Tækni Mikil framþróun hefur orðið í gervigreind að undanförnu.
Tækni Mikil framþróun hefur orðið í gervigreind að undanförnu. — AFP/Lionel Bonaventure
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ákveðið að hafna öllum tilboðum sem bárust í gerð svokallaðra spjallmenna sem eiga að sinna einföldum fyrirspurnum íbúa á heimasíðum sveitarfélaganna. Fjögur tilboð bárust í verkið, frá Zealot, Reon, Origo og Advania, en nýlega var ákveðið að hafna þeim öllum

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ákveðið að hafna öllum tilboðum sem bárust í gerð svokallaðra spjallmenna sem eiga að sinna einföldum fyrirspurnum íbúa á heimasíðum sveitarfélaganna. Fjögur tilboð bárust í verkið, frá Zealot, Reon, Origo og Advania, en nýlega var ákveðið að hafna þeim öllum.

Mikil framþróun í gervigreind

Hrund Valgeirsdóttir, verkefnisstjóri í stafrænni umbreytingu hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, segir að stýrihópur um verkefnið hafi tekið þessa ákvörðun í ljósi breytinga á síðustu vikum. „Það hefur orðið mikil framþróun í gervigreind og það hefur áhrif. Við erum að fara að ræða næstu skref, hvort farið verði í nýja verðfyrirspurn eða hvað,“ segir hún.

Ljóst sé að áform um innleiðingu spjallmenna í sumar eða haust verði ekki að veruleika en áfram verður þó unnið að verkefninu. „Nei, þetta gengur svolítið í hægagangi. Því miður, það væri gaman ef þetta gengi hraðar.“

23 sveitarfélög taka þátt

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í mars fór umrætt verkefni í gang á síðasta ári og bauðst öllum sveitarfélögum að vera með. Alls skráðu 23 sveitarfélög sig til þátttöku með samtals 327.488 íbúum. Þar á meðal eru flest sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og stór sveitarfélög á borð við Akureyrarbæ, Árborg og Reykjanesbæ.

Hugmyndin með spjallmennunum er meðal annars til að íbúar geti fengið svör við spurningum og þá þjónustu sem unnt er að veita sjálfvirkt allan sólarhringinn líkt og þegar er algengt hjá stórum fyrirtækjum og ýmsum stofnunum.