Ingibjörg Salóme segir það einkum háu orkuverði að kenna að erlendir framleiðendur hafa neyðst til að hækka hjá sér verðin.
Ingibjörg Salóme segir það einkum háu orkuverði að kenna að erlendir framleiðendur hafa neyðst til að hækka hjá sér verðin. — Morgunblaði/Arnþór Birkisson
Íslenska gæludýrahagkerfið vex jafnt og þétt og nóg er að gera hjá versluninni Gæludýr.is, en þar nær Ingibjörg Salóme að sameina vinnuna og sitt aðaláhugamál. Á dögunum tók hún sæti í stjórn FKA, félags kvenna í atvinnurekstri

Íslenska gæludýrahagkerfið vex jafnt og þétt og nóg er að gera hjá versluninni Gæludýr.is, en þar nær Ingibjörg Salóme að sameina vinnuna og sitt aðaláhugamál. Á dögunum tók hún sæti í stjórn FKA, félags kvenna í atvinnurekstri.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Helstu áskorarnirnar þessi misserin finnst mér vera hækkanir erlendis frá sem eru aðallega tilkomnar vegna gríðarlegrar hækkunar á orkuverði. Það hefur leitt til verðhækkana frá birgjum sem því miður skila sér út í verðið til neytenda sem aftur hefur svo áhrif á verðbólgu. Auk þess höfum við, eins og önnur fyrirtæki, upplifað hækkanir ásamt auknum launakostnaði.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á það hvernig þú starfar?

Ég held að bókin Ríki pabbi Fátæki pabbi (e. Rich Dad Poor Dad) eftir Robert Kiyosaki sé mín biblía í viðskiptum. Boðskapurinn úr þeirri fjarskagóðu bók hefur alltaf verið mitt leiðarljós.

Hver var síðasta ráðstefnan sem þú sóttir?

Ég fór á frábæran fyrirlestur sem hét „Framtíð netverslunar“ sem haldinn var í Hörpu 19. maí síðastliðinn. Hann var mjög fræðandi, margar hugmyndir
sem kviknuðu og alltaf svo gaman að sjá hvað við eigum margt frambærilegt ungt fólk í viðskiptalífinu. Gæludýr.is hefur rekið vefverslun frá árinu 2009, þar sem Gæludýr.is byrjaði sem vefverslun og fyrsta hefðbundna verslunin opnaði 2010. Í dag eru verslanir Gæludýr.is sex talsins, þ.e. fimm hefðbundar verslanir og svo vefverslunin. Í faraldrinum vorum við því vel undirbúin fyrir gríðarlega aukningu í vefverslun og gátum sinnt öllum viðskiptum vel og haldið uppi sama þjónustustigi og hefur alltaf verið hjá okkur. Ef þú pantar fyrir kl. 14 færðu sendingu heim að dyrum samdægurs.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Ég reyni að fara á sem flestar ráðstefnur og fyrirlestra. Ég les einnig mikið og reyni að vera vel upplýst um nýjustu strauma og stefnur, sérstaklega í stjórnun. Mitt áhugasvið hefur alltaf verið í stjórnun og uppbyggingu fyrirtækja og að búa til sterkt vörumerki. Ég tók einnig námskeiðið Viðurkenndir stjórnarmenn hjá Akademias í fyrra og ég finn hversu mikilvægt það er að huga að endurmenntun. Að auki nota ég FKA óspart, bæði til að sækja viðburði á þeirra vegum og ekki síst til að styrkja tengslanetið og fá ráð og spegil á þau verkefni sem ég er að fást við á hverjum tíma.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?

Ég held ég yrði bóndi ef ég væri að ákveða starfsferill minn í dag, – já, eða myndi starfa við þjálfun hunda. Ég elska að umgangast dýr og ég væri til í að vera með fullt af hundum, helst á stórum búgarði utan höfuðborgarsvæðisins. Þar gæti ég notið lífsins í íslensku sveitinni með öllu dýrunum mínum.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Það samfélag, sem FKA er, er mjög mikilvægt fyrir mig. Þar hef ég kynnst mörgum góðum konum sem veita mér mikinn innblástur og stuðningurinn sem við veitum hver annarri er ómetanlegur. Auk þess reyni ég að komast reglulega í frí erlendis. Ég ferðast mikið vegna starfs míns en ég reyni líka að fara í afslöppunarferðir til útlanda. Uppáhaldsstaðurinn, fyrir utan fallega landið mitt, er að fara og dvelja í húsi okkar hjóna á Spáni þar sem við höfum komið okkur upp öðru heimili. Húsið okkar er í gömlu spænsku þorpi þar sem er eins og tíminn hafi staðið í stað. Ég kann mjög vel við spænska menningu: að fara á markaðinn, kaupa í matinn og njóta. Hraðinn þar er öðruvísi og þar fylli ég á tankinn.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráð í einn dag?

Ég myndi samþykkja frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994 (um gæludýrahald). Þetta frumvarp var lagt fram af Ingu Sæland og varðar þau sjálfsögðu mannréttindi að halda gæludýr í fjöleignarhúsum.

Eins og lögin eru í dag þurfa 2/3 íbúa í fjöleignarhúsi að samþykkja gæludýrahald, og mjög einkennilegt að einstaklingar okkur alveg ótengdir hafi svo mikið ákvörðunarvald í lífi okkar. Nýja frumvarpið snýr þessu í raun við þar sem fólki er í sjálfsvald sett að halda gæludýr en verði af þeim mikil truflun eða ami fyrir íbúa hússins og eigandi neitar að gera bragarbót á, þá geti húsfélag með samþykki 2/3 íbúa gert viðkomandi að fjarlægja dýrið úr húsinu. Þetta er svo miklu eðlilegri nálgun, því í langflestum tilfellum eru gæludýrahald alls ekki til ama í fjölbýlum og margar rannsóknir sýna fram á ávinning þess að halda gæludýr.

Ævi og störf:

Nám: B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 2002; M.Sc. í Business Performance Management frá Aarhus Business School árið 2004; hundaþjálfaranám frá Cambridge Institute of Dog Behaviour & Training árið 2018.

Störf: Ég starfaði sem mannauðsstjóri hjá Matís ohf. á árunum 2005 til 2008 og sem mannauðsstjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Teris á árunum 2008 til 2010. Árið 2009 stofnuðum ég og eiginmaður minn Gæludýr.is og árið 2010 færði ég mig þangað og hef starfað þar síðan. Árið 2014 stofnuðum við heildverslunina Petmark ehf. og árið 2022 festum við kaup á versluninni home&you. Í dag starfa ég sem framkvæmdastjóri Gæludýr.is og home&you.

Áhugamál: Mitt helsta áhugamál er að ég er hundaræktandi og hef verið „í hundunum“ í 13 ár. Ég rækta ástralskan Silky Terrier og sit í stjórn Hundaræktarfélags Íslands. Það má því segja að ég vinni við áhugamálið mitt. Auk þess er ég félagskona í FKA og nýkjörin í stjórn FKA.

Fjölskylduhagir: Gift Eiríki Ásmundssyni viðskiptafræðingi og eigum við fimm börn og tvö barnabörn.