Tríó Scott McLemore trommuleikari, Sunna Gunnlaugs píanóleikari og Þorgrímur Jónsson kontrabassaleikari skipa Tríó Sunnu Gunnlaugs sem spilar m.a. á hinum fræga djassklúbbi Ronnie Scotts í London 12. júní nk.
Tríó Scott McLemore trommuleikari, Sunna Gunnlaugs píanóleikari og Þorgrímur Jónsson kontrabassaleikari skipa Tríó Sunnu Gunnlaugs sem spilar m.a. á hinum fræga djassklúbbi Ronnie Scotts í London 12. júní nk. — Ljósmynd/Hörður Sveinsson
„Þessi plata er aðeins frábrugðin hinum tríó-plötunum, sennilega af því að hún verður til í þessu Covid-ástandi,“ segir Sunna Gunnlaugsdóttir, djasspíanísti og leiðtogi Tríós Sunnu Gunnlaugs, sem föstudaginn 26

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

„Þessi plata er aðeins frábrugðin hinum tríó-plötunum, sennilega af því að hún verður til í þessu Covid-ástandi,“ segir Sunna Gunnlaugsdóttir, djasspíanísti og leiðtogi Tríós Sunnu Gunnlaugs, sem föstudaginn 26. maí kl. 20 fagnar útgáfu plötunnar Becoming með tónleikum í Breiðholtskirkju. Það er líka miklu að fagna því platan hefur fengið glimrandi viðtökur víðast hvar. Becoming var til dæmis valin á Europe Jazz Media-listann og Concerto í Austurríki og InMusic í Þýskalandi gefa plötunni fjórar stjörnur auk þess sem platan endaði sem söluhæsta djassplatan á tónlistarvefsíðunni Bandcamp í febrúar.

Þörf til að komast eitthvað

„Hinar plöturnar urðu til í því umhverfi þar sem við vorum mikið að spila erlendis og það var alltaf eitthvað framundan en í þessu Covid upplifði maður sig í svo mikilli biðstöðu og tónsmíðarnar urðu til í því andrúmslofti. Þær voru heldur ekki hugsaðar sérstaklega fyrir tríóið eða plötu.“

Sunna segir að fyrri plötur hafi verið opnari ef svo mætti að orði komast en í þessari megi frekar heyra þrá eða þörf til að komast eitthvað. Tónsmíðarnar sjálfar hafi stýrt tríóinu áfram.

Var platan þá að einhverju leyti þróuð eða tekin upp í gegnum fjarfundarbúnað?

„Nei, reyndar ekki. Ég samdi lögin og svo voru örfá tækifæri til að koma saman. Við spiluðum til dæmis á Jazzhátíð Reykjavíkur 2020 þegar það opnaðist smá samkomugluggi og þá fengum við tækifæri til að æfa þessi lög. Svo tókst okkur að æfa þetta síðasta sumar þegar við vorum á tónleikaferð um Kanada og Bandaríkin og svo tókum við þetta upp þegar við komum til Íslands.“

Becoming kom út í febrúar á Valentínusardaginn og var meðal söluhæstu djassplatna hjá Bandcamp þann mánuðinn auk þess sem hún var valin ein af plötum mánaðarins á síðunni, eins áður kom fram. Hverju þakkar Sunna þessar góðu viðtökur?

Iðin við kolann

„Ég hef verið mjög lengi inni á Bandcamp og verið iðin við að spila í 20 ár – þó að þetta tríó hafi ekki orðið til fyrr en 2011 – og hef passað mig á því alveg frá því ég byrjaði að spila í Bandaríkjunum að safna í póstlista. Og já, ég er bara svo heppin að hafa eignast svona trygga fylgjendur sem kaupa nánast allt sem ég gef út og inni á Bandcamp er mjög gott samfélag unnenda sem vilja fá tónlistina í meiri gæðum en er í boði á streymisveitum. Svo finnur maður að það er meiri áhugi um þessar mundir á vínyl-útgáfu en … já, ég held að ég geti helst þakkað þetta því að ég hef verið lengi að og gefið reglulega út tónlist.“

Fyrir tíð samfélagsmiðla voru póstlistar eitt af örfáum tækjum tónlistarmanna til að vera í sambandi við aðdáendur og nú virðist sem póstlistar séu aftur að sækja í sig veðrið. Ég spyr Sunnu hvort hún sé sammála því.

„Já, ég held að póstlistar hafi legið í dvala í ákveðinn tíma en núna er ég að átta mig á því hvað þeir eru mikilvægir í raun og veru. Sumir eru líka orðnir þreyttir á Facebook eða þessum stærstu samfélagsmiðlum og mér fannst skemmtilegt að sjá að þegar ég var að gefa plötuna út á Bandcamp var hægt að panta hana fyrirfram og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Svo margir voru tilbúnir að panta og senda skilaboð með og spurningar um hvar við myndum spila og svo framvegis.“

Uppreisn gegn Valentínusi

Er einhver sérstök ástæða fyrir því að hún kom út á Valentínusardaginn?

„Nei, í raun og veru ekki. Ég þurfti bara að velja einhvern dag og hugsaði með mér að þetta væri flottur dagur,“ segir hún og hlær.

Þetta er sem sagt ekkert sérstaklega rómantískur djass?

„Nei, og kannski bara uppreisn gegn þessari hugsun að allir eigi að fá blóm og fara út að borða og vera voðalega ástfangnir á þessum degi, sérstaklega.“