Ásvellir Eyjamaðurinn Arnór Viðarsson í dauðafæri og Heimir Óli Heimisson bíður þess sem verða vill.
Ásvellir Eyjamaðurinn Arnór Viðarsson í dauðafæri og Heimir Óli Heimisson bíður þess sem verða vill. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÍBV er komið í 2:0 í einvígi sínu við Hauka í úrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla og þarf því einungis einn sigur til viðbótar til þess að hampa Íslandsmeistaratitlinum. Í gærkvöldi höfðu Eyjamenn betur, 29:26, á Ásvöllum í Hafnarfirði

Á Ásvöllum

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

ÍBV er komið í 2:0 í einvígi sínu við Hauka í úrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla og þarf því einungis einn sigur til viðbótar til þess að hampa Íslandsmeistaratitlinum.

Í gærkvöldi höfðu Eyjamenn betur, 29:26, á Ásvöllum í Hafnarfirði. Þriðji leikurinn fer fram í Vestmannaeyjum næstkomandi föstudagskvöld og útlitið því ansi gott fyrir ÍBV á meðan Haukar eru komnir með bakið upp við vegg.

Vörn beggja liða var afar sterk stóran hluta leiksins þótt Haukar hafi ekki náð að halda böndum á fyrrverandi landsliðs- og atvinnumanninum Rúnari Kárasyni, sem fór á kostum og skoraði 11 mörk fyrir ÍBV, flest þeirra með þvílíkum bylmingsskotum sem hann er þekktur fyrir.

Hauka skorti markvörslu lengst af fyrri hálfleik á meðan Pavel Miskevich varði sex skot í marki ÍBV. Staðan í hálfleik var 13:11, ÍBV í vil.

Í upphafi síðari hálfleiks hertu Haukar hins vegar tökin, spiluðu frábæra vörn og fengu aukna markvörslu frá Aroni Rafni Eðvarðssyni, sem varði alls níu skot í leiknum.

Illviðráðanleg 5-1-vörn

Stefán Rafn Sigurmannsson, sem skoraði níu mörk, fór þá fyrir Haukum, sem náðu þó mest einungis eins marks forystu snemma í síðari hálfleiknum. Eyjamenn fengu því fínan tíma til þess að ná vopnum sínum á ný.

Það gerðu gestirnir svo sannarlega þótt tilfinningin hafi almennt verið sú að lið ÍBV hafi ekki verið upp á sitt allra besta í leiknum. Slík er þó seiglan og yfirvegunin hjá Eyjamönnum, að ógleymdum gæðunum, að liðið vinnur bara samt leiki þrátt fyrir að sýna ekki sitt besta andlit.

Athyglisvert var að í síðari hálfleik var markvarslan sama og engin hjá ÍBV en liðið samt sem áður við stjórn. Má þar þakka frábærri 5-1-vörn liðsins sem Haukar stóðu ráðþrota frammi fyrir í uppstilltum sóknarleik sínum.

Svo öflug var vörn ÍBV að leikstjórnendur og rétthentar skyttur Hauka, þeir Andri Már Rúnarsson og Guðmundur Bragi Ástþórsson, fundu sig oftar en ekki knúna til þess að skjóta úr erfiðum stöðum og skoruðu sitt markið hvor úr alls 11 skottilraunum, þótt Andri Már hafi vissulega gert vel í að gefa sex stoðsendingar.

Virðist óumflýjanlegt

Haukar spiluðu þó síður en svo illa á heildina litið en sama hversu góða spretti þeir áttu inn á milli virtist óumflýjanlegt að ÍBV færi með sigur af hólmi.

Vissulega geta Haukar lagað ýmis smáatriði og þurfa þess einfaldlega ætli þeir að halda sér á lífi í einvíginu og spilla mögulegri gleði í Vestmannaeyjum á föstudag.

Slæmu fréttirnar eru þær að ÍBV getur líka lagfært ýmislegt í sínum leik, til að mynda að byrja af meiri krafti sóknarlega, en eftir 20 mínútna leik var staðan einungis 7:7.

Á þessari stundu er ÍBV einfaldlega með sterkara lið og jafnvel þótt Haukar næðu einum sigri getur fátt komið í veg fyrir að ÍBV standi uppi sem Íslandsmeistari.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson