Ísak Hörður Harðarson fæddist í Reykjavík 11. ágúst 1956. Hann lést í faðmi dætra sinna á Landspítalanum 12. maí 2023.

Foreldrar hans voru Hörður Þór Ísaksson, f. 31.3. 1934, d. 29.6. 1986, og Hildur Sólveig Ísleifsdóttir, f. 8.7. 1934, d. 28.12. 1969. Ísak ólst upp hjá föðurforeldrum sínum á Snorrabraut. Þau voru Mensaldur Ísak Jónsson, f. 13.10. 1903, d. 6.9. 1989, og Ida Jensen, f. 3.6. 1912, d. 20.12. 2002. Hálfsystkin Ísaks eru Natan Þór Harðarson, f. 17.5. 1960, Ægir Þór Harðarson, f. 13.8. 1961, og Ida Harðardóttir, f. 18.11. 1962.

Fyrrverandi eiginkona Ísaks er Ólöf Garðarsdóttir, f. 29.6. 1959. Dætur þeirra eru: 1) Katla, f. 11.7. 1984, gift Guðlaugi Hávarðarsyni, f. 4.6. 1981. Sonur þeirra er Styrkár, f. 5.7. 2011. 2) Guðrún Heiður, f. 14.1. 1989, gift Sveini Steinari Benediktssyni, f. 7.7. 1981. Dóttir þeirra er Dýrfinna, f. 3.7. 2014.

Ísak Harðarson lauk stúdentsprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1977, hann nam um stund íslensku við Háskóla Íslands og tók próf í sjúkraliðun. Ísak sendi frá sér sína fyrstu bók, ljóðabókina „Þriggja orða nafn“, árið 1982 og síðan hefur hann gefið út fjölda ljóðabóka, smásagnasöfn, skáldsögu og endurminningabók auk þess sem hann var mikilvirkur þýðandi. Ísak hlaut Rithöfundaverðlaun Ríkisútvarpsins árið 1994 og hann var tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2011 fyrir bók sína „Rennur upp um nótt“. Síðasta verk hans, smásagnasafnið „Hitinn á vaxmyndasafninu“, kom út árið 2021. Ísak vann ýmis störf meðfram ritstörfum, meðal annars á heilbrigðisstofnunum og við akstur strætisvagna. Ísak var þekktur fyrir frumlegt myndmál í ljóðum sínum og sterkan trúarþráð en hann virtist ofurnæmur fyrir straumum samtímans. Þótt viðfangsefnin hafi oft verið alvarleg og myrk þá voru verk hans oftar en ekki full af hugmyndaauðgi, húmor og von.

Útför Ísaks fer fram frá Neskirkju í dag, 24. maí 2023, klukkan 13.

Pabbi minn, jarðneskur, er kominn til himna.

Hann vill að þið vitið að honum hefur aldrei liðið betur.

Hann hoppar og skoppar, ský fyrir ský, og loksins veit hann upp á hár hvernig kusunum líður á vorin.

Það finnst honum raunar svo fyndið að hann getur ekki varist því að hlæja upphátt þar sem hann hoppar, en hláturinn er öðruvísi en við getum skilið hér á jörðinni.

Í himnaríki er hlátur eins og tónlist sem hljómar eins og kliður í kátum læk. Hann þagnar aldrei því það er alltaf einhver hlæjandi. Og hláturinn í læknum fær allt fólkið í himnaríki til að brosa, en það eru engin venjuleg bros, eins og þau sem við skreytum okkur með hér á jörðinni, heldur eru þau eins og brosið hans Guðs, eilíft.

Enginn kann annað en að elska, og pabbi er svo yfirvegaður í elskunni að það er eins og hann hafi aldrei gert annað!

Hann er raunar svo rólegur í gleðinni að hann er yfir sig hissa!

Hann er líka hissa á leyndardómnum sem var opinberaður honum við inngönguna.

Þá fór hann að gráta, og tárin sem komu voru lífsins vatn.

Jesús var löngu búinn að segja honum að hann þyrfti aldrei að þyrsta, og að úr hjarta hans myndu renna lækir lifandi vatns og allt það, og pabbi var stundum með smá samviskubit yfir að lifa það ekki til fulls í jarðvistinni, en Vá! Guð! Þú ert vissulega magnaður Guð!

