Hjörleifur Arnar Waagfjörð, formaður ritnefndar nýrrar bókar um lífeyrismál, og Guðný Helga Lárusdóttir, ritstjóri bókarinnar.
Hjörleifur Arnar Waagfjörð, formaður ritnefndar nýrrar bókar um lífeyrismál, og Guðný Helga Lárusdóttir, ritstjóri bókarinnar. — Morgunblaðið/Eggert
Arion banki gaf nýverið út bók um lífeyrismál, en um er að ræða yfir 200 blaðsíðna rit þar sem snert er á flestu sem tengist starfsemi lífeyrissjóða. Margir komu að gerð bókarinnar, meðal annars starfsfólk Arion banka, stjórnendur úr lífeyrissjóðageiranum og aðrir fagaðilar

Arion banki gaf nýverið út bók um lífeyrismál, en um er að ræða yfir 200 blaðsíðna rit þar sem snert er á flestu sem tengist starfsemi lífeyrissjóða. Margir komu að gerð bókarinnar, meðal annars starfsfólk Arion banka, stjórnendur úr lífeyrissjóðageiranum og aðrir fagaðilar.

Heildstætt rit

Í ritnefndinni sitja þau Guðný Helga Lárusdóttir, sérfræðingur í rekstri lífeyrissjóða og verðbréfa hjá Arion banka og ritstjóri bókarinnar, Hjörleifur Arnar Waagfjörð, forstöðumaður eignastýringar fagfjárfesta hjá Arion banka og formaður ritnefndar, Jóhann Möller, framkvæmdastjóri markaða hjá Arion banka og Sigrún Hauksdóttir, forstöðumaður reksturs lífeyrissjóða og verðbréfa hjá Arion banka.

Guðný Helga segir að markmiðið hafi verið að safna saman þekkingu tengdri starfsemi lífeyrissjóða sem býr innan bankans í eitt heildstætt rit sem nýst gæti stjórnarfólki og stjórnendum lífeyrissjóða í starfi sínu.

„Forveri bankans gaf út rit um lífeyrismál á árunum 2003 og 2006 sem vel var tekið og tími þótti til kominn að gefa út nýtt rit byggt á eldri grunni, þar sem töluverðar breytingar hafa orðið síðan þá,“ segir Guðný Helga.

„Við höfum orðið umtalsverða reynslu af starfsemi lífeyrissjóða og höfum átt snertifleti við allar hliðar starfseminnar. Okkur þótti því við hæfi að taka saman og deila þekkingu og reynslu okkar til annarra, svo sem stjórnarfólks og starfsfólks lífeyrissjóða, sem starfa í sama geira.“

„Þó meginmarkhópur bókarinnar sé stjórnarmenn og starfsmenn lífeyrissjóða þá á bókin ekki síður erindi við almenning og háskólasamfélagið og í raun við hvern þann sem vill kynna sér þennan vettvang nánar,“ bætir Hjörleifur við.

„Þrátt fyrir að umfjöllunin sé nokkuð sérhæfð er auðvitað frábært ef fólk vill kynna sér starfsemi lífeyrissjóða frekar,“ segir Guðný Helga.

Þekking hefur aukist

Aðspurð hvort skortur sé á fræðslu um lífeyrismál hér á landi segja þau að þau að alltaf megi bæta við enda mikilvægt málefni.

„Fræðslan hefur vissulega farið batnandi síðustu ár og sérstaklega er jákvætt hvað það hefur orðið mikil vitundarvakning á undanförnum árum hjá yngra fólki,“ segir Guðný Helga.

Bókin, sem kemur út á morgun, verður aðgengileg öllum rafrænt á heimasíðu Arion banka. Þau sem vilja nálgast bókina á prentuðu formi er velkomið að hafa samband við eignastýringu Arion banka.