Vilhjálmur Eyþórsson fæddist í Reykjavík 17. desember 1944. Hann lést á heimili sínu 7. maí 2023.

Foreldrar hans voru Eyþór Gunnarsson læknir, f. 24. febrúar 1908 í Vestmannaeyjum, d. 25. ágúst 1969 og Valgerður Eva Vilhjálmsdóttir húsmóðir, f. 23. júní 1912 í Reykjavík, d. 15. október 1975. Systkini hans eru Jóhanna Eyþórsdóttir, f. 17. ágúst 1937, Gunnar Eyþórsson, f. 23. júní 1940, d. 18. ágúst 2001, og Sigurður Eyþórsson, f. 29. júlí 1948. Hann giftist Evelyne Nihouarn 23. febrúar 1980 en þau skildu.

Vilhjálmur varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1963. Hann starfaði við ýmislegt um ævina; sem kennari um skeið, bæði á Hvammstanga og Keflavík, hann var á sjó á tímabili og vann líka á Keflavíkurflugvelli. Einnig vann hann í verksmiðju nokkur ár í Svíþjóð sem ungur maður. Hann dvaldi á Spáni seinna á ævinni í allmörg ár.

Hin síðari ár var hann sjálfstætt starfandi, fyrst og fremst við ritstörf. Vilhjálmur skrifaði bókaflokkinn „Íslenskur annáll“ á árunum 1980 til 1995. Einnig skrifaði hann blogg, greinar og greinaflokka í Morgunblaðið allt frá 1980 og hin síðari ár einnig í tímaritið Þjóðmál. Vilhjálmur hafði allsérstæðar skoðanir á hinum ýmsu málefnum og var óspar á að láta þær í ljós. Útför hans fer fram frá Grensáskirkju í dag, 24. maí 2023, kl. 13.

Fallinn er í valinn kær eldri bróðir minn, Vilhjálmur Sigurður, sem ég á margar fallegar minningar um.

Vilhjálmur fór í menntaskólann í Reykjavík, þaðan í Háskóla Íslands í læknisfræði, en hætti þar og skipti yfir í Lunds universitet að læra stjórnmálafræði. Að því loknu kom hann aftur heim og fór að kenna á Hvammstanga og í Keflavík. Villi var snemma mikill lestrarhestur og var snemma áhugasamur um sögu, sagnfræði og heimspeki.

Hann reyndi fyrir sér á klarinett og spilaði á píanóið sem faðir okkar keypti af Páli Ísólfssyni á sínum tíma. Mér fannst ég samt hafa betri fingrasetningu en hann þegar við vorum að metast um hæfni okkar á hljóðfærið ungir menn.

Villi var hrifinn af verkum Chopins, eins og etíðum hans, og sónötum Beethovens.

Villi gat talað fjögur tungumál, ensku, spænsku, sænsku, þýsku og hrafl í frönsku enda var hann kvæntur franskri konu, Evelyn, á áttunda áratugnum, en þau skildu eftir nokkurra ára samvist. Þeim varð ekki barna auðið.

Eftir útgáfu á Íslenskum annál, 10 bindi, sem hann skrifaði og var ritstjóri að flutti hann til Spánar og bjó þar í nokkur ár og fór að vera með Barböru, hún var reyndar ensk og kom hún seinna að heimsækja hann til Íslands, en Villi lenti í alvarlegu bílslysi 1995 á Spáni og flutti síðar til Íslands. Hann komst aftur á fætur eftir það þó hann hafi aldrei alveg jafnað sig eftir þennan atburð.

Kemur mér í hug ljóð Einars Benediktssonar, Rigning, sem var uppáhaldsljóð móður okkar, Valgerðar Evu Vilhjálmsdóttur, en Villi var skírður eftir föður hennar:

Hver er sem veit, nær daggir drjúpa,

hvar dafnar fræ, sem ná skal hæst.

Hver er sem veit, nær knéin krjúpa

við kirkjuskör, hvað Guði er næst.

Fyrst jafnt skal rigna yfir alla,

jafnt akurland sem grýtta jörð, –

skal nokkurt tár þá tapað falla,

skal týna sauði nokkur hjörð?

Hver er að dómi æðsta góður, –

hver er hér smár og hver er stór?

- Í hverju strái er himingróður,

í hverjum dropa reginsjór.

Hvíl í friði bróðir.

Sigurður Eyþórsson.

Vilhjálmur Eyþórsson fæddist í Reykjavík og starfaði ýmislegt um ævina. Um skeið starfaði hann við kennslu á Hvammstanga og í Keflavík, sótti sjó og vann á Keflavíkurflugvelli. Vann við verksmiðjustörf í Svíþjóð og dvaldi allmörg ár á Spáni. Vilhjálmur gaf út bókaflokkinn Íslenskur annáll á árunum 1980-1985 og vann við ýmis ritstörf.