Pabbi var besti krakkapabbinn. Uppgötvanir á sundlaugum og rólóvöllum voru hans ær og kýr. Hann hafði kort yfir þessa hluti uppi á vegg hjá sér. Hann skildi líka mikilvægi heits kakós, tölvuleikja, kitls og þess háttar. Og auðvitað las hann alltaf fyrir okkur á kvöldin.

Einu sinni sem oftar, þegar við systurnar stóðum uppi á stól og gægðumst upp um þakgluggann heima hjá pabba á Hraunteignum, varð ég fyrir því óhappi að missa PEZ-kall niður þakið svo hann lenti í þakrennunni. Pabba þótti hér tækifæri til hetjudáða og ævintýramennsku, sótti ryksuguna og dró rafmagnssnúruna út eins langt og hægt var, batt hana um sig miðjan og kleif niður þakið til að bjarga þessum verðmætum sem ekki verða metin til fjár.

Hann kenndi mér að trúa á Guð og hann kenndi mér að vera fyndin. Það besta sem ég hef lært um ævina.

Hann lofaði að við yrðum alltaf litlu stelpurnar hans, en þið vitið hvað þetta getur verið flókið.

Og það er líka bara allt í lagi. Ég sagði við hann þegar ég kvaddi hann í símann hversu mikið ég hlakkaði til að vera með honum í himnaríki. Og það besta er að þar verðum við ekki pabbi og dóttir heldur systkin. Við verðum systkin í eilífðinni.

Við pabbi vorum ansi lík í brestum okkar og kostum. Við vorum fólk sem skvetti úr glösum og hljóp nakið um undir berum himni. Við hröktumst eins og sjávaröldur í stormi og bjuggumst ekki við að fá neitt frá Guði (Jak. 1.6-7).

En það var náð á náð ofan (Jóh. 1.16).

Við vissum bæði að til að verða vitur þyrftum við að vera heimsk í augum heimsins, því að speki þessa heims er heimska í augum Guðs (1. Kor. 3.19). Trú okkar skyldi ekki byggð á vísdómi manna heldur á krafti Guðs, leyndri speki sem hulin hefur verið en Guð hefur frá eilífð fyrirhugað okkur til dýrðar sinnar:

Það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, það allt hefur Guð fyrirbúið þeim sem hann elska (1. Kor. 2.7-9).

Blessuð sé minning þín elsku pabbi. Í mínum augum varstu fallegastur.

Fyrir Jesú blóð.

Þín

Katla.

Ísak var kærkomin viðbót í okkar stóru fjölskyldu fyrir rúmum 40 árum. Ég var tíu ára þegar þau Ólöf systir kynntust og ég fylgdist spennt með skáldinu. Ég var líka dálítið feimin við uppreisnarsegginn og kraftinn sem honum fylgdi. Það gustaði um hann og honum fylgdi hópur listafólks. Ísak hafði mikil áhrif á mig og reyndist mér vel. Hann gaf sér tíma fyrir litlu systur Ólafar og sendi pirruðum unglingi gjarnan góð ráð um æðruleysi og bjartsýni. Með tímanum leið æ lengra á milli þess að Ísak kíkti við hjá pabba og mömmu í Byggðarenda. Gagnkvæm væntumþykja rofnaði samt aldrei og Ísak á alla tíð sinn sess í fjölskyldunni.

Ljúfu minningarnar um Ísak lifa áfram með okkur.

Rúna Björg.

Þegar ég frétti af andláti Ísaks blasti við mér bókin hans „Þú sem ert á himnum … Þú ert hér!“ Það yljaði mér að opna bókina og sjá áritun frá 1996: „Elsku Steinunn! Bestu kveðjur frá manninum skrítna sem kláraði pulsuna, Ísak.“

Fyrir mér lýsir þetta vel þeim Ísak sem ég kynntist fyrst fimm ára gömul, þegar Ólöf, stóra systir, kom með hann á fjöruga heimilið okkar mömmu, pabba og allra hinna stóru systranna. Hann var velkominn frá fyrstu stundu og alla tíð síðan, eins og von og vísa var á heimili mömmu og pabba. Hlýjar tilfinningar ríktu ætíð á milli þeirra.

