15 ára hjarta Fólk staldrar jafnan við og tekur mynd af umferðarljósunum.
15 ára hjarta Fólk staldrar jafnan við og tekur mynd af umferðarljósunum. — Ljósmynd/Hjálmar S. Brynjólfsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Rún Frímannsdóttir annarun@mbl.is

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Fyrir fimmtán árum fékk Margrét Blöndal, deildarstjóri menningar- og upplýsingadeildar Árborgar og fyrrverandi framkvæmdastjóri hátíðarinnar Ein með öllu, þá hugmynd í kollinn að setja rauð hjörtu í umferðarljós Akureyrarbæjar til að vekja athygli á góðri hegðun landsmanna yfir verslunarmannahelgina en borið hafði á því árin á undan að mikil drykkja og ólæti höfðu einkennt hátíðina. Margréti fannst tilvalið að minna á kærleikann og umburðarlyndið með þessum táknræna hætti.

Margrét segir verkefnið hafa verið stórt og mikið í framkvæmd á sínum tíma því í raun hafi það snúist um að skipta um ímynd hátíðarinnar. Þá hafi hún til að mynda ekki talið gesti inn á hátíðina heldur bros og sýnt þannig í verki að kærleikurinn væri alltumvefjandi en markmiðið var að gestir sem kæmu í bæinn kæmu glaðir og færu glaðir. Þá segir hún rauðu hjörtun hafa átt að vera tímabundið verkefni en nú fimmtán árum síðar eru þau orðin að nokkurs konar stöðutákni fyrir Akureyrarbæ að sögn Andra Teitssonar bæjarfulltrúa.

„Umferðarljósin vekja mikla athygli en maður heyrir alltaf af og til frá einhverjum sem er að sjá þau í fyrsta skipti og finnst þetta sniðugt. Þetta er sniðugt eitt og sér en svo er þetta líka táknrænt fyrir eitthvað meira. Við erum að reyna að koma þeim skilaboðum á framfæri að samfélagið sé einhvern veginn vinalegt og hlýlegt en í umferðinni á Akureyri eru allir vinir þínir, þar er keyrt rólega og stoppað fyrir þér á gangbraut.“

Allir tóku hugmyndinni vel

Hugmyndin að rauðu hjörtunum kviknaði við eldhúsborðið heima hjá Margréti þar sem hún sat ásamt frænku sinni og dóttur sem áður höfðu búið í Brussel. Þá rifjaðist upp fyrir annarri þeirra að hún hefði séð Valentínusarhjarta teiknað á umferðarljós þar í borg en það varð til þess að Margrét greip hugmyndina á lofti og fór þegar í stað að framkvæma hana.

„Ég gerði mér kannski ekki alveg grein fyrir því hversu mikil framkvæmd þetta yrði en það var með ólíkindum hvað allir tóku þessu vel og voru tilbúnir í að hjálpa. Við fórum seint um kvöld og komum hjörtunum fyrir í umferðarljósunum, mér fannst svo áhrifaríkt að fólk myndi sjá þau á leið í vinnu daginn eftir. Ég verð þó að viðurkenna að mig óraði ekki fyrir að þau yrðu svona vinsæl og langlíf.“