Uppgjörstilkynning Orkuveitu Reykjavíkur í vikunni sagði allt annað en það sem hún átti að segja, að rekstur hins opinbera félags væri slæmur.
Uppgjörstilkynning Orkuveitu Reykjavíkur í vikunni sagði allt annað en það sem hún átti að segja, að rekstur hins opinbera félags væri slæmur. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Það voru ekki margir sem sáu fyrir hið svokallaða hrun, þótt margir hafi haldið því fram eftir á að þeir hafi vitað í hvað stefndi. Hvað sem því líður, þá var mörgum ljóst að staðan á fjármálamörkuðum var erfið á árunum 2006-2008, sem setur…

Það voru ekki margir sem sáu fyrir hið svokallaða hrun, þótt margir hafi haldið því fram eftir á að þeir hafi vitað í hvað stefndi. Hvað sem því líður, þá var mörgum ljóst að staðan á fjármálamörkuðum var erfið á árunum 2006-2008, sem setur umfjöllun um fjármálakerfið í einkennilegt samhengi með gleraugum nútímans – jafnvel svo að það má hlæja að sumum fyrirsögnum og yfirlýsingum sem þá voru birtar.

Við stutta yfirferð má þó sjá að opinberir aðilar nú hafa tekið upp siði sem vart eru til eftirbreytni. Það mátti til dæmis sjá í tilkynningu í vikunni, með fyrirsögninni „Kröftug uppbygging samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur“ en þar var á ferðinni uppgjör Orkuveitunnar (OR) á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Það þarf ekki doktorspróf í viðskiptafræði til að sjá að uppgjörið er ekki upp á marga fiska, tekjur OR vaxa lítið, rekstrarkostnaður eykst umtalsvert, handbært fé minnkar verulega og hagnaðurinn dregst saman um 65% á milli ára. Alvörufjölmiðlar sáu þó í gegn um þetta og létu ekki plata sig.

Ætlunin með slíkum fyrirsögnum og langri fréttatilkynningu er sjálfsagt sú að búa til skárri mynd af raunveruleikanum en tilefni standa til. Það er gamalt bragð, en þegar einkaaðili vogar sér að gera það er enginn skortur á opinberum eftirlitsaðilum til að refsa fyrir slíkar flugeldasýningar.

Lánlaus yfirlýsing OR er þó bara eitt dæmi um það yfirlæti sem opinberir aðilar sýna af sér. Annað dæmi, þótt ólíkt sé, er framganga Sorpu þessa dagana. Ríkið hefur sett þegnum sínum reglur um að þeir skuli flokka rusl með öðrum hætti en áður og Sorpa sendir nú af því tilefni nýjar tunnur á heimili fólks. Einhverjir hafa þráast við og þeim aðilum er nú úthúðað af upplýsingafulltrúa Sorpu í fjölmiðlum. Botninn tók úr þegar yfirlætisfulli upplýsingafulltrúinn sagði í viðtali um helgina að vissulega væri þetta krefjandi en þetta væru „fórnir sem við þurfum öll að færa“ eins og hann orðaði það. Svona talar enginn nema sá sem starfar hjá hinu opinbera. Þetta minnir á þegar við vorum „öll í þessu saman“ á tíma heimsfaraldurs, en raunin var sú að ríkisstarfsmenn voru í öðrum pakka en aðrir.

Allt kann þetta þó að eiga sér eðlilegar skýringar. Stjórnmálamenn í Reykjavík hafa sett upp tilefnislausar flugeldasýningar við kynningu á fjármálum borgarinnar sem hafa lengi stefnt í óefni. Það er því að hluta til eðlilegt að Orkuveitan reyni það líka. Hvað tilfelli Sorpu varðar, þá kristallast sama yfirlæti þar og borgarstjórn hefur sýnt íbúum utan vesturhluta borgarinnar.