Mitsotakis ávarpar stuðningsmenn sína með Akrópólishæð í baksýn. Markaðir brugðust vel við þegar ljóst þótti að flokkur hans hefði sigrað í þingkosningum helgarinnar og taka nú grísk ríkisskuldabréf fram yfir ítölsk.
Mitsotakis ávarpar stuðningsmenn sína með Akrópólishæð í baksýn. Markaðir brugðust vel við þegar ljóst þótti að flokkur hans hefði sigrað í þingkosningum helgarinnar og taka nú grísk ríkisskuldabréf fram yfir ítölsk. — AFP/Aris Messinis
Loksins er farið að sjást til sólar í grísku efnahagslífi, eftir niðursveiflu sem hefur varað í nærri fimmtán ár. Eins og lesendur þekkja fóru Grikkir verr út úr fjármálahruninu 2007 en nokkur önnur þjóð og hefur landið ekki enn náð sér á strik

Loksins er farið að sjást til sólar í grísku efnahagslífi, eftir niðursveiflu sem hefur varað í nærri fimmtán ár.

Eins og lesendur þekkja fóru Grikkir verr út úr fjármálahruninu 2007 en nokkur önnur þjóð og hefur landið ekki enn náð sér á strik. Á föstu verðlagi er landsframleiðsla Grikklands í núna fimmtungi lægri en hún var áður en ósköpin dundu á og meðallaun í landinu fjórðungi lægri en þau voru fyrir fimmtán árum.

Samspil þátta varð þess valdandi að Grikklandi farnaðist svona illa: með evrunni og aðild að ESB fékk landið aðgang að ódýrum lánum og hvorki hið opinbera né almenningur kunnu sér hóf, svo að um árabil var mikill halli á ríkissjóði, halli á vöruviðskiptum við útlönd, og skuldirnar hrönnuðust upp. Þegar lánamarkaðir fóru á hliðina sat Grikkland uppi með miklar og dýrar skuldir og ekki hægt að milda höggið með því að fella gengið. Þá gátu stjórnvöld lítið gert til að auka tekjur sínar þegar þörfin var mest enda Grikkir allra þjóða flinkastir í að skjóta undan skatti.

En smám saman hefur ástandið farið skánandi. Sársaukafullar niðurskurðar- og aðhaldsaðgerðir báru á endanum árangur, og undanfarin tvö ár hefur hagvöxtur í Grikklandi verið mun betri en í ESB: 8,4% árið 2021 og 5,9% í fyrra. Skuldir ríkissjóðs eru enn háar en hafa lækkað töluvert; erlend fjárfesting hefur stóraukist og tekjur ríkissjóðs sömuleiðis. Benda sumir greinendur á að kórónuveirufaraldurinn hafi haft óvænt jákvæð áhrif því í faraldrinum var fólk iðulega tilneytt að greiða rafrænt fyrir vörur og þjónustu svo að erfiðara varð að fela tekjur fyrir skattayfirvöldum.

Góðu fréttirnar komu svo um daginn: S&P hefur endurskoðað lánshæfismat Grikklands og breytt horfunum úr „stöðugum“ í „jákvæðar“. Landið er aðeins hársbreidd frá því að færast úr ruslflokki upp í fjárfestingarflokk, og Yannis Stournaras – sem hefur verið seðlabankastjóri Grikklands frá 2014 – kveðst vera þess fullviss að lánshæfiseinkunnin muni hækka á þessu ári.

Verður þá þungu fargi létt af ríkissjóði Grikklands og af grísku atvinnulífi eins og það leggur sig.

Meira traustvekjandi en Ítalía

Fleiri góðar fréttir bárust um helgina. Nova Dimokratia, miðju-hægriflokkur Kyriakos Mitsotakis, sem hefur verið við völdin síðan 2019, sigraði í þingkosningunum sem fóru fram á sunnudag. Flokkurinn bætti lítillega við fylgi sitt en tapaði þingsætum og náði ekki hreinum meirihluta. Til að gera sigurinn enn sætari þá kom helsti keppinautur Nova Dimokratia, vinstriflokkurinn Syriza, með Alexis Tsipras í broddi fylkingar, út úr kosningunum með rúmlega 11 prósentustigum lægra fylgi.

Hefur Mitsotakis ákveðið að endurtaka kosningarnar í júní næstkomandi, með von um að ná meirihluta þingsæta og fá þannig enn betra svigrúm til framkvæmda. Í þetta skiptið verður kosið eftir nýju kerfi sem mun veita stærsta flokknum 50 viðbótarsæti og því næsta víst að Mitsotakis fái ósk sína uppfyllta enda með 20 prósentustiga forskot á næststærsta flokkinn.

„Grikkland þarf ríkisstjórn sem getur ráðist í umbætur, og það er ekki hægt með brothættum meirihluta,“ sagði hann við blaðamenn og bætti við að kjósendur hafi greinilega viljað veita Nova Dimokratia umboð til að stjórna landinu óháð öðrum, og af staðfestu.

Markaðir fögnuðu bæði sigri Nova Dimokratia, og þeirri ákvörðun Mitsotakis að freista þess að styrkja umboð sitt enn frekar. Lækkaði ávöxtunarkrafa grískra ríkisskuldabréfa í byrjun vikunnar og er nú svo komið, eftir allt sem á undan er gengið, að grísku skuldabréfin bera hagstæðari kjör en þau ítölsku. Samkvæmt tölum Bloomberg hefur það ekki gerst síðan árið 1999 að fjárfestar hafa talið grísk ríkisskuldabréf öruggari fjárfestingu en ítölsk.