Vilhjálmi kynntist ég í gegn um Hressingarskálaakademíuna sem síðar hraktist á Café París þegar hamborgaralágmenningin yfirtók gamla skálann. Hressingarskálaakademían innihélt fyrirmenn lista og fræða á hátindi sínum. Má þar nefna tónskáldin Atla Heimi og Jón Ásgeirsson, Harald Ólafsson mannfræðing, Gunnar Dal, Agnar Þórðarson og Þorgeir Þorgeirson svo nokkrir séu nefndir. Þarna voru málefni samtíðarinnar krufin svo undan sveið og lét Vilhjálmur ekki sitt eftir liggja. Fyrir kom að vinstrisinnaðir sjálftökumenn sannleikans skildu við borðið vel kinnarjóðir því ekkert gaf Vilhjálmur eftir og sat sem fastast og stóð af sér andræði og úthúðanir og mætti keikur næsta dag. Skoðanir hans voru ekki alltaf við alþýðuskap og hjarðlæti og þjóðarbólusetningar nutu ekki hans blessunar.

Vilhjálmur var greinarhöfundur í tímaritinu Þjóðmálum. Fátt af samtíðarmálum var honum óviðkomandi eins og koldíoxíðmyndun sem væri náttúruleg og hefði svo verið um ármilljarða. Loftslagsvá væri einungis áhyggjusýki og tebollaraus til handa aðgerðaleysingjum og staðgengill aldagamalla trúarbragða. Hinn nýi Guð væri risinn í síendurteknum staðleysum í fullyrðingum menntamanna og fylltu tóm trúarinnar.

Blessaður Mogginn og stjórnmálaskrif Davíðs Oddssonar voru hinir silfurtæru lækir lifandi vatns sem í tilvist Vilhjálms náðu að vega á móti hinum moldrunnu fljótum meirihlutans í Reykjavík. Honum fann hann flest til foráttu og varð tíðrætt um mistök, eyðileggingu miðborgarinnar, umferðarklúður og fleira markvert þar um.

Þegar Vilhjálmur var orðinn vegmóður og fótasár kom ég oft til hans með ýmis aðföng því við áttum samleið í nytjastefnu. Var hvorugur okkar óttasleginn varðandi dagsetningar runnar úr hugarfylgsnum kjarklausra möppudýra. Gat honum oft komið vel í misrúmum efnum góðmeti sem hvítflibbasamfélagið hefði fengið andnauð yfir og sparaði sér stigaprílið um leið. Sem áhangandi nytjahyggjunnar má segja að hann hafi verið á undan sinni samtíð. Reynsla hans sem þefvís matsveinn nýttist þar vel.

Sárast var fyrir hann hve fætur hans báru hann illa síðustu árin en viljastyrkurinn bar hann langt. Víst er að hljóðlátara verður við kaffiborðið hjá Kringluakademíunni á næstunni.

Valdimar Tómasson.

Vilhjálmur Eyþórsson er allur.

Kunningjar okkar Villa í kaffihúsahópnum í borginni; sem er nú oftast kenndur við Kaffi París; hafa beðið mig um að skrifa hér minningargrein um hann; enda var hann þar aðsópsmikill þátttakandi í áratugi!

Mér er hvað minnisstæðast hve Vilhjálmur var tilfinningaríkur hugsjónamaður sem gat haft orð á mörgum hlutum utan alfaraleiðar. Fyrir það er ég honum þakklátur.

Við hófum báðir starfsferil okkar við kennslu; svo sem sjá má í Kennaratalinu. (Þó náði hann fleiri árum í slíku en ég!)

Hann lagði mikla ástríðu í skriftir um ýmis stórmál líðandi stundar; í ýmsum prentmiðlum. (Svo sem sjá má nú í stóru greinasafn hans með sýnishornum af slíku á netinu.)

Einnig þótti mér vænt um að hann var vel að sér í klassískum fræðum um Grikkja og Rómverja. (Þannig kunni hann vel að meta þegar ég gaf honum bók eftir mig um slík efni er nefnist: Sögur og þýdd ljóð.)

Honum þótti vænt um er ég birti minningargrein með málefnalegu ljóði mínu eftir einn góðvininn okkar. Því vil ég nú kveðja hann fyrir hönd okkar sameiginlegu kaffihúsafélaga; í rúma þrjá áratugi; með ljóðabroti mínu um okkar sameiginlega áhugamál; Rómaveldi. En það ljóð mitt heitir: Innblásið af bréfum Rómverjans Plíníusar yngra; og yrki ég þar svo, í byrjun:

Þegar ég ranka við mér heima

í hjúkrunarklefanum dimma;

með haganlegum glugga þó;

opna ég flensubólgin augun

og skynja framandlega ljósadýrð;

stend svo upp og skjögra

inn ganginn til þín; þín;

þriðju konunnar; sem bíður

ljúflega í hjónarúminu okkar;

og ert mér þar yndistilveran öll!

Tryggvi V. Líndal.