Birna Einarsdóttir hefur verið bankastjóri Íslandsbanka í tæp 15 ár.
Birna Einarsdóttir hefur verið bankastjóri Íslandsbanka í tæp 15 ár. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
  Ef við eigum að sýna samfélagslega ábyrgð með því að fylgja ekki eftir ákvörðunum Seðlabankans, þá er umræðan á villigötum. Við sýnum samfélagslega ábyrgð með því að hjálpa því fólki sem lendir verst í þessu, sem við munum að sjálfsögðu gera […]

„Þetta eru vissulega áhugaverðir tímar í bankaheiminum, ekki bara hér á landi heldur alls staðar í heiminum. Við erum að fara í gegnum mikið vaxtahækkunartímabil, eftir að hafa séð vexti lækka mjög hratt á árunum á undan. Það er reyndar í fyrsta sinn á mínum ferli sem ég sé svo hraða lækkun vaxta hérlendis, en það voru þó viðbrögð við þeirri stöðu sem skapaðist í heimsfaraldrinum,“ segir Birna strax í upphafi þegar hún er spurð almennt um stöðuna á bankakerfinu í ljósi hárrar verðbólgu og hækkandi vaxtaumhverfis.

„Rekstur banka snýst, eðli málsins samkvæmt, töluvert um innlán og útlán þannig að eitt af stóru verkefnunum þessa dagana er að finna jafnvægi þar á milli,“ bætir hún við.

Þegar rætt er um vaxtahækkanir snýr umræðan nær undantekningalaust að stöðu heimila og fyrirtækja, sem finna fyrir þeim hækkunum – mismikið þó enn sem komið er. Spurð um þetta segir Birna að hún og stjórnendur Íslandsbanka séu mjög meðvituð um stöðuna það hvernig vaxtahækkanir geta haft áhrif.

„Um fjórðungur húsnæðislána hjá okkur eru á breytilegum vöxtum, og þar eru þessar hækkanir farnar að bíta í. Síðan eru hópar viðskiptavina, sem hafa verið á föstum vöxtum, þar sem greiðslybyrðin mun aukast töluvert þegar föstu vextirnir renna út og fólk þarf að greiða miðað við núverandi vaxtastig,“ segir Birna.

„Við erum að sjálfsögðu byrjuð að undirbúa það og það eru ýmsar leiðir til að koma til móts við viðskiptavini hvað þetta varðar. Það er mikið kallað eftir samfélagslegri ábyrgð bankanna og við munum svo sannarlega horfa til þess.“

Vill koma verðtryggingunni frá

- Það hefur borið á því að fólk sé að færa sig í verðtryggð lán til að minnka greiðslubyrði. Hvað segir þú um þá þróun að verðtryggðu lánin séu að snúa aftur?

„Mér finnst það sorgleg þróun,“ svarar Birna.

„Ég hef verið talsmaður þess lengi að við komum okkur út úr verðtryggingunni en það hefur því miður ekki tekist. Það er þó búið að setja ákveðinn ramma utan um verðtrygginguna og ef við náum því sem kalla má eðlilegu vaxtastigi á ný, þá geri ég ráð fyrir að fólk velji það að vera með óverðtryggð lán. Það var ánægjulegt að sjá, þegar vextir lækkuðu, hversu margir fóru í óverðtryggð lán. Á þeim tíma sem vaxtastigið var hvað lægst gerðum við okkur þó grein fyrir því að þessu fylgdi áhætta þannig að við hertum hjá okkur greiðsluviðmið áður en reglur um það komu fram. Það var gert til að tryggja það að viðskiptavinir gætu tekist á við lánin þegar vextir færu að hækka á ný.“

Hún nefnir að fyrra bragði að viðskiptavinir bankans hafi sýnt mikinn greiðsluvilja og að vanskil á húsnæðislánum séu í lágmarki, þrátt fyrir hækkun á þeim lánum sem bera breytilega vexti.

„Það skýrist að hluta til af því að hertum reglurnar sem fyrr segir, þannig að fólk hafði svigrúm til að auka greiðslubyrðina að einhverju leyti,“ segir hún.

„Þess utan hefur fjármálalæsi aukist verulega, sem er mikið ánægjuefni. Það er búið að tala um fjármálalæsi allan þann tíma sem ég hef starfað í bankakerfinu og mér finnst það núna vera að síast inn. Það má sérstaklega horfa til unga fólksins, sem áttar sig vel á hlutunum og vill standa skil á sínum greiðslum. Það heyrir til algjörar undantekningar að fólk láti greiðslur af húsnæðislánum bíða eins og var oft tilfellið hér áður fyrr.“

Birna ítrekar að þrátt fyrir að vanskil hafi ekki aukist þá geri hún sér grein fyrir því að staðan sé viðkvæm og lítið megi út af bera hjá mörgum.

„Greiðsluviljinn er til staðar en einhvers staðar eru þolmörk. Fólk kemur þá frekar til okkar og reynir að finna lausnir,“ segir hún.

„Aukning kaupmáttar síðust ár vegur þungt í þessu, flest fólk ræður við stöðuna eins og hún er núna en það styttist þó í það fari að reyna á þolmörkin í greiðslugetu fólks.“

Popúlísk umræða að hluta til skiljanleg

- Þú vísaðir hér til umræðu um samfélagslega ábyrgð bankanna, en sú umræða er algeng meðal stjórnmálamanna. Hvernig hreyfir hún við þér, finnst þér hún popúlísk?

„Hún er að einhverju leyti popúlísk en ég skil hana þó vel,“ segir Birna.

„Það er ástæða fyrir því að Seðlabankinn hækkar vexti. Hann er að bregðast við breyttri stöðu og hárri verðbólgu, og hækkar vexti til að draga úr þenslu. Ef við eigum að sýna samfélagslega ábyrgð með því að fylgja ekki eftir ákvörðunum Seðlabankans, þá er umræðan á villigötum. Við sýnum samfélaglega ábyrgð með því að hjálpa því fólki sem lendir verst í þessu, sem við munum að sjálfsögðu gera eins og ég nefndi. Það er þó engin samfélagsleg ábyrgð fólgin í því að fara á skjön við það sem Seðlabankinn er að gera. Ef við myndum ekki hækka vexti samhliða því sem Seðlabankinn segir til um værum við að vinna gegn markmiðum hans, og í því felst engin ábyrgð.“

- Þú nefndir hér að fólk væri að standa skil á lánum sínum. Eru einhver önnur tákn á lofti um minni ráðstöfunarfé heimila, er fólk til dæmis að draga úr sparnaði?

„Það er ekki að sjá. Innlán hafa aukist verulega og við sjáum mikla aðsókn í nýjasta sparireikning okkar, Ávöxtun, þar sem við höfum átt þess kost að bjóða hærri vexti en áður,“ segir Birna og bætir við að heimilin séu jafnframt að fjárfesta í sjóðum auk þess sem eignastýring á vegum bankans hafi aukist á liðnum árum.

„Við höfum á hverju ári frá hruni gert ráð fyrir því að innlán muni minnka og fjármagnið færa sig yfir í fjárfestingar. Það hefur ekki alveg ræst, því innlán eru áfram mikil þó svo að fjárfestingar hafi aukist. Nú þegar vextirnir hafa farið hækkandi á ný hafa innlánin aukist samhliða,“ segir hún.

„Hluta af þessu má þó skýra með því sem ég nefndi um fjármálalæsi. Ungt fólk er meðvitaðra um mikilvægi þess að fjárfesta – hvort sem er í hlutabréfum, með því að kaupa í sjóðum eða í öðrum sparnaði og við sjáum töluverða aukningu meðal ungra kvenna. Fólk er líka búið að átta sig á því að það þarf ekki háar upphæðir til að byrja. Mýtan hefur stundum verið að sú að bara efnamikið fólk geti sparað eða fjárfest fyrir hærri upphæðir, en það er ekki þannig og unga fólkið áttar sig á því. Þess vegna er ánægjulegt að sjá ungt fólk taka þátt í fjölbreyttum sparnaði og fjárfestingum, jafnvel með lágar upphæðir til að byrja með. Þetta leiðir líka annað af sér sem er jákvætt, og það er að fólk verður áhugasamara um það hvernig atvinnulífið gengur fyrir sig og meðvitað um það hvernig félögunum gengur, hvort sem það erusjávarútvegsfélög, bankar eða önnur skráð fyrirtæki. Það mun vonandi leiða til heilbrigðari umræðu um atvinnulífið.“

Lánshæfismatið mikilvægt

Ef við snúum okkur að bankanum sjálfum. Afkoma Íslandsbanka var góð á síðasta ári og þetta ár hefur farið vel af stað samkvæmt nýlegu uppgjöri bankans fyrir fyrsta ársfjórðung. Aðspurð um reksturinn segir Birna að hann sé sterkur um þessar mundir.

„Það hefur þó ekki komið til að sjálfu sér, það er búið að vera stöðug vinna í gangi undanfarin tíu ár að koma rekstrinum á góðan stað til þess að geta mætt þeirri arðsemiskröfu sem fjárfestar gera. Hún er ekkert að fara að lækka, þannig að það þarf að standa vaktina,“ segir hún.

„Það er líka að verða töluverð breyting á fjármögnun á mörkuðum, þeir eru búnir að vera þungir enda taka þeir mið af aðstæðum í heiminum. Við sjáum það til dæmis á nýjustu útgáfu okkar, þar sem við gáfum út 300 milljón evra skuldabréf. Það var þreföld eftirspurn í útboðinu og því mikið afrek í ljósi aðstæðna, en kjörin taka mið af sömu aðstæðum og verðin því há. Það blandast þó inn í aðra fjármögnun bankans en við finnum meðalveginn í því til að tryggja hagstæð kjör til okkar viðskiptavina.“

Það er ekkert launungarmál að erlend fjármögnun hefur reynst íslensku bönkunum erfið, þá sérstaklega á síðasta ári. Aðspurð neitar Birna því þó að bankinn sé hikandi við að veita erlend lán til sinna viðskiptavina og segir bankann búa yfir getu til að standa undir þeim væntingum sem viðskiptavinir gera til veitingu lána í hin ýmsu atvinnuverkefni.

Hún víkur hins vegar talinu að lánshæfismati íslenskra fjármálafyrirtækja og segir að gera þurfi mun betur í því að kynna stöðuna fyrir erlendum lánshæfismatsfyrirtækjum.

„Það var ánægjulegt að sjá þegar S&P Global Ratings uppfærði lánshæfismat ríkisins með jákvæðum horfum fyrr í þessum mánuði, en við getum gert mun betur í þessu heilt yfir,“ segir Birna og bætir við að horfurnar í mati Íslandsbanka séu stöðugar.

„Bankarnir hafa staðið sig vel í því að kynna íslenska markaðinn og hagkerfið hér fyrir erlendum aðilum. Við finnum það þegar við ræðum við erlenda aðila að Íslands og smæð landsins – og um leið hagkerfisins – er ekki vandamálið, heldur það að lánshæfismatið sé ekki hærra. Það fellur á ábyrgð ríkisins, Seðlabanka Íslands og bankanna sem þurfa að leiða þá vinnu gagnvart erlendum aðilum. Hér þarf samhent átak, því það er mikið hagsmunamál bæði fyrir heimili og fyrirtæki að koma lánshæfiseinkunn okkar í betra horf. Fjármagnskostnaður endurspeglast af þeirri einkunn og til að geta boðið heimilum og fyrirtækjum betri kjör þurfum við að vera með betra lánshæfismat.“

Hagræðing er eilífðarverkefni

- Ef við víkjum aftur að Íslandsbanka. Það hefur mikið verið hagrætt í rekstri bankans og þróun í fjölda starfsmanna hefur auðvitað tekið mið af þeim rafrænu lausnum sem hafa rutt sér til rúms. Er það eilífðarverkefni að hagræða í rekstri eða næst hið fullkomna markmið einhvern tímann?

„Ég lít á það sem eilífðarverkefni,“ svarar Birna að bragði.

„Við erum alltaf að vinna eftir þeirri stefnu sem við setjum okkur. Í því felst að bæta reksturinn og besta efnahaginn ef þannig má að orði komast. Þetta er þróun sem heldur áfram og það eru enn til staðar ónýtt tækifæri í aukinni tækninýtingu og rafrænni þjónustu. Þessi þróun hefur verið mjög hröð á síðustu árum og það er ekki að hægjast á henni, þvert á móti.“

- Þú nefnir rafrænar lausnir, nú hefur fjártækn líka nýst fyrirtækjum sem gefa sig ekki endilega út fyrir að starfa á fjármálamarkaði. Morgunblaðið fjallaði til að mynda um það nýlega að Síminn væri með útistandandi lán til viðskiptavina fyrir um tvo milljarða. Er það hluti af nýju samkeppnisumhverfi bankanna?

„Já, við höfum alveg gert ráð fyrir samkeppni úr öðrum áttum en bara frá öðrum bönkum og við fögnum því,“ segir Birna.

„Evrópulöggjöfin er þannig að bönkum er gert skylt að veita ákveðinn aðgang að kerfum sínum þannig að aðrir geti tekið þátt á þessum markaði. Það eykur samkeppni og gerir markaðinn meira spennandi.“

Samkeppnin úr ólíkum áttum

- Er það ekki bara einhver klisja að segjast fagna samkeppni? Þið fagnið varla samkeppni úr öðrum áttum en frá fjármálafyrirtækjum?

„Það er ekki klisja, því það heldur okkur á tánum,“ segir Birna í léttum tón.

„Við þurfum alltaf að huga að því að auka verðmætin í kringum þjónustuna. Fjártæknin á eftir að hafa aukin áhrif. Fyrir okkur er þetta ekki bara spurning um að taka þátt í þeirri þróun heldur viljum við leiða hana að einhverju leyti, líkt og við höfum gert. Einn angi þess er að við erum búin að skipta um öll okkar grunnkerfi og því vel í stakk búin til að ýta undir frekari fjártækni og nýjar lausnir sem hægt er að smíða utan á nýju kerfin. Þeir bankar í heiminum sem ekki hafa breytt hjá sér grunnkerfunum verða undir, ekki bara í samkeppni við aðra banka heldur líka í þeirri fjölbreyttu þjónustu sem önnur fyrirtæki veita, líkt og í því dæmi sem þú nefndir.“

- Er þá kannski ekkert til sem heitir hefðbundin bankaþjónusta lengur?

„Jú, ákveðinn hluti hennar er undir strangri löggjöf og það er ólíklegt að það breytist,“ segir Birna.

„Það eru þó fjölmargir þættir í fjármálaþjónustu sem samkeppni ríkir um. Ef við tökum dæmi af færsluhirðingu, kortaþjónustu og öðru sambærilegu, þá tel ég að þar verði mikil samkeppni á næstu árum. Við erum meðvituð um það að tekjur á þessu sviði eru ekki að fara að vaxa þannig að lykillinn er að bjóða þjónustu sem er hagkvæmari en áður en þó það góð að fólk og fyrirtæki nýti hana. Það er einn anginn af samkeppninni.“

- Með aukinni samkeppni og greiðari aðgengi að nýjum lausnum, minnkar þá viðskiptahollusta fólks við bankana?

„Þetta er sú áskorun sem bankar bæði hér og erlendis standa frammi fyrir. Tryggð við banka hefur verið mjög há hér á landi, hærri en í öðrum löndum í kringum okkur. Það er þó eðlilegt, sérstaklega í ljósi þess að samanburður er einfaldari og samkeppnin meiri, að það sé einhver hreyfing á viðskiptavinum. Hér áður fyrr tókstu húsnæðislán í einum banka og varst með öll þín viðskipti þar, það er ekki þannig lengur. Hreyfanleikinn er mikill, sem er jákvætt fyrir viðskiptvininn,“ segir Birna.

- En er það jákvætt fyrir bankana?

„Þú þarft bara að standa þig í þjónustu og kjörum og hvernig þú nálgast viðskiptvininn. Ég óttast ekki þessa þróun því ég veit að við erum að bjóða frábæra þjónustu. Í þessu felast bara tækifæri,“ segir hún.