Hið gríska makindalíf

Vandamál Grikklands snúast þó um meira en það að saxa á skuldirnar, koma böndum á ríkisreksturinn og skapa fyrirtækjum eðlileg vaxtarskilyrði. Verður ekki hjá því komist að benda á ákveðna samfélagslega og kerfislæga þætti sem flækjast fyrir gríska hagkerfinu.

Samsetning atvinnulífsins lofar t.d. ekki góðu: Ferðaþjónustan ber fimmtung hagkerfisins uppi en þar eru störfin ekkert sérstaklega vel launuð og takmarkað svigrúm til að auka verðmætasköpun nú þegar greinin hefur aftur náð sömu stærð og fyrir faraldur. Aðrar útflutningsgreinar hafa ekkert sérstakt forskot á erlenda keppinauta, og standa verr að vígi ef eitthvað er í ljósi þess spekileka sem hefur átt sér stað undanfarinn áratug.

Grikkland situr líka uppi með mikla innviðaskuld. Það minnti landsmenn á hvað ástandið er slæmt, að í febrúar varð hörmulegt lestarslys norðarlega í landinu og kostaði 57 manns lífið. Borgir og bæir eru í niðurníðslu og sum hverfi Aþenu minna hreinlega á stríðssvæði: annað hvert hús er yfirgefið, byggðin öll hefur drabbast niður; vegirnir eru holóttir og allt útbíað í kroti.

Eftir skamma dvöl í landinu blasa við mér, hér og þar, alls kyns vísbendingar um veikleika grískrar vinnumenningar. Oft eru það smáatriðin sem eru mest lýsandi: Gengur t.d. seint og illa að fá pakka senda heim að dyrum – smáræði sem tekur nokkra daga annars staðar í Evrópu tekur eina eða tvær vikur í Grikklandi. Opnunartímar verslana eru líka stórskrítnir og margar búðir bara opnar hálfan daginn þrjá daga vikunnar, svo að freistandi væri að halda að rétt eins og Grikkirnir fundu upp heimspekina þá hafi þeir fundið upp styttingu vinnuvikunnar löngu á undan öllum öðrum.

Gildir það sama um Grikkland og um mörg önnur sólbökuð lönd við Miðjarðarhafið að það er ekki hægt að segja að vinnuharkan og metnaðurinn séu að gera út af við fólkið:

Ég sat nýverið í stólnum hjá grískum tannlækni sem útskýrði það fyrir mér, á meðan hann skrapaði burtu tannsteininn, að það væri vissulega allstór hópur fólks í gríska einkageiranum sem legði mjög hart að sér og uppskæri ágætis tekjur – eða a.m.k. von um betri kjör – en að stór hluti landsmanna mæti það sem skásta kostinn að finna sér stöðu hjá hinu opinbera þar sem hægt væri að slæpast og safna alls kyns fríðindum og réttindum yfir starfsævina. Unga fólkinu sagði hann að mætti líka skipta í tvo hópa: annars vegar eru þau snjöllu og metnaðarfullu sem vilja umfram allt freista gæfunnar erlendis þar sem komast má í betri laun. Hins vegar eru þeir sem finnst alveg nóg að vinna sér inn smá vasapening sem matarsendlar og verða seint líklegir til stórræðanna.

Að hafa sama metnað og Callas

Þá er tímabundinn viðsnúningur eitt, og annað að ná að halda áfram á réttri braut svo að auka megi hagsæld Grikkja til langframa. Væri freistandi að enda þessa grein á jákvæðu og bjartsýnu nótunum, jafnvel með sögu af fræknum hetjum aftan úr fornöld sem sigruðust á óyfirstíganlegum hindrunum og sýndu hvaða töggur býr í gríska fólkinu. En frekar en að vona að Grikkir berjist eins og Spartverjar eða verði útsjónarsamir eins og hetjur Hómerskviða, óska ég þeim sömu þrautseigju og söngdívan María Callas var gædd:

Gaman er að segja frá því að á uppvaxtarárum sínum bjó gríska þokkadísin Callas í næstu götu við mig hér í Aþenu, í einkar fallegri byggingu sem er friðuð en í niðurníðslu og nánast að hruni komin.

Nema hvað: Callas var ekki alltaf sú spengilega kona sem heimsbyggðin dáði heldur var hún orðin mjög þung á tímabili: 174 cm á hæð og 90 kg í kringum þrítugt (ekki að það sé neitt að því!). Callas var ekki ánægð með þyngdina og fannst aukakílóin bæði gera henni erfiðara að syngja og vera sannfærandi leikari uppi á sviði. „Mér leið ekki vel og var ekki sátt við stöðu mála. Mér fannst ég þurfa að taka þetta föstum tökum, líkt ég og hafði gert alla tíð í söngnum. Af hverju ætti ég þá ekki að geta farið í megrun og komist í form sem færi mér betur?“ sagði hún í viðtali.

Callas tók sig til og léttist um 36 kg á tveimur árum, og var breytingin slík að konan sem eitt sinn þótti úr hófi fram þéttholda varð að einhverri nettustu og glæsilegustu listakonu sem sést hefur. Samtímamaður hennar hafði á orði að það væri eins og Callas hefði verið sköpuð svona – á meðan raunin var að hún skapaði sig sjálf í þeirri mynd sem hún hafði einsett sér. Voru aukakílóin henni aldrei til vandræða upp frá því.

Hver veit hvort að Grikklandi takist líka að halda sig við kúrinn, núna þegar árangurinn er kominn í ljós.