Guðný Eyjólfsdóttir fæddist í Reykjavík 18. apríl 1937. Hún lést á dvalarheimilinu á Sauðárkróki 9. maí 2023.

Foreldrar Guðnýjar voru Eyjólfur Eyjólfsson bifreiðarstjóri, f. 1887 á Gufuskálum í Gerðahreppi, d. 1963, og Gjaflaug Eyjólfsdóttir húsfreyja, f. 1902 í Skipagerði á Stokkseyri, d. 1973. Systkini Guðnýjar eru Jóhann, f. 1928, d. 2021, Sigurður Kristinn, f. 1933, Eyjólfur, f. 1936, d. 2011, Eiríkur H., tvíburabróðir Guðnýjar, f. 1937, d. 1965. Hálfsystkini eru Guðjóna Friðsemd Eyjólfsdóttir, f. 1914, d. 2003, og Páll Þórir Jóhannsson, f. 1921, d. 2001.

Maður Guðnýjar var Sverrir Björnsson húsasmíðameistari, f. 1935 á Halldórsstöðum í Skagafirði, d. 2014. Foreldrar hans voru Björn Gíslason, bóndi og smiður í Reykjahlíð í Varmahlíð, f. 1900, d. 1988, og Hallfríður Þorsteinsdóttir húsfreyja, f. 1911, d. 1986.

Börn Sverris og Guðnýjar eru: 1) Hallfríður, f. 1958. Maður hennar er Sigurlaugur Elíasson. Sonur þeirra er Rökkvi, f. 1981. 2) Björn, f. 1961. Kona hans er Hrefna Björg Guðmundsdóttir. Dætur þeirra eru: a) Sunna Björk, f. 1983. Maður hennar er Jón Kristjánsson og dætur þeirra eru Álfrún Anja, Matthildur Lilja og Malín Rósa. b) Erla Björt, f. 1991. Sambýlismaður Konráð Þorleifsson. Dóttir þeirra er Anna Björt. Björn á einnig son, c) Tjörva, f. 1985. Móðir hans er Hrönn Jónsdóttir. Kona Tjörva er Lára Halla Sigurðardóttir. Börn þeirra eru Katla og Feykir. 3) Eiríkur Þór, f. 1965. Kona hans er Gunnlaug Kristín Ingvadóttir. Börn þeirra eru: a) Aron Vikar, f. 1994, og b) Tara Mist, f. 1996. Dóttir Töru er Amalía Von. 4) Eyjólfur Gjafar, f. 1968. Kona hans er Anna Pála Gísladóttir. Börn þeirra eru: a) Hólmar Örn, f. 1990. Kona hans er Jóna Vestfjörð Hannesdóttir. Börn þeirra eru Sylvía og Eyjólfur Hannes. b) Trausti Már, f. 1999. Sambýliskona Ýr Örlygsdóttir. c) Sverrir Rafn, f. 2008, d. 2008, og d) Kári Rafnar, f. 2010. 5) Sverrir, f. 1969. Kona hans er Fríða Ólöf Gunnarsdóttir. Börn þeirra eru: a) Eyjólfur Andri, f. 2003, b) Erna Sólveig, f. 2004, og c) Atli Björn, f. 2010. Sverrir á einnig dótturina d) Elísu Mareyju, f. 1993. Sambýlismaður Þórður Ingi Júlíusson. Móðir hennar er Jóna Petra Magnúsdóttir. Börn Elísu Mareyjar eru Magnús Berg og Eyrún Petra.

Guðný ólst upp á Vesturgötu 59 í Reykjavík, gekk í Miðbæjarskólann, síðan Austurbæjarskóla og veturinn 1955-1956 í Húsmæðraskólann á Varmalandi. Guðný vann í netagerð í Reykjavík þegar hún kynntist manni sínum Sverri þar sem hann var við nám í trésmíði. Þau bjuggu sín fyrstu búskaparár í Reykjavík, en fluttust til Sauðárkróks 1961, með tvö börn. Guðný og Sverrir bjuggu á Sauðárkróki alla tíð, lengst af á Smáragrund 20. Eftir fráfall Sverris 2014 bjó Guðný þar áfram þar til hún veiktist á liðnu hausti og flutti á dvalarheimilið.

