Árni Oddur Þórðarson hefur verið forstjóri Marel í áratug. Hann er einnig í hópi stærstu hluthafa félagsins.
Árni Oddur Þórðarson hefur verið forstjóri Marel í áratug. Hann er einnig í hópi stærstu hluthafa félagsins.
„Það er númer eitt, gríðarleg breyting á neyslumynstri í heiminum. Það gerist mjög hratt og við höfum séð það fyrir og þess vegna er svo mikilvægt hvernig módel Marel er.“ Þetta segir Árni Oddur Þórðarson sem er nýjasti gestur Dagmála en …

„Það er númer eitt, gríðarleg breyting á neyslumynstri í heiminum. Það gerist mjög hratt og við höfum séð það fyrir og þess vegna er svo mikilvægt hvernig módel Marel er.“ Þetta segir Árni Oddur Þórðarson sem er nýjasti gestur Dagmála en fyrirtæki hans, Marel, hefur talsvert verið í umræðunni í kjölfar uppgjörs fyrsta ársfjórðungs sem olli nokkrum vonbrigðum. Hefur hlutabréfaverð fyrirtækisins lækkað um á þriðja tug prósenta síðan en Árni Oddur segir mikilvægt fyrir stjórnendur fyrirtækisins að skýra betur fyrir markaðnum á hvaða vegferð það sé. Miklar fjárfestingar taki í en þær muni skila sér vel á komandi misserum og árum.

Heimurinn þarf prótín

„Við erum númer eitt í heiminum í vörum, lausnum, þjónustu og hugbúnaði í kjöti, kjúklingi og fiski á öllum framleiðslustigum. Við erum að fara núna í plöntuprótínin þannig að það eina sem við erum ekki með í prótínum sem við neytum eru egg. Og við vitum öll að við verðum að hafa prótín sem miðjuna á diskinum á hverjum einasta degi. Þannig að Marel mun alltaf koma að málum. Í rauninni er sveifla alls ekki slæm fyrir Marel því þá þurfum við að fjárfesta á nýjum vettvangi en þegar sveiflan er svona hröð þá þurfa viðskiptavinir okkar, sem eru stundum í kjöti, kjúklingi og fiski, að endurhugsa hvar þeir ætla að fjárfesta,“ útskýrir Árni Oddur.

Bendir hann á að bandarísk yfirvöld hafi gert ráð fyrir að sveiflan milli ólíkra vöruflokka yrði 3% í ár.

„Raunin með verðhækkunum og -lækkunum er að við sjáum nautakjöt færast niður um allt að 9% á einum fjórðungi og kjúklingakjöt upp um það sama. Það þýðir að núna þarf að vera mikil fjárfesting í kjúklingi. Þannig að allt þetta leggst á eitt,“ segir forstjórinn.

Hann bendir þó að þetta sé í sjálfu sér ekki slæm þróun. Þetta kalli á nýfjárfestingu hjá Marel en að það sé á sviði sem fyrirtækið kunni mjög vel á.

„Þótt kjötið farið niður og tímabundið fari hagnaður niður í kjöti þá vegur það 25% þegar við héldum að það myndi vega 30% eftir að við keyptum þetta frábæra fyrirtæki Wenger og kjúklingurinn vegur 50% þegar við héldum að hann myndi vega 40%. Og af hverju er þetta mikilvægt? Því við vitum hvernig á að hagnast um 18-21% í kjúklingi og okkar ferðalag núna er að bæta reksturinn í kjöti yfir 10% EBIT.“

Á síðustu vikum hefur Árni Oddur fundað með einkafjárfestum hér á landi og lífeyrissjóðum auk þess að taka hinn hefðbundna rúnt með stærri fjárfestum í Bandaríkjunum og Evrópu. Hann segir mikilvægt að styrkja tengslin inn á íslenska markaðinn í kjölfar heimsfaraldurs þegar fólk gat ekki hist augliti til auglitis.

Stöðugar tekjur aukist

Á fyrrnefndum fundum hefur hann m.a. verið að benda á að fyrirtækið hafi með fjárfestingum og beinum aðgerðum aukið stöðugar tekjur félagsins, svokallaðar þjónustutekjur, verulega. Þær hafi verið 10% af tekjum félagsins árið 2005 en numið 195 milljónum evra, eða 30 milljörðum króna, á nýafstöðnum fjórðungi. Það svari til 45% af tekjum fyrirtækisins.

„Með þjónustutekjum komumst við í stöðugra samband við viðskiptavini okkar hverju sinni. Til að rifja upp þá eru það allt frá litlum kjötkaupmönnum upp í hverfisverslanir eins og Melabúð, upp í súpermarkaði eins og Walmart og Costco og þess háttar og stórfyrirtæki eins og JBS sem veltir 80 milljörðum dollara og Tyson og þess háttar,“ útskýrir Árni Oddur í hinu ítarlega viðtali sem birt var í morgun og er aðgengilegt áskrifendum Morgunblaðsins á mbl.is.