Bestur Gísli Eyjólfsson skoraði og krækti í vítaspyrnu gegn KA.
Bestur Gísli Eyjólfsson skoraði og krækti í vítaspyrnu gegn KA. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Gísli Eyjólfsson, miðjumaður úr Breiðabliki, var besti leikmaðurinn í áttundu umferð Bestu deildar karla í fótbolta að mati Morgunblaðsins. Gísli fékk tvö M hjá Morgunblaðinu fyrir frammistöðu sína í leik Breiðabliks gegn KA á sunnudaginn en hann…

Gísli Eyjólfsson, miðjumaður úr Breiðabliki, var besti leikmaðurinn í áttundu umferð Bestu deildar karla í fótbolta að mati Morgunblaðsins.

Gísli fékk tvö M hjá Morgunblaðinu fyrir frammistöðu sína í leik Breiðabliks gegn KA á sunnudaginn en hann krækti þá í vítaspyrnu og skoraði síðan stórglæsilegt mark, þannig að Blikar unnu leikinn 2:0 og styrktu stöðu sína í toppbaráttu deildarinnar.

Þetta var fimmta mark Gísla í fyrstu átta umferðum deildarinnar og hann er ásamt fleirum næstmarkahæstur í deildinni á eftir liðsfélaga sínum Stefáni Inga Sigurðarsyni.

Gísli hefur leikið með Breiðabliki frá barnæsku og varð Íslandsmeistari í 5. flokki með félaginu árið 2006, rétt eins og fjórir núverandi samherjar hans, þeir Höskuldur Gunnlaugsson, Viktor Örn Margeirsson, Oliver Sigurjónsson og Alexander Helgi Sigurðarson.

Gísli byrjaði meistaraflokksferilinn með Augnabliki í 3. deild 2012-13, var síðan í láni hjá Haukum í 1. deild 2014 og hjá Víkingi í Ólafsvík í úrvalsdeildinni í stuttan tíma árið 2016.

Gísli reyndi fyrir sér í atvinnumennsku og lék með Mjällby í sænsku B-deildinni fyrri hluta tímabilsins 2019 en hefur að öðru leyti spilað með meistaraflokki Breiðabliks frá 2015.

Gísli var í lykilhlutverki í Íslandsmeistaraliðinu í fyrra. Hann hefur leikið 143 leiki í efstu deild, 140 þeirra með Breiðabliki, og er sjötti markahæsti leikmaður liðsins í efstu deild með 29 mörk. Þá hefur Gísli leikið fjóra A-landsleiki, tvo árið 2021 og tvo á síðasta ári.

Árið 2018 var hann besti leikmaður úrvalsdeildarinnar samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins.

Gísli er í úrvalsliði umferðarinnar í þriðja sinn á tímabilinu, eins og samherji hans Höskuldur Gunnlaugsson, Logi Tómasson úr Víkingi og Ísak Andri Sigurgeirsson úr Stjörnunni, eins og sjá má á liði 8. umferðarinnar hér fyrir ofan. vs@mbl.is