Hér kemur punktur

Lífeyrismál

Helga Sveinbjörnsdóttir

Lífeyrissérfræðingur hjá Arion banka

Allir ættu að skoða lífeyrisréttindi sín á lifeyrisgattin.is og hjón/sambúðaraðilar að gera samanburð. Ef tekjumunur hefur verið mikill í gegnum tíðina og líkur á að tekjulægri aðilinn lifi lengur þykir almennt meiri ástæða til að skipta ellilífeyri. Aldursmunur getur haft áhrif á ákvörðun og sumir velta fyrir sér lífslíkum m.a. byggt á heilsufari og erfðum. Rétt er að leita ráðgjafar hjá núverandi lífeyrissjóði en mikilvægt er að taka mögulegar greiðslur TR og aðrar tekjur með í reikninginn til að átta sig á stöðunni við fráfall.

Það verður ekki bæði sleppt og haldið

Mikilvægt er að skoða ellilífeyrisréttindi, makalífeyrisrétt og fleira áður en samið er um skiptingu. Fjárhagslegur ávinningur skýrist fyrst við andlát fyrri aðila en markmiði skiptingar er náð ef tekjulægri lifir þann tekjuhærri. Mikilvægt er að báðir átti sig á að til að tryggja tekjulægri meiri réttindi, mun sá sem áður var tekjuhærri fá minna allt til æviloka, því samningur um skiptingu ellilífeyrisréttinda fellur ekki úr gildi við andlát þess sem fyrr fellur frá. Skipting skal vera gagnkvæm og jöfn, allt að 50% og nær aðeins til réttinda sem aflað hefur verið í hjúskap, óvígðri sambúð eða staðfestri samvist. Skipting nær aðeins til ellilífeyris en gildir ekki um örorku-, maka- og barnalífeyri.

Makalífeyrisréttur skiptir máli

Áður en tekin er ákvörðun um að skipta ellilífeyrisréttindum er mikilvægt að skoða hvort réttur sé til ævilangs makalífeyris. Ef umtalsverður hluti réttinda tekjuhærri aðila veitir rétt til ævilangs makalífeyris þá getur 50%/50% skipting skapað ójafna stöðu. Sumir hætta þá við skiptingu, en aðrir hafa hana í lægri hlutföllum til að ná fram markmiðinu um að jafna stöðu aðila við andlát.

Hvað skattgreiðslur varðar þá er ekki hægt að gefa maka skattþrep líkt og persónuafslátt, en við álagningu sér RSK þó til þess að vannýtt þrep nýtist maka að hálfu leyti. Skipting gæti hins vegar leitt til betri nýtingar. Ef tekjuhærri greiddi t.d. samkvæmt þrepi 1, 2 og 3 fyrir skiptingu gæti hann mögulega sloppið við hátekjuskatt eftir skiptingu. Að sama skapi gæti tekjulægri sem aðeins greiddi samkvæmt þrepi 1 fyrir skiptingu fullnýtt þrep 1 og 2 eftir skiptingu.

Engin óvissa við skiptingu ellilífeyrisgreiðslna

Skipting áunninna- og framtíðarréttinda er almennt gerð í óvissu um hvor lifir lengur en skipting ellilífeyrisgreiðslna er almennt ekki gerð í óvissu og á sérlega vel við ef (tekjuhærri) ellilífeyrisþegi er á hjúkrunarheimili. Það skiptir því máli að samningsaðilar hverju sinni leggi mat á stöðu sína og taki upplýsta ákvörðun.