Leit Lögreglan notaði m.a. gúmbát við leitina í uppistöðulóninu.
Leit Lögreglan notaði m.a. gúmbát við leitina í uppistöðulóninu. — AFP/Filipe Amorim
Lögreglan í Portúgal leitaði í gær nýrra sönnunargagna við uppistöðulón, sem talið var að gæti tengst hvarfi Madeleine McCann fyrir 16 árum. Lónið er um 50 km frá Praia da Luz í Algarve en þaðan hvarf McCann árið 2007

Lögreglan í Portúgal leitaði í gær nýrra sönnunargagna við uppistöðulón, sem talið var að gæti tengst hvarfi Madeleine McCann fyrir 16 árum. Lónið er um 50 km frá Praia da Luz í Algarve en þaðan hvarf McCann árið 2007.

Fjöldi lögreglumanna tók þátt í leit meðfram bökkum lónsins með aðstoð leitarhunda, auk þess sem tveir lögreglumenn sigldu eftir lóninu á gúmbáti og leituðu í vatninu. Leitin var gerð að undirlagi saksóknara í Þýskalandi, sem vörðust allra frétta af málinu í gær. Þá voru fulltrúar frá lögreglunni í Bretlandi og Þýskalandi einnig viðstaddir leitina.

Enginn hefur verið ákærður fyrir að hafa rænt McCann, sem hvarf sporlaust frá hótelherbergi foreldra sinna meðan þau sátu að snæðingi á veitingahúsi rétt hjá. Þýskir saksóknarar lýstu því hins vegar yfir árið 2020 að þeir teldu sig hafa traust sönnunargögn um að Þjóðverjinn Christan Brückner hefði myrt McCann. Brückner er dæmdur kynferðisbrotamaður, sem bjó í Algarve-héraði milli 2005 og 2007. Mun hann oft hafa komið að lóninu á sínum tíma.

Um tuttugu lögreglumenn sáust grafa holur í jörð meðfram lóninu, og voru ýmis sýni sett í poka og flutt til rannsóknar. Ekki var þó staðfest hvað var í pokunum. Leitin mun halda áfram í vikunni og verður leitað á fjórum stöðum í nágrenninu til viðbótar.