Hæstiréttur Dómur er fallinn í hinu langvinna Vatnsendamáli.
Hæstiréttur Dómur er fallinn í hinu langvinna Vatnsendamáli. — Morgunblaðið/Eggert
Kári Freyr Kristinsson karifreyr@mbl.is Guðjón Ármannsson lögmaður Kópavogsbæjar kvað niðurstöðu Hæstaréttar í gær í Vatnsendamálinu svokallaða hafa verið í samræmi við væntingar bæjarins. Lét lögmaðurinn þessa getið í samtali við mbl.is.

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

Guðjón Ármannsson lögmaður Kópavogsbæjar kvað niðurstöðu Hæstaréttar í gær í Vatnsendamálinu svokallaða hafa verið í samræmi við væntingar bæjarins. Lét lögmaðurinn þessa getið í samtali við mbl.is.

Sögu þessa langvinna dómsmáls má rekja til eignarnáms Kópavogs á landspildum árin 1992, 1998, 2000 og 2007 sem erfingjar Sigurðar K. Hjaltested, erfingja jarðarinnar Vatnsenda samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Hjaltested afabróður hans frá árinu 1938, eignuðust eftir andlát hans.

Búið ekki orðið fyrir fjártjóni

Töldu erfingjar Sigurðar að Kópavogur hefði greitt röngum aðilum bætur fyrir eignarnámið, ábúendum jarðarinnar. Hins vegar átti dánarbú Sigurðar beinan eignarrétt að Vatnsendajörðinni og töldu erfingjarnir dánarbúið því eiga rétt á þeim bótum.

Töldu þeir Kópavogsbæ ekki hafa losnað undan greiðsluskyldu til rétthafa með því að greiða ábúendum bæturnar og enn fremur gæti bærinn ekki firrt sig skaðabótaskyldu gagnvart dánarbúinu með því að greiða ábúendum bæturnar.

Í málinu krafðist Kópavogsbær sýknu af kröfum erfingja og byggði á því að dánarbú Sigurðar Hjaltested hefði aldrei orðið fyrir neinu fjártjóni við eignarnám bæjarins. Samkvæmt erfðaskrá Magnúsar föðurbróður hans tilheyrðu eignarnámsbæturnar þeim sem færu með umráð og afnot jarðarinnar á hverjum tíma.

75 milljarða krafa

Taldi bærinn að þrátt fyrir að Sigurður hefði notið beinna eignarréttinda yfir jörðinni fylgdu þeim réttindum ekki óbein réttindi. Þau réttindi hefðu verið formlegs eðlis og án fjárgildis. Eins byggði bærinn á því að eignarnámsbætur hefðu verið greiddar í góðri trú og til þess er á hverjum tíma hefði haft þinglýsta eignarheimild að Vatnsenda.

Sagði Guðjón lögmaður enn fremur í samtali við mbl.is í gær að sótt hefði verið að bænum úr þremur áttum hvað varðaði eignarnámið sem bærinn framkvæmdi árið 2007. Dánarbú Þorsteins Hjaltested, sonar Magnúsar Hjaltested, krefðist bóta vegna eignarnámsins 2007 en auk þess krefðust handhafar beins eignarréttar jarðarinnar bóta vegna eignarnáms árin 1992, 1998, 2000 og 2007. Útskýrði það fjárhæð dómkröfu erfingjanna á hendur bænum en hún nam 75 milljörðum króna.

Um hálf öld er nú liðin síðan Sigurður Hjaltested, þáverandi eigandi jarðarinnar, lést í brúðkaupsferð með Margréti Guðmundsdóttur eiginkonu sinni um borð í farþegaskipinu Gullfossi.

Þurfti 32 lögreglumenn

Við andlát hans risu deilur um eignarhald Vatnsenda en Magnús sonur Sigurðar krafðist þess að fá að flytja á Vatnsendabæinn og taka þar við búi. Var Margrét Hjaltested stjúpmóðir Magnúsar að lokum borin út af jörðinni ásamt hálfbræðrum Magnúsar og þurfti 32 lögreglumenn til að framfylgja dómi sem Hæstiréttur hafði þá kveðið upp. Fannst slíkt lögreglulið ekki í öllum Kópavogi þess tíma en nágrannasveitarfélög sendu liðsauka. Þótti lögregla fara offari og var vegum í nágrenni Vatnsenda lokað til að meina blaðaljósmyndurum aðgang.

„Þá væri mér að mæta“

Neitaði Guðmundur Gíslason, sonur Margrétar Hjaltested af fyrra hjónabandi, að yfirgefa Vatnsenda og báru þrír lögregluþjónar hann þaðan út í aðgerðum lögreglu árið 1969. Lýsti Guðmundur þessu í samtali við Kópavogsblaðið árið 2016. Sagði hann þar enn fremur:

„Ég sagði við mömmu að ef ein lögga myndi svo mikið sem snerta hana, þá væri mér að mæta. Þá stóð mamma loks upp og fór út úr húsinu sjálfviljug, líklega til að forðast átök. En ég lét þá hafa fyrir því að bera mig út þar sem ég ríghélt í hurðina og spyrnti við fótum,“ var þar haft eftir Guðmundi um þetta eftirminnilega og gamla deilumál.

Höf.: Kári Freyr Kristinsson