Guðný vann við fiskvinnslu í hálfu starfi til eftirlaunaaldurs og í u.þ.b. 25 ár við ræstingar í Gagnfræðaskóla Sauðárkróks.

Guðný verður jarðsungin frá Sauðárkrókskirkju í dag, 24. maí 2023, klukkan 14.

Hún skaust í heiminn fyrr en nokkurn grunaði, píslin sem eyddi fyrstu vikunum í skókassa á ofninum heima hjá sér.

Guðný tengdamamma var engri lík, æddi áfram og lét ekkert stoppa sig. Hún lærði fljótt á nýja hluti, var forvitin og vildi prófa allt. Hún sagði aldrei að neitt hefði verið betra í gamla daga, nútíminn var það sem gilti hverju sinni. Þó gat hún yljað sér við góðar minningar í góðra vina hópi. Það var upplifun að sitja með henni og bróður hennar þar sem þau rifjuðu upp æskuna á Vesturgötunni og sveitardvöl á sumrum.

Guðný lét ekki bjóða sér og sínum neina vitleysu og þeir sem fóru yfir strikið fengu orð í eyra og þá skorti hana ekki orðaforðann og væri hún búin með bestu orðin var hún öflugur nýyrðasmiður. Hún hugsaði oft upphátt og sagði stundum meira en hún ætlaði. Fengi hún ákúrur var svarið jafnan að hún hefði nú lagast mikið.

Alltaf var hún á öðru hundraðinu enda nóg að gera með fullt hús af krökkum og alltaf pláss fyrir fleiri, vini barnanna og seinna tengdabörnin, fjölskyldur þeirra og vini, barnabörnin og barnabarnabörnin, allir voru velkomnir á Smáragrundina, og viljið þið ekki bara gista? Hún var ótrúlega nýtin en á sama tíma svo örlát og þakklát fyrir það sem hún átti og viljug að deila með sér öllum sínum lífsgæðum. Henni var mikið í mun að allir væru saddir, alltaf. Ísskápurinn, búrið og kistan voru alltaf yfirfull og hefðu getað fætt allt héraðið ef harðnaði á dalnum.

Guðný var ósérhlífin, húmoristi og prakkari, spilaði á gítar, greip í nikkuna, söng og jóðlaði og alltaf var stutt í hláturinn. Hún elskaði fólkið sitt, kántrítónlist, fallegar bíómyndir, ástarsögur, útilegur, dans, bakstur, handavinnu og garðvinnu. Eða kannski ekki garðvinnu, hún þeyttist um með sláttuvélina þótt henni þætti það hundleiðinlegt en það hélt henni í formi og hún var alltaf í formi. Þegar hún veiktist í vetur fannst henni það fín tímasetning hjá sér því þá þurfti hún ekki að fá neinn til að slá fyrir sig.

Píslin varð aldrei neitt sérstaklega stór í eiginlegri merkingu en persónuleikinn var risastór og litríkur. Ég bíð spennt eftir að sjá regnbogann því það kæmi mér ekki á óvart ef hún hefði bætt við nýjum lit á leið sinni yfir hann.

Risastóra píslin okkar kvaddi þennan heim eins og hún heilsaði, fyrr en nokkurn hefði grunað.

Elsku Guðný mín, takk fyrir allt, allt sem þú kenndir mér, elskuna, vináttuna og tryggðina.

Anna Pála Gísladóttir.

