Lífeyrir Tryggingastofnun er að endurbæta upplýsingakerfið.
Lífeyrir Tryggingastofnun er að endurbæta upplýsingakerfið. — Morgunblaðið/ÞÖK
Miklu fleiri lífeyrisþegar fengu ofgreiddan lífeyri á síðasta ári en á árinu á undan og þurfa því að endurgreiða. 49 þúsund manns eru í skuld við Tryggingastofnun við uppgjör ársins og samanburð við skattframtöl

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Miklu fleiri lífeyrisþegar fengu ofgreiddan lífeyri á síðasta ári en á árinu á undan og þurfa því að endurgreiða. 49 þúsund manns eru í skuld við Tryggingastofnun við uppgjör ársins og samanburð við skattframtöl. Meðaltal skulda er 164 þúsund krónur. Endurgreiðslurnar hefjast 1. september í haust og er hægt að dreifa þeim á tólf mánuði.

Rúmlega 17% lífeyrisþega, 12 þúsund einstaklingar, eru svo heppin að eiga inneign hjá Tryggingastofnun og er meðaltalið 215 þúsund á mann.

Þeir sem þurfa að endurgreiða eru 74% allra lífeyrisþega en á árinu á undan var sama hlutfall 51%. Fjölgunin er, samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar, einkum rakin til hás verðbólgu- og vaxtastigs sem hefur haft áhrif á lífeyrissjóðsgreiðslur og fjármagnstekjur.

Greiðslur Tryggingastofnunar byggjast á tekjuáætlunum lífeyrisþega, það er að segja hvað þeir telja að þeir muni hafa í tekjur á komandi ári. Endurreikningurinn byggist síðan á tekjuupplýsingum úr staðfestum skattframtölum fyrir árið. Samanburður á þessum gögnum leiðir í ljós hvort lífeyrisþegi hafi fengið greitt í samræmi við réttindi sín eða hvort frávik valdi því að viðkomandi hafi fengið van- eða ofgreitt á árinu.

Tryggingastofnun leggur áherslu á að lífeyrisþegar uppfæri tekjuáætlanir sínar sem fyrst á „Mínum síðum“ á vef stofnunarinnar, ef breytingar verða á upphæðum tekna, til að draga úr líkum á að skuld eða inneign myndist við Tryggingastofnun. Grunnur tekjuáætlana kemur frá TR. Vinnur stofnunin að því bæta þau gögn með bættu upplýsingaflæði á milli TR og lífeyrissjóða sem og við skattyfirvöld.

Höf.: Helgi Bjarnason