Eigum eftir að læra af þessum tíma

- Hér í lokin, við höfum rætt um stöðuna í hagkerfinu, háa vexti og verðbólgu – en hvernig metur þú framhaldið?

„Ég held nú að við eigum eftir að horfa í baksýnisspegilinn og læra af þessu verðbólgutímabili. Eitt af því sem má velta fyrir sér er hvort að meðölin sem við erum að nota, og virkuðu einu sinni, virka ekki endilega núna. Hagfræðingar framtíðarinnar eiga eftir að skoða þennan tíma vel,“ segir Birna.

- Þú ert væntanlega að vísa til hækkun stýrivaxta, en ef þau meðöl virka ekki hvað virkar þá?

„Við erum í alþjóðlegra umhverfi en áður, sem breytir verulega stöðunni. Nú flæðir yfir okkur erlend verðbólga sem við getum ekki tekist á við með einföldum hætti. Hér áður fyrr gripu menn til ýmissa ráða, til dæmis handvirkra gengisbreytinga, en það er ekki horft til þess núna. Ég er aðeins að benda á að það er líklega meira sem þarf að gera en bara að hækka vexti en hluta af verðbólgunni náum við ekki endilega tökum á,“ segir hún.

„Það sem stendur þó upp úr er hversu sterkt íslenskt atvinnulíf er og af þeirri ástæðu er ég bjartsýn á framhaldið, af því að það var nú spurning þín. Sjávarútvegurinn er að gera það gott, það stefnir í að ferðaþjónustan eigi eftir að eiga gott sumar, orkunýtingin heldur áfram og hugvitið er að vaxa gífurlega. Allt telur þetta í aukinni hagsæld. Ég er svo stolt af viðskiptavinahópnum okkar. Við hittum reglulega viðskiptavini og það er mikill baráttuvilji í fólki. Fólk vill finna lausnir og trúir á framtíðina, jafnvel þó það gefi á bátinn tímabundið. Það má taka veitingamenn sem eitt dæmi, þar sem að ég sat nýlega fund með nokkrum þeirra. Launakostnaður er hár og hráefniskostnaður fer hækkandi, en það er samt baráttuhugur í þeim og þess vegna hefur maður trú á framtíðinni í geiranum,“ segir Birna að lokum.

Voru farin að huga að tryggingastarfsemi og stækkun eignastýringar

Það verður ekki hjá því komist að ræða við Birnu um fyrirhugaða sameiningu Íslandsbanka og Kviku. Tilkynnt var í byrjun febrúar að bankarnir tveir væru að hefja samrunaviðræður og samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans ganga þær viðræður vel. Spurð um stöðu mála segist Birna lítið geta gefið upp annað en að málið sé enn í ferli og allir þeir sem að því koma séu að vanda til verka.

„Við förum reglulega í stefnumótunarvinnu og síðast þegar við lukum við slíka vinnu var það markmið okkar að ná innri vexti og einblína ekki á ytri vöxt. Við náðum þeim markmiðum og erum stolt af því. Við fórum síðan aftur í stefnumótunarvinnu í byrjun þessa árs, þar sem stefnan var tekin hvort tveggja á innri og ytri vöxt,“ segir Birna spurð nánar um aðdraganda viðræðnanna.

„Við vorum byrjuð að velta því fyrir okkur í hvaða átt við vildum fara þar. Við vorum farin að skoða tryggingastarfsemi og vildum stækka við okkur í eignastýringu. Þetta tvennt var efst á blaði. Kvika er með tryggingar, sem við erum ekki með, og með sterka eignastýringu.“

Birna segir erfitt að spá um það hvenær samrunaviðræður bankanna kunni að klárast.

„Nú stendur yfir mikil vinna við að skilgreina markaði og finna flöt á því að kynna eftirlitsaðilum samrunann. Þetta er mikilvægur þáttur í þessu ferli,“ segir hún.

„Að öðru leyti gengur daglegur rekstur bankans samkvæmt venju. Hér eru ákvarðanir teknar og hlutirnir keyrðir áfram. Við látum ekki breytingar slá okkur út af laginu.“