Guðný tengdamóðir mín var borinn og barnfæddur Reykvíkingur en þó með rætur í Skagafirði enda kynntist hún skagfirskum eiginmanni sínum ung að árum og bjó þar nær alla sína tíð. Okkar leiðir lágu fyrst saman fyrir tæpum 23 árum. Hún og tengdapabbi heitinn tóku mér frá fyrstu kynnum opnum örmum og naut ég velvildar þeirrar og gestrisni alla tíð síðan. Ég fann strax að þau hjónin voru gott og harðduglegt fólk og maður skynjaði tilhlökkun þeirra til að njóta eftirlaunaáranna sem voru handan við hornið eftir að hafa komið fimm myndarbörnum á legg og lagt hart að sér við vinnu alla tíð. Þau höfðu eignast húsbíl og nutu þess mjög að ferðast á honum um landið. Við Sverrir maðurinn minn vorum dugleg að kíkja í rólegheitin fyrir norðan og á þessum fyrstu árum eftir kynni okkar gistu þau oftast hjá okkur þegar þau komu suður enda vorum við á þeim tíma barnlaus í rúmgóðu húsnæði. Það sem einkenndi þau hjónin var mikil hógværð og aldrei mátti maður hafa neitt fyrir þeim. Guðný var hjálpsöm og það var svo óendanlega ríkt í henni „að verða að gagni“ eins og hún orðaði það sjálf. Eitt af því sem hún kenndi mér var að brúna kartöflur og alveg merkilegt að hún skyldi yfirleitt lítið hafa talað um það nema undir það síðasta þegar minnið var farið að bregðast henni. Dýrmætur vinskapur Guðnýjar og foreldra minna myndaðist þegar þau fóru saman í nokkur skipti ásamt hópi Sauðkrækinga til Kanaríeyja. Þegar Guðný varð áttræð fyrir nokkrum árum varð það úr að börnin hennar slógu saman í ferð handa henni til Dublin sem við mamma og dóttir mín fórum í með henni. Það sem stóð upp úr hjá Guðnýju í þessari ferð var kvöldið sem við ákváðum að vera allar saman á náttfötunum og panta okkur mat upp á herbergið.

Guðný var ótrúlega vel á sig komin alla tíð. Glaðværð og léttleiki einkenndi hennar skapgerð og fleytti henni langt. Hispursleysi hennar átti það stundum til að koma fólki í opna skjöldu og oft gat maður brosað í kampinn yfir hlutum sem hún lét flakka en ristu ekki djúpt. Maður vissi allavega nákvæmlega hvar maður hafði hana. Hún var ekki mikið gefin fyrir heimsins prjál og lét yfirleitt lítið fyrir sér fara. Hennar kynslóð stóð ekki á hliðarlínunni og hvatti börnin sín á íþróttakappleikjum og þar var hún engin undantekning – ekki einu sinni eftir að synir hennar tveir urðu atvinnumenn í knattspyrnu. Eflaust var hún mjög stolt af þeim en henni dugði að mæta á einn knattspyrnuleik þar sem allir hennar fjórir synir spiluðu saman – en heim fór hún í hálfleik enda þoldi hún illa að horfa á aðra sparka í drengina hennar. Eftir að heilsunni fór að hraka sl. haust bjó hún á hjúkrunar- og dvalarheimili HSN á Sauðárkróki þar sem hún naut mjög góðrar umönnunar. Í síðustu heimsóknum okkar til hennar skynjaði maður mikla friðsæld og sátt og léttleikinn var í fyrirrúmi þrátt fyrir að vera upp á aðra komin með athafnir daglegs lífs. Umvafin börnunum sínum kvaddi hún þessa jarðvist. Í hjarta mínu geymi ég minningu hennar um alla tíð. Takk fyrir allt elsku besta tengdamamma mín.

Fríða Ólöf

Gunnarsdóttir.

Kveðja:

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni

svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Það er gott að hugsa um það, sem maður er þakklátur fyrir í lífinu. Þessa dagana erum við þakklát fyrir að hafa kynnst Guðnýju.

Fyrir rúmum 20 árum hittumst við fyrst þegar börnin okkar hófu búskap.

Fyrst hittumst við oftast i veislum, en svo fórum við að heimsækja þau hjón þegar við skruppum norður á Sauðárkrók. Ætíð var gaman að hitta þau.

Eftir að Guðný varð ein og við fórum að fara með henni og fleira fólki að norðan til Gran Canaria þá kynntumst við betur og sérstaklega var ánægjulegt að deila saman íbúð þar. Alltaf var líf og fjör hjá okkur enda Guðný einstaklega lífsglöð og glaðleg.

Hér heima fórum við saman á berjamó þegar við dvöldum hjá henni fyrir norðan og fleiri stuttar dagsferðir norðanlands.

Að leiðarlokum er gott að ylja sér við góðar minningar um góðar samverustundir.

Við sendum öllum sem elskuðu hana og voru henni kærir okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Erna og Gunnar.