Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Við glímum við sömu heimatilbúnu vandamál ár eftir ár því stjórnmálunum lánast hvorki að taka á kjarna máls né taka ákvarðanir til framtíðar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Viðreisn er sjö ára í dag. Frjálslyndur, alþjóðasinnaður flokkur – frjáls undan klafa hagsmunatengsla.

Við óttumst ekki breytingar. Flokkurinn hefur framtíðarsýn sem stækkandi hópur kjósenda vill gera að veruleika, sér í lagi þau sem yngri eru. Til að mynda sá hópur sem er nú að berjast við að eignast húsnæði, koma undir sig fótunum og er minntur á það við hvert fótspor að hér er ekki jafnt gefið.

Viðreisn vill forða okkur frá því að þessi kynslóð kjósi með fótunum og flytjist til landa þar sem úr álíka miklu er að spila – en vextir eru lægri, vöruframboð fjölbreyttara og verð flestra hluta sanngjarnara.

Ríkari skyldur á okkar herðar

Viðreisn vill skýrar leikreglur og einfaldara líf fyrir fólk þar sem reglulegur vaxtasirkus kemur ekki í veg fyrir að venjuleg heimili geti gert áætlanir fram í tímann. Við tölum gegn sérhagsmunum. Við tölum um fórnarkostnaðinn af krónunni fyrir ríkið, fyrir sveitarfélög, fyrir fyrirtæki og fyrir fólk.

Viðreisn skiptir meira máli nú en nokkru sinni. Við glímum við sömu heimatilbúnu vandamál ár eftir ár því stjórnmálunum lánast hvorki að taka á kjarna máls né taka ákvarðanir til framtíðar. Nú hafa sumir flokkar að því er virðist gefist upp fyrir þessu, heykst á stefnumálum sínum og enn á ný tekið stóru málin út fyrir sviga. Það leggur ríkari skyldur á okkar herðar að tala hátt og snjallt fyrir sannfæringu okkar. Því þetta þarf ekki að vera svona.

Viðreisn var nefnilega stofnuð til þess að eiga samtal um stóru myndina – um framtíðina. Við viljum ræða leiðir út úr vítahring séríslenskra vandamála og berjast gegn varðstöðunni um hagsmuni fárra. Sagan sýnir að það er fjórflokknum ofviða. Stjórnmálaflokkar verða að búa yfir hugrekki til að breyta úreltum kerfum sem eru ekki sniðin utan um hagsmuni meginþorra fólksins í landinu. Á meðan ekkert breytist er leikurinn ójafn.

Evrópa áfram á dagskrá

ESB er ekki markmið í sjálfu sér heldur leið að markmiði um jöfn tækifæri. Ég vil að Viðreisn haldi Evrópumálum á dagskrá og að þau hverfi ekki í skugga annarra brýnna mála. Við treystum svo þjóðinni til að eiga lokaorðið.

Stjórnvöld geta ekki leyft sér lengur að skila auðu í stórum málum er varða loftslagsmál, aðgang fólks að heilbrigðisþjónustu, tæknibreytingar, samkeppnishæfni þjóðarinnar og fjárhagslega framtíð fólks. Heimurinn er á fleygiferð. Samtalið um framtíðina verður að byrja í dag.

Frelsið og frjálslyndið

Viðreisn er líka stofnuð til þess að standa vörð um frjálslyndið. Ekki bara í orði, heldur á borði.

Á landsþingi Viðreisnar í upphafi árs undirstrikuðum við kjarnamálin. Þar hnykktum við á ábyrgri hagstjórn, réttlátum auðlindagjöldum og að heilbrigðisþjónusta ætti að vera fyrir öll – ekki bara freka, ríka og tengda. Við lögðum áherslu á að taka þarf ákvarðanir í þágu orkuskipta fyrir grænan hagvöxt. Og svo Evrópa. Þessum málum höfum við svo fylgt eftir á þingi.

Einnig höfum við lagt fram frelsismál um rýmkun á áfengislöggjöf, um að leggja niður mannanafnanefnd, um frelsi á leigubílamarkaði, mál sem snúa að skaðaminnkun, lýðheilsu og fækkun neyslutengdra glæpa. Við höfum ítrekað lagt til að leggja niður hina ríkisreknu verðlagsnefnd búvara og að samkeppnishindranir verði afnumdar í landbúnaði sem annars staðar.

Við höfum lagt fram mál til að tryggja valfrelsi í menntakerfinu og um jafnt vægi atkvæða. Í stjórnarandstöðu höfum við fengið lög samþykkt sem auðvelda fólki í ofbeldissamböndum að fá skilnað, að samþykki sé í forgrunni við skilgreiningu kynferðisbrota og að sálfræðiþjónusta sé niðurgreidd. Í þá rúmu níu mánuði sem Viðreisn sat í ríkisstjórn opnuðum við reikninga ríkisins, komum á jafnlaunavottun og lækkuðum vaxtakostnað ríkisins um sex milljarða með því að greiða upp lán. Við afnámum síðustu gjaldeyrishöftin. Settum Evrópu á dagskrá. Og létum ekki undan þrýstingi í sjómannaverkfalli að láta ríkið borga hluta af launakostnaði útgerða.

Við tölum fyrir því að Ísland eigi sæti við borðið með öðrum þjóðum á alþjóðasviðinu sem kyndilberi mannréttinda og lýðræðis. Við höfum orðið vitni að því að stöðugt er sótt að þeim grunngildum sem við flest teljum sjálfsögð í dag. Og sú ógn kemur ekki bara að utan.

Flest ríki sem við berum okkur saman við heyja innri baráttu um þessi vestrænu gildi um þessar mundir og samskiptamiðlar ýta undir sundrungina. Þótt tæknin hafi að mörgu leyti fært okkur nær hvert öðru hefur hún líka ýtt undir þá tilfinningu hjá of mörgum að það sé meira sem skilji okkur að en sameini. Við verðum að vera vakandi yfir þessum röddum. Þar er hlutverk Viðreisnar mikilvægt sem rödd frelsis, jafnréttis og frjálslyndis. Það hlutverk tökum við alvarlega.

Ísland er að mörgu leyti fyrirmyndarsamfélag. Hér eru tækifæri. En við verðum að nýta þau. Við þurfum að skapa umhverfi sem blæs ungu fólki byr í brjóst og tekur utan um þá sem eldri eru. Þar er ég sannfærð um brýnt erindi Viðreisnar. Ég er stolt af árangrinum hingað til. En verkefnið fram undan er ærið. Þar mun Viðreisn ekkert gefa eftir í baráttunni um enn betra samfélag til langrar framtíðar.

Höfundur er formaður Viðreisnar og alþingismaður.