Eikartunnurnar hjá K-R eru vígalegar og margar hverjar yfir 100 ára gamlar.
Eikartunnurnar hjá K-R eru vígalegar og margar hverjar yfir 100 ára gamlar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í liðinni viku átti ég leið til Frankfurt. Spennandi verkefni. Að fá að skyggnast inn í framtíð rafbílamarkaðarins. Að þessu sinni fékk ég nasasjón af hinum kynngimagnaða EV9 úr smiðju KIA. Afar spennandi tæki sem fjallað verður um í þessu blaði en síðar

Hið ljúfa líf

Stefán Einar Stefánsson

ses@mbl.is

Í liðinni viku átti ég leið til Frankfurt. Spennandi verkefni. Að fá að skyggnast inn í framtíð rafbílamarkaðarins. Að þessu sinni fékk ég nasasjón af hinum kynngimagnaða EV9 úr smiðju KIA. Afar spennandi tæki sem fjallað verður um í þessu blaði en síðar.

Að lokinni rannsókn á bílamarkaðnum renndum við þrír félagar suður á bóginn. Um 110 km leið frá Frankfurt og tókum þar hús á góðum vinum mínum sem standa vörð um aldagamla menningu og iðn – jafnvel listgrein, svei mér þá.

Það er þríeyki sem ber hitann og þungann af víngerðinni sem kennd er við Koehler-Ruprecht. Það eru þau Dominik Sona víngerðarmeistari, Rei Suzuki víngerðarmaður og Franziska Schmitt. Og á þeim hvílir mikil ábyrgð. Víngerð þessi teygir sögu sína aftur um hálft árþúsund og kjallarinn þar sem vínið tekur á sig mynd er einmitt að grunni til frá upphafi 16. aldar.

Það er margt sem heillar við Koehler-Ruprecht. Fyrst og fremst gæði vínsins en þekktast af því er án nokkurs vafa þurr Riesling sem er fastagestur á vínseðlum fremstu veitingahúsa heims en í framleiðslunni glittir einnig í Muskateller, Pinot Noir, Chardonnay og Spätburgunder, sem er í raun þýskt afbrigði af Pinot Noir.

En húsið er einnig þekkt fyrir að halda í framleiðsluaðferðir sem aðrir hafa horfið frá á síðustu áratugum. Felst það fyrst og fremst í því að afar takmarkaður hluti framleiðslunnar er látinn gerjast og þroskast á stáltönkum. Þess í stað notast húsið við eik. Að litlum hluta nýja eða nýlega og er henni augljóslega ætlað að hafa áhrif á bragðeiginleika og angan vínsins. Mestur hluti vínsins er hins vegar geymdur á gömlum eikartunnum, oftast nær stórum og margar þeirra eru í raun eldgamlar. Þær elstu nærri 150 ára gamlar en flestar teyjga sögu sína aftur um marga áratugi. Þessar tunnur gefa ekki frá sér eikarkeim. Hann er löngu horfinn á braut. Það er fremur hið náttúrulega ferli sem tunnurnar bjóða upp á sem miðlast áfram í karakter vínanna. Eikin er nefnilega lifandi efni, ólíkt stálinu, og þótt vínin beri ekki vott um að hafa brotnað niður í snertingu við súrefni þá verða þau dýpri, segja meiri sögu en þau sem geymd eru í stálinu. Einnig tel ég víst að hinir þurru eiginleikar hafi eitthvað þangað að sækja þótt vissulega spili þar stærri rullu aðferðirnar á ekrunum og við uppskeruna.

Bestu vínin frá Koehler-Ruprecth eru kennd við Saumagen í Kallstadt, heimaþorpinu. Saumagen merkir svínsmagi og nafn ekrunnar er komið til af þeirri staðreynd að hún er í laginu eins og einn slíkur. Ekki skemmir fyrir sögunni að þekktasti réttur svæðisins nefnist einnig Saumagen, en það er geðsleg útgáfa af íslensku lifrarpylsunni, kryddaðri og bragðbetri þó. Er gúmmelaðinu komið fyrir í verkuðum svínsmaga og þannig eldað!

Það er töfrum líkast að koma í kjallarann hjá Koehler-Ruprecht. Enn skemmtilegra er að smakka það sem þaðan kemur. Í þessari ferð var ekki verra að smakka nokkra afburðagóða árganga. Elstur þeirra var án efa 1988 Riesling Kallstadter Saumagen. Rósagyllt konfekt sem mátti alveg við því að bíða í hálfan fjórða áratug.

Eftir sumbl og gleði miðvikudagskvöldsins héldum við snemma dags á tvær ekrur í eigu Koehler-Ruprecht. Annaberg, þaðan sem fallegu Chardonnay vínin koma, og svo í Saumagen, sem er helgur staður Rieslingframleiðslunnar. Hafi verið lágskýjað að morgni birti til í huga viðstaddra á þessum undurfallegu stöðum.