minningarnar frá Svíþjóð þegar ég kom hverja helgi með Láru, Enzo og Lunu. Alltaf tókst þú á móti okkur með bros á vör og hlýjan faðm. Pabbaknús voru einstök og gátu rekið allar áhyggjur í burtu. Ég mun sakna þín óendanlega en held minningu þinni á lofti með jákvæðni og hjartahlýju eins og þú kenndir mér.

Þín dóttir,

Helga.

Elsku pabbi kvaddi okkur hinn 15. maí síðastliðinn, eftir erfið veikindi. Ég veit það að Maggi minn hefur tekið á móti afa sínum. Þetta er alveg óskiljanlegt og ósanngjarnt að missa son sinn og pabba sinn á þremur mánuðum. Pabbi minn var sá jákvæðasti, duglegasti, lét ekkert draga sig niður. Við systkinin gátum alltaf leitað til hans, hvort sem það var fjárhagur, húsgagnakaup, fatakaup, bara hvað sem var, þá hafði hann skoðun á öllu og öll ráð komu frá hjartanu. Pabbi var mesti öðlingur sem hægt var að finna, allir sem fengu þann heiður að kynnast honum hafa þá sögu að segja. Pabbi lét aldrei deigan síga; alveg sama hvað, þá stóð hann alltaf uppréttur og málin redduðust. Þegar mamma og pabbi fluttu til Svíþjóðar sagði pabbi við mig: „Gunna mín, þú ert elst og litlu krakkarnir hlýða þér.“ Elsku pabbi minn, ég mun alltaf standa sterk fyrir þig, mömmu og yngri systkini mín, því þú kenndir mér það. Ég verð alltaf þakklát fyrir allt sem þú kenndir mér, þú varst sá allra besti. Elska þig alveg óendanlega mikið, þangað til næst.

Þín

Guðrún (Gunna).

• Fleiri minningargreinar um Jón Guðna Sandholt bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.