Ingibjörg Isaksen
Ingibjörg Isaksen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sérstök umræða fór fram á Alþingi í gær um styttingu vinnuvikunnar og hvernig tekist hefði til með verkefnið, núna rúmum tveimur árum eftir að það var kynnt til sögunnar. Fjármála- og efnahagsráðuneytið fékk KPMG til að gera stöðumat á verkefninu…

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Sérstök umræða fór fram á Alþingi í gær um styttingu vinnuvikunnar og hvernig tekist hefði til með verkefnið, núna rúmum tveimur árum eftir að það var kynnt til sögunnar.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið fékk KPMG til að gera stöðumat á verkefninu Betri vinnutíma hjá 30 stofnunum ríkisins, og kom skýrslan út í nóvember 2022. Þar kemur fram að starfsfólk hefur almennt tekið breytingunni fagnandi og að til skamms tíma hefur stytting vinnuvikunnar ekki aukið launakostnað þeirra stofnana sem skoðaðar voru. Í skýrslunni er einnig bent á margt sem betur mætti fara, ekki síst hvað varðar útfærslu stofnana til að mæta styttingu vinnuvikunnar og eins að betri mælikvarða á þjónustustig og skilvirkni vanti.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknarflokksins og alþingismaður Norðausturkjördæmis, var frummælandi. Hún minnti á að verkefnið væri samkomulag um útfærslu vinnutíma í kjarasamningum stjórnvalda og stéttarfélaga með mismunandi styttingu vinnuvikunnar og tímabært væri að skoða reynsluna þessi tvö ár. „Hugmyndin um styttingu vinnuvikunnar er góð og gild en framkvæmdin hefur ekki gengið á öllum starfsstöðvum án þess að hafa áhrif á þjónustustig eða að hún hefur kallað eftir auknu fjármagni. Það á sérstaklega við um stofnanir sem bjóða aðallega upp á vaktavinnu en um þriðjungur ríkisstarfsmanna vinnur vaktavinnu,“ sagði hún í ræðu sinni og benti á að 77% stofnana í könnuninni hefðu farið í hámarksstyttingu strax, þvert á það sem mælst hefði verið til.

Eftirfylgni með árangrinum

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði að margt hefði gengið vel, en annað síður eins og skýrsla KMPG hefði sýnt. „Stærsta áskorunin er í mínum huga ótvírætt skortur á betri gögnum og það vantar sterkari verkstjórn til að fylgja eftir árangri af verkefninu. Ég hef því skipað hóp fulltrúa allra ráðuneyta sem bera hver um sig ábyrgð á umbótum í þessum efnum,“ og bætti við að ríkisstjórnin myndi fylgja því eftir að árangur yrði af vinnu ráðuneytanna. Hann benti einnig á að þar sem stytting vinnuvikunnar hefði verið tekin hægar, eins og hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, hefði betur verið hægt að fylgjast með jákvæðri þróun þessarar innleiðingar.

Bjarni sagði að vissulega væri styttingin áskorun í vaktavinnu svo hægt væri að halda uppi sama þjónustutigi. Áætlað hefði verið að því fylgdi 7,1% kostnaðarauki og framlög til stofnana dómsmála- og heilbrigðisráðuneytis hefðu verið hækkuð um 3,1 milljarð á síðasta ári vegna þessa. Hann minnti á að verkefnið væri ein stærsta tilraun sem gerð hefði verið á vinnumarkaðnum í áratugi og eðlilegt að því fylgdu einhverjir vaxtaverkir. Sóknarfæri væri til að bæta þjónustu með stafrænum lausnum, en Ísland væri nú í 4. sæti alþjóðlegra kannana á stafrænni þjónustu ríkisins.

Í umræðunum komu ýmis sjónarmið fram eins og að það kostaði að fjárfesta í fólki og að skoða verkefnið frá því sjónarhorni myndi skila sér til langs tíma litið. Í niðurstöðu skýrslu KPMG segir að borið hafi á því að skilaboðin til starfsfólks væru að hámarksstytting vinnuvikunnar væri kjarasamningsbundinn réttur og þannig hafi starfsfólki og stjórnendum verið stillt upp sem ólíkum liðum og markmiðið um gagnkvæman ávinning hafi gleymst.