Lóðaskortur í höfuðborginni hefur lengi verið alvarlegur efnahagsvandi

Árum saman hefur spenna verið að byggjast upp á fasteignamarkaði. Undirliggjandi orsök hefur um langt skeið verið stefna meirihlutans í höfuðborginni um að helst skuli ekkert byggt í austurhluta borgarinnar en þess í stað einblínt á svokölluð þéttingarsvæði. Þessu hafa fylgt mikil óþægindi víða fyrir íbúa á og í nágrenni þessara þéttingarsvæða, auk þess sem ein birtingarmyndin er milljarðaverðmæti sem borgin hefur fært þeim sem ekki vilja nýta bensínstöðvalóðir undir bensínstöðvar en hagnýta sér þess í stað ákafa borgarstjórnarmeirihlutans í þéttingu.

Lóðaskorturinn sem fylgir þéttingarstefnunni hefur einnig orðið til þess að þrýsta upp verðbólgu í landinu og lengi vel var húsnæðisliðurinn það sem ýtti upp verðlaginu, í boði borgarstjórnarmeirihlutans, þó að aðrir liðir hefðu þá ekki verið teknir að hækka eins og síðar varð. Samkvæmt nýjustu mælingu Hagstofunnar, og þrátt fyrir aðgerðir Seðlabankans, sem búist er við að hert verði á í dag, er staðan enn þannig að verðbólga með húsnæði mælist töluvert hærri en verðbólga án húsnæðis.

Þessi skortur á lóðum hefur vitaskuld alvarlegar afleiðingar og í Morgunblaðinu í gær er til að mynda fjallað um að um þrjú þúsund séu á biðlistum hjá íbúðafélaginu Bjargi, sem vinnur að því að útvega félagsmönnum ASÍ og BSRB íbúðir á viðráðanlegu verði.

Þrýstingur fór að myndast um rekstur slíkra félaga þegar lóðaskortur meirihlutans í Reykjavík hafði þrýst upp íbúðaverði og húsnæðið sem í boði var á þéttingarreitunum reyndist dýrt, eðli máls samkvæmt, enda dýrara að byggja á slíkum reitum en á óbyggðu landi. Rekstur slíkra félaga breytir hins vegar ekki þeim grundvallarlögmálum að til að hægt sé að bjóða nóg af húsnæði á viðráðanlegu verði þarf að bjóða upp á nægt magn af lóðum. Og þegar það er gert þá dregur mjög úr þörfinni fyrir sérstök úrræði enda sér markaðurinn þá um að byggt sé nægt húsnæði af ýmsu tagi, bæði fyrir þá sem vilja dýrt húsnæði og hina sem vilja ódýrt.

Í fyrrnefndri frétt er einnig rætt við framkvæmdastjóra lánasviðs hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem segir að skortur á hentugum byggingarlóðum hafi staðið í vegi uppbyggingar á hagkvæmu íbúðarhúsnæði. Þá segir hann að biðlistar eftir húsnæði félaga á borð við Bjarg séu enn að lengjast, sem er skýr vísbending um að enn þrengi að á þessum markaði þrátt fyrir yfirlýsingar opinberra aðila, þar með talið Reykjavíkurborgar, um að gera betur í þessum efnum.

Vandinn er sá að borgarstjórnarmeirihlutinn hefur ekki enn haft burði til að horfast í augu við að til að hlutirnir breytist verður að gera breytingar. Í þessu tilviki felur það vitaskuld í sér að láta af einstrengingslegri þéttingarstefnunni og hefja stórfellda uppbyggingu á nýju landi. Án slíkrar stefnubreytingar er engin von til þess að það slakni á spennunni á húsnæðismarkaðnum og jafnvægi náist. Þetta ætti við þó að íbúafjöldinn væri að þróast með hefðbundnum hætti, en fram hjá því verður ekki horft að fjölgunin hér á landi er gríðarleg og hefur verið um nokkurt skeið. Ekkert útlit er fyrir að sú þróun stöðvist á næstunni. Til viðbótar koma þúsundir undir merkjum flóttamanna og eina ráð yfirvalda til að leysa þann vanda er orðið að reisa hér flóttamannabúðir í stað þess að hemja strauminn. Litlar vísbendingar eru um að sú þróun lagist á næstunni.

Þegar Seðlabankinn hækkar vexti finnur fólk fyrir því – til þess er leikurinn gerður – og þá amast ýmsir út í bankann. Nær væri að horfa á orsakir vaxtanna, sem eru að töluverðu leyti skortur á lóðum og þar með húsnæði í höfuðborginni. Einfaldlega skortur á vexti borgarinnar. Þetta er nokkuð sem breyttur meirihluti í borgarstjórn hefði átt að taka á, en ekkert bendir til að breytinga sé að vænta í þessum efnum fremur en öðrum.