Hvernig ætli Elon Musk hefði gengið að koma hugmyndum sínum um geimskutluáætlunina SpaceX á framfæri upp úr markaðsdeildinni eða bókhaldinu? Hugmynd sem í dag er metin á 137 milljarða (e. billion) bandaríkjadala.

Atvinnulíf

Ingunn Agnes Kro

Stjórnarmaður og ráðgjafi

Áður en þú stimplar þessi skrif mín sem gróft sjálfshól (fyrir utan guðlastið), þá vil ég bara taka fram að ég er ekki frá Grenivík. Ég er úr sveitinni í kring. Sem er ekki eins flott og að vera frá Grenivík. Sem er ekki eins flott og að vera frá Akureyri. Sem er ekki eins flott og að vera frá Reykjavík. Sem er ekki eins flott og að vera frá Kaupmannahöfn. Sem er ekki eins flott og að vera frá London. Og þannig heldur áfram tröppugangur spámanna.

Þú veist hvernig ákveðnar minningar úr æsku geta lifað með þér. Stundum virðast þessar minningar vita ómerkilegar og maður skilur ekki alveg af hverju þær festust en ekki einhverjar aðrar. Ég á eina svona minningu. Minningin er um það að þreyta lestrarpróf fyrir Siggu frænku, sem var kennarinn, inni í lítilli hliðarstofu í Grenivíkurskóla. Þetta var í öðrum bekk. Fyrsta bekk hafði ég numið í Reykjavík. Það sem festi þessa minningu í sessi var án efa sú staðreynd að útkoman úr prófinu var mér ekki að skapi. Ég fékk lægri einkunn en bekkjarsystur mínar. Litla Ingunn var hreint ekki ánægð með það. Hún hafði nefnilega orðið læs nokkrum árum áður og hafði ítrekað fengið lof og verið beðin um að lesa fyrir bekkinn í Reykjavíkinni. Gat ástæðan verið linmælgin sem ég hafði smitast af í höfuðborginni? Ef ég las t sem d og k sem g, þá var ég kannski ekki að lesa orðin rétt, samkvæmt grenvískri námsskrá. Blessunarlega var þetta ekki endirinn á glæstum lestrarferli mínum. Þegar ég sneri aftur í höfuðborgina, með mín hræðilegu d og g, var mér vel tekið.

Í gegnum ævina hefur mér hefur stundum verið hugsað til þessarar minningar. Staðsetningar. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa unnið með mörgum frábærum verkfræðingum. Lærðum sem ólærðum. Styrkleiki þeirra liggur í því að vera með báða fæturna á jörðinni. Raunsæi. Það sem þau reyndar líka eiga það til að gera er að kippa fótum annarra niður á jörðina. Dæma hugmyndir þeirra óframkvæmanlegar. Sem getur verið gott. En getur líka verið slæmt. Til að geta með fullvissu skotið niður hugmynd, þarf maður nefnilega að þekkja alla málavexti í dag og – til framtíðar. Ef viðkomandi hugmyndasmiður hefði setið í stjórn fyrirtækisins, sem hefur það hlutverk að sjá fyrir þróun á mörkuðum og finna leiðir fyrir nýja sigra fyrirtækisins, hefði þá sama hugmyndin hlotið brautargengi og orðið að einhverju ótrúlegu? Hvernig ætli Elon Musk hefði t.d. gengið að koma hugmyndum sínum um geimskutluáætlunina SpaceX á framfæri upp úr markaðsdeildinni eða bókhaldinu? Hugmynd sem í dag er metin á 137 milljarða (e. billion) bandaríkjadala. Staðsetningar. Hugsaðu þér hvað samfélagið gæti verið stórkostlegt ef við gætum raðað fólki á rétta staði eftir styrkleikum. Hætt að setja sérfræðingana í stjórnunarstöður. Komið hugmyndasmiðunum upp fyrir ökklasökklana.

Þetta á ekki bara við í fyrirtækjarekstri. Margir stórmeistarar íslensks samfélags nutu ekki sannmælis á sínum yngri árum. Páll Óskar, Salka Sól, Jón Daði, Stefán Karl, Ásgeir Jónsson, Katrín Halldóra og svona mætti lengi telja. Ekki metin að verðleikum í sínu nærsamfélagi. Enginn er spámaður í sínu föðurlandi.

Ókei, ég er mögulega óvart búin að skrifa mig inn í það að vera Jesús. Það var ekki ætlunin. Því að öllum líkindum var það þannig að þessar grenvísku bekkjarsystur mínar lásu einfaldlega betur en ég. En þessi hugsanavilla sjö ára mín leiddi til ákveðinnar lífssýnar. Að allir hafa sína styrkleika en lykillinn er að finna þeim sitt rétta umhverfi. Hvort sem það er stjórnunar- eða sérfræðingsstaða eða fjármála- eða markaðssviðið. London eða Grenivík.