60 ára Svanfríður er Reykvíkingur, ólst upp í Hlíðunum og býr þar. „Ég flutti á unglingsárunum úr Hlíðunum, en kom aftur hingað fyrir tveimur árum.“ Svanfríður hefur verið verkefnastjóri slysavarna hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg frá…

60 ára Svanfríður er Reykvíkingur, ólst upp í Hlíðunum og býr þar. „Ég flutti á unglingsárunum úr Hlíðunum, en kom aftur hingað fyrir tveimur árum.“

Svanfríður hefur verið verkefnastjóri slysavarna hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg frá 2019 en þar áður starfaði hún í átta ár sem söluráðgjafi hjá Mjólkursamsölunni. „Þessa dagana erum við að fara af stað með skemmtilegt umferðarverkefni undir yfirskriftinni Örugg á ferðinni.

Svo erum við að leggja áherslu á öryggi barnanna í bílnum og hraðakstur. Það kom í ljós í Gallup-könnun að meirihluta þjóðarinnar finnist allt í lagi að keyra hraðar en hámarkshraði leyfir. Við lentum síðan í 22. sæti í Evrópu hvað varðar öryggisbeltanotkun. Við vorum rosalega hissa á því. Þess vegna ákváðum við nú að fara í þessa herferð. Svo erum við að setja af stað aðra herferð sem við leggjum líka gífurlega mikla áherslu á og það eru rafhlaupahjólin. Það er frábær og umhverfisvænn ferðamáti en kannski menning sem helltist yfir okkur alltof hratt og innviðirnir og fólkið var ekki tilbúið fyrir hana.“

Svanfríður gekk til liðs við JCI á Íslandi 1988 og var landsforseti JCI Íslands árið 1998. Hún starfaði með Samtökunum 78 frá árinu 2000 og var m.a. varaformaður og svo formaður Samtakanna 78 árið 2010. „Ég slysaðist eftir það í Slysavarnafélagið Landsbjörg, er sjálfboðaliði í Slysavarnadeildinni í Reykjavík og Björgunarsveitinni Kili á Kjalarnesi. Þar sem ég starfa hjá félaginu líka þá er lítill tími fyrir annað félagsstarf.“

Áhugamál Svanfríðar eru ferðalög, innanlands sem utan. „Mér finnst gaman að ganga og ekki verra að vera þá í góðra vina hópi.“

Fjölskylda Börn Svanfríðar eru Helga Lilja Óskarsdóttir, f. 1991, hún á þrjú börn, og Jón Bjarni Óskarsson, f. 1995. Foreldrar Svanfríðar: Helga M. Kristjánsdóttir, f. 1945, d. 2010, verslunarmaður, og Lárus Svansson, f. 1942, skósmiður, búsettur í Reykjavík.