„Manninum skrítna …“ skrítinn fannst mér Ísak reyndar aldrei. Öllu heldur fannst mér hann bera með sér vissan ævintýrabrag og dulúðleika. Mögulega var þessi sjálfslýsing hans eigin birtingarmynd gagnvart heiminum skrítna, með léttúðlegri kímni sem gjarnan einkenndi hann og gerði merkingarþrungnu ljóðin hans svo auðlesin, líka fyrir litlar systur eins og mig, með ævintýralega fallegu myndmáli – líkt og lífið sjálft.

Umrætt pulsuatvik þykir eflaust hvorki merkilegt né minnisstætt fyrir nokkurn nema mig, og greinilega hann, þar sem hann minnist þess með þessari bókargjöf 15 árum síðar. Fyrir mér er umrætt atvik ekki fyrst og fremst minnisstætt vegna þess hversu öskuill ég var þegar ég hafði hlaupið frá borði, upptekin að leika mér, heldur fyrir það hversu miður sín hann var og skilningsríkur yfir tilfinningum krakkakjánans sem fékk ekki að klára pulsubútinn sinn. Ég er ekki frá því að hann hafi átt þátt í að kenna mér að bera virðingu fyrir öllum „skrítin-leika“ heimsins, líka ómerkilegum pulsubút og barnslegu æðiskasti.

Þótt samskipti mín við Ísak hafi ekki verið mikil síðan hafa þau ætíð einkennst af sömu auðmýkt og ég minnist þeirra ávallt: Innihaldsríkt og broslegt sendibréf sem hann og Ólöf sendu mér til Lúxemborgar; bækur með spennandi áritunum sem kveiktu löngun í mér til að lesa og skrifa ljóð; Ída amma hans sem spilaði fyrir mig á munnhörpu og ég mátti líka eiga sem ömmu; rafrænar afmæliskveðjur þegar fram liðu stundir; munnharpan sem hann kom með og gaf frumburðinum mínum þegar hún var eins árs; hunda- og kisubækurnar sem hann þýddi og hafði fyrir að senda krökkunum mínum sem komu spennt heim með pakka af pósthúsinu og byrjuðu að lesa full áhuga.

Þegar dóttur mína vantaði ljóð í upplestrarkeppni leituðum við í smiðju Ísaks, uppáhaldsljóðið mitt, Ljósfirð, varð fyrir valinu. Þar skrifar Ísak um sólina sem blotnar ekki í tærnar og skreppur heit af ást að sækja okkur morgun. Skemmtilegt myndmálið höfðar vel til barna en ljóðið fær mig til að elska lífið, jafnvel þegar tunglið skýtur upp krúnurökuðum skallanum í myrkrinu.

Já, Ísak var fyrir mér hjartahlýr og gjafmildur. Hann lætur eftir sig fjársjóð sem varðveitist í verkum hans og hann færir hverjum þeim sem vilja leita í þau.

Megi sólin færa okkur morgun og hans nánustu huggun og frið í hjarta.

Steinunn, litla systir Ólafar.

Elsku Ísak. Ég minnist þess þegar við vorum uppi á háalofti á Snorrabraut. Ég sat þar og las í bók á meðan þú varst að fíflast uppi á þakinu. Ég var svo hrædd um að þú myndir detta!

Ísak, manstu þegar við fórum í allar bílferðirnar í Kópavogi og fengum okkur kaffi á bensínstöð og drukkum það úr pappamálum í bílnum? Ljóðin áttu það til að vella upp úr þér við stýrið!

Manstu þegar við fórum upp á Steingrímsstöð þar sem pabbi vann sem vélstjóri á sumrin? Þar leið mér vel. Ég man eftir mömmu þar að baka súkkulaðiköku og tíkinni Týru að spangóla undir rúmi.

Þú sýndir mér fjöllin og fuglana og sagðir mér nöfn þeirra. Þú hefðir átt að verða fugla- eða fjallafræðingur! Þú sýndir mér hvað var austur, suður, norður og vestur.

Sérstaklega þótti þér vænt um Grikkland. Þar fannst þér gott að vera.

