Háskóli Íslands er ein þeirra ríkisstofnana sem greiða fasteignagjöld til Reykjavíkurborgar.
Háskóli Íslands er ein þeirra ríkisstofnana sem greiða fasteignagjöld til Reykjavíkurborgar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Reykjavíkurborg fær um 3,2 milljarða króna í fasteignagjöld frá ríkinu vegna ársins 2022, sem er um 7,5% allra fasteignagjalda borgarinnar. Þetta er mun hærri upphæð en til dæmis Kópavogur og Hafnarfjörður fá, svo horft sé til samanburðar á þessum þremur stærstu sveitarfélögum landsins

Reykjavíkurborg fær um 3,2 milljarða króna í fasteignagjöld frá ríkinu vegna ársins 2022, sem er um 7,5% allra fasteignagjalda borgarinnar. Þetta er mun hærri upphæð en til dæmis Kópavogur og Hafnarfjörður fá, svo horft sé til samanburðar á þessum þremur stærstu sveitarfélögum landsins. Kópavogur fær tæpar 500 milljónir króna og Hafnarfjörður um 450 milljónir.

Þá fær Reykjavík einnig langhæstu greiðslurnar frá ríkinu vegna fasteignagjalda þegar þeim er deilt niður á fjölda íbúa. Þannig fær borgin rúmar 23 þúsund krónur frá ríkinu á hvern íbúa á meðan Kópavogur fær rúmar 14 þúsund krónur og Hafnarfjörður rúmar 15 þúsund krónur.

Akureyrarbær fær mest sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins eða rúmlega 410 milljónir króna. Fær bærinn um 21 þúsund krónur deilt niður á hvern íbúa. Á meðal ríkisstofnana á Akureyri eru Fiskistofa og Jafnréttisstofa.

Alls fær Reykjavíkurborg um 2,7 milljarða króna í fasteignagjöld frá ríkinu umfram næsthæsta sveitarfélagið, Kópavog. Þetta stafar að því að langflestar ríkisstofnanir eru í Reykjavík og skipta þar stjórnsýslan, Landspítali og háskólasvæðið töluverðu máli. Á meðal sveitarstjórnarfólks er talað um að þetta sé „forgjöf“ Reykjavíkurborgar frá ríkinu.

Rangárþing ytra fær minnst

Sé rýnt nánar í tölurnar má sjá að stofn fasteignagjalda borgarinnar er rúmir 240 milljarðar króna en álagningarprósenta sveitarfélaganna er 1,32% fyrir ríkisstofnanir. Álagningarstofn Kópavogsbæjar er þannig tæpir 37 milljarðar króna og stofn Hafnarfjarðar rúmir 34 milljarðar króna.

Minnstu greiðslurnar vegna fasteignagjalda hjá ríkinu fær Rangárþing ytra, eða tæpar 200 þúsund krónur. Þá eru sjö sveitarfélög sem hafa engar tekjur af ríkisstofnunum.