Hagyrðingsins og orðsnillingsins Jóns Ingvars Jónssonar er sárt saknað. Hann kom oft í messu til séra Hjálmars og orti eitt sinn: Sál mín gleðst ef sæki ég messu og sest á harða kirkjubekki Mér verður ekki meint af þessu meðan Hjálmar tónar ekki

Hagyrðingsins og orðsnillingsins Jóns Ingvars Jónssonar er sárt saknað. Hann kom oft í messu til séra Hjálmars og orti eitt sinn:

Sál mín gleðst ef sæki ég messu

og sest á harða kirkjubekki

Mér verður ekki meint af þessu

meðan Hjálmar tónar ekki.

Einu sinni átti hann leið fram hjá Alþingi og var á hjóli. Þá var tveggja flokka ríkisstjórn sem margir voru að hnjóða í – eins og gengur. En það var svo gott veður að hann nennti ekki að ljúka vísunni á þeim nótum:

Stjórnin hefur höfuð tvö.

Hún er völt á stóli

Þetta ljóð frá a til ö

orti ég á hjóli.

Heyr mína bæn er yfirskrift vísu Guðmundar Arnfinnssonar sem líst hreint ekki á blikuna er hann horfir til veðurs. Skyldi engan undra.

Vott er þetta veðurfar,

varla styttir upp í bráð,

elsku Drottinn allsherjar

okkar líttu til í náð.

Svo prjónar hann við:

Rætist ekki óskin mín,

og ekki verði á regni lát,

breyttu því í brennivín,

svo börn þín verði hress og kát.

Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson er nú bara hógvær og lítillátur í kröfum sínum:

Mér fannst áðan sjást í sól,

senda veika geisla.

Fái ég sumar fyrir jól,

flott þá yrði veisla.

Pétri Stefánssyni varð litið til fjalla:

Víst er svalur veður koss,

vaknar nöpur krísan.

Þýðri röddu yfir oss

ætíð hljómar vísan.

Nöpur tíð ég nefna hlýt

er næm við sína iðju.

Nú er Esjan orðin hvít

alveg niður að miðju.

Bjarni frá Gröf orti í einni rigningartíðinni:

Hér er bölvuð ótíð oft

og aldrei friður.

Það ætti að rigna upp í loft

en ekki niður.