Þú varst alltaf svo hjálplegur við mig, sérstaklega þegar ég var veik. Fórst í búðarferðir fyrir mig og gerðir allt fyrir mig sem þú gast.

Þú varst mér eins og bróðir, elsku Ísak minn.

Ég kveð þig með söknuði.

Þín

Áslaug.

Ísak Harðarson varð strax goðsögn hjá minni kynslóð sem byrjaði að yrkja um og upp úr 1990. Ljóðin hans voru hrá og aðgengileg, þau voru kaldhæðin og oft myrk og fyndin. Honum lá mikið á hjarta, verk eins og Ræflatestamentið (1982) var fullkomið verk til að uppgötva í menntaskóla og þannig opnaði hann fyrir mörgum heim og möguleika ljóðlistarinnar. Verkið var ekki slétt og fellt heldur eins og öskur og fullkomið óþol fyrir samtímanum, rödd sem endurómaði pönkið. Síðar kom Veggfóðraður óendanleiki, brjálað tilraunakennt verk í efni og formi þar sem tungumálið var brotið og bramlað, slitið í sundur og límt saman með áhrifum úr öllum áttum, jafnvel úr lestrarbókum barnaskólans: ÓLI SÁ SÓL. ÓLI SÁ BRENNANDI ÓÐA SÓL Á HIMNI.

Ísak var viðkvæmur og sérstakur maður. Hann var með djúpa rödd, hann var hlýr og feiminn, hann var einstaklega hæfileikaríkur en alltaf efins og synti á móti straumnum. Hann hafði sig ekki mikið í frammi og hafnaði oftast viðtölum. Á meðan samfélagið og tíðarandinn varð sífellt veraldlegri og yfirborðslegri þá óx óþol hans í réttu hlutfalli. Hann sætti sig ekki við heim sem var ekkert nema efnið, í honum bjó krafa um skýran tilgang. Í fyrstu verkum má finna nánast örvæntingarfulla leit að þessum tilgangi, sem varð síðar á ævinni, fullvissa um að undir og yfir öllu, væri himnasmiður, uppfinningamaður sjónarinnar, einhver sem læðist um, kveikir á sólinni og stráir tilgangi yfir heiminn. Ísak lék oft barnslega einfeldninginn, hin djúpa heimspeki bauð ekki upp á svör um hinstu rök heimsins. Í „Síðustu hugmyndum fiska um líf á þurru" spyr þyrsklingur golþorskinn hvort þetta „eilífa endalausa haf" sé í rauninni til en golþorskurinn segist aldrei hafa séð svo mikið sem einn dropa.

Ég kynntist Ísaki og verkum hans betur þegar Sveinn Skorri Höskuldsson stakk upp á því að ég skrifaði ritgerð um trú í ljóðum Ísaks Harðarsonar árið 1996. Sú ritgerð varð að bók sem kom út árið 1999 en þá bættist ég í lítinn hóp Ísaksfræðinga. Árið 1999 var Ísak rétt að komast á miðjan aldur, áhrif hans voru mikil en það var ekki tímabært að kveða sterkan dóm um feril hans eða gefa út hástemmdar yfirlýsingar. Nú þegar hann er farinn og verk hans eru lesin aftur verður ljóst hvað rödd Ísaks var einstök. Fyrir mig sem ungan höfund hafði það grundvallaráhrif að lesa verk hans og kynnast Ísaki og maður fyllist þakklæti yfir því þeim verkum sem hann skapaði og skildi eftir sig. Ég veit að það gildir um marga aðra. Ofurnæmni hans fyrir óreiðu og yfirborði samtímans og þráin eftir tilgangi, á enn meiri samhljóm við heiminn eins og hann er í dag og verk hans hafa verið mikilvæg mörgum. Ég held að með tíð og tíma verði verk hans talin með allra mikilvægustu framlögum til íslenskrar ljóðlistar. Ég votta Guðrúnu og Kötlu dætrum hans, vinum og fjölskyldu mína dýpstu samúð.

Andri Snær Magnason.

Hinsta kveðja

Minningargrein eftir Gyrði Elíasson má finna á eftirfarandi slóð:

mbl.is/go/gyrdir