Brussel Hér er hópurinn í Brussel. Frá vinstri: Sigrún Lilja Jónasdóttir, Kristján Oddur Kristjánsson, Dagur Thors og Kristín Lúðvíksdóttir.
Brussel Hér er hópurinn í Brussel. Frá vinstri: Sigrún Lilja Jónasdóttir, Kristján Oddur Kristjánsson, Dagur Thors og Kristín Lúðvíksdóttir.
„Þetta var alveg geggjuð ferð. Við fórum fyrir hönd Austurbæjarskóla til Brussel í Belgíu að keppa fyrir Íslands hönd í fjármálalæsi, ég og Kristján Oddur [Kristjánsson] félagi minn,“ segir Dagur Thors, annar drengjanna tveggja úr…

„Þetta var alveg geggjuð ferð. Við fórum fyrir hönd Austurbæjarskóla til Brussel í Belgíu að keppa fyrir Íslands hönd í fjármálalæsi, ég og Kristján Oddur [Kristjánsson] félagi minn,“ segir Dagur Thors, annar drengjanna tveggja úr Austurbæjarskóla sem unnu íslensku keppnina hér heima í fjármálalæsi. Þeim gekk mjög vel í keppninni í Brussel og urðu í 2. sæti Norðurlandaþjóðanna á eftir Finnlandi og í því 14. yfir alla keppnina, en Grikkland, Pólland og Portúgal voru þar í efstu þremur sætunum.

„Við vorum tveir saman í liði og kepptum á móti öllum Evrópuþjóðunum í svona „kahoot“-spurningakeppni. Við kynntumst fullt af krökkum og hittumst, borðuðum góðan mat, gistum á hóteli og fórum og skoðuðum borgina. Þetta var rosalega skemmtilegt,“ segir hann.

Glæsilegir fulltrúar Íslands

Samtök fjármálafyrirtækja standa að undankeppninni hér heima og á vef þeirra fjármálavit.is er fræðsluvettvangur og Fjármálaleikurinn sem kennarar geta notað sem kennslutæki í skólum. Kristín Lúðvíksdóttir er verkefnisstjóri Fjármálavits og hún segir markmiðið með keppninni vera að vekja athygli á mikilvægi fjármálalæsis fyrir ungt fólk og vonast til að það stuðli að því að námskrá grunnskóla endurspegli það mikilvægi. Hún segir að Kristján og Dagur hafi verið sérstaklega glæsilegir fulltrúar Íslands í keppninni í Brussel og kennari þeirra í Austurbæjarskóla, Sigrún Lilja Jónasdóttir, tekur undir það og er stolt af sínum strákum.

Kennslutækið er tölvuleikur

„Það er mikilvægt að vera fjármálalæs upp á framtíðina þegar þú ferð að reka heimili, fjölskyldu, hús og jafnvel stofna fyrirtæki,“ segir Dagur og bætir við að það auki líka áhugann hvað Fjármálaleikurinn sé skemmtilegur. „Þetta eru 64 spurningar og byggt upp eins og tölvuleikur á netinu. Maður safnar medalíum og vinnur sig svo áfram og er í keppni við aðra skóla á Íslandi,“ segir hann. En ætli Dagur sé farinn að aðstoða foreldrana við fjármálin? „Ég get nú ekki alveg sagt það, en kannski fer að styttast í það,“ segir hann og hlær.

„Krökkunum finnst þetta mjög skemmtilegt. Þetta er gott fyrir okkur kennara að fá svona tækifæri til að vinna öðruvísi með börnum. Ég tek til dæmis alltaf fjármálafræðslu tvisvar á vetri, kenni hana í sex vikur í 10. bekk,“ segir Sigrún Lilja og segir að Fjármálaleikurinn sé reglulega uppfærður með nýjum spurningum og efni sem sé til fyrirmyndar. Hún segir að ungt fólk þurfi að geta skilið fyrstu launaseðlana sína og eins hvernig hægt sé að byggja upp sparnað á einfaldan máta. doraosk@mbl.is