Anna Margrét Albertsdóttir fæddist á Sauðafelli í Miðdölum, Dalasýslu, 24. júlí 1931. Hún lést á Hrafnistu Skógarbæ 2. maí 2023.

Foreldrar hennar voru Elísabet Benediktsdóttir, f. 23.7. 1905, d. 21.4. 2006, frá Erpsstöðum í Miðdölum og Albert Finnbogason, f. 28.8. 1900, d. 15.6. 1997, frá Sauðafelli í sömu sveit. Systur Önnu Margrétar eru: Guðrún, f. 19.5. 1936 maki Páll Björnsson frá Kálfafelli í Fljótshverfi, f. 18.11. 1932, d. 26.5. 2020, og Svanhildur, f. 31.10. 1941, d. 16.7. 2015.

Anna giftist 24. júlí 1956 Hildiþór Kr. Ólafssyni. Foreldrar hans voru María Ögmundsdóttir fædd á Fjósum í Laxárdal en alin upp á Harrastöðum í Miðdölum og Ólafur Samúelsson frá Bæ í Miðdölum. Hildiþór var fæddur á Fögrugrund í Miðdölum en missti ungur föður sinn og ólst eftir það upp á Fellsenda í sömu sveit. Dætur Önnu og Hildiþórs eru María, f. 24.2. 1959, sérkennari, og Elísabet, f. 20.8. 1963 sérkennari. Maður hennar er Guðjón Baldursson, f. 2.9. 1963, frá Hjarðarholti í Dölum. Dætur þeirra eru Þórhildur, f. 2.5. 1995, meistaranemi í sálfræði við HÍ, og Margrét Anna, f. 5.1. 2000, nemi í félagsfræði við HÍ.

Anna Margrét ólst upp í Miðdölum, fyrstu árin á Sauðafelli, á Svalbarða, og í Skörðum. Árið 1947 flutti fjölskyldan að Erpsstöðum þar sem foreldrar hennar bjuggu til ársins 1966 er þau brugðu búi. Anna stundaði nám í Miðdölum, í farkennslu eins og þá tíðkaðist. Hún fór sem ung kona til Reykjavíkur að vinna og vann ýmis verkakvennastörf svo sem í mötuneytum, við umönnun og þrif. Í mörg ár vann hún í Álftamýrarskóla, við ræstingar og á kaffistofu og eignaðist þar nánar og góðar vinkonur. Veturinn 1952-1953 stundaði Anna nám við húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði. Tíminn á Ísafirði var henni lærdómsríkur og eftirminnilegur og þar eignaðist hún vini fyrir lífstíð. Þær sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu að námi loknu stofnuðu saumaklúbhb sem hefur hist reglulega allar götur síðan, rétt um 70 ár.

Anna og Hildiþór hófu búskap á Hraunteig 15 í Reykjavík en fluttu í Fellsmúla þegar Hreyfilsblokkin var byggð. Árið 2008 fluttu þau í Árskóga 8. Þar eignuðust þau góða nágranna og vini sem reyndist þeim báðum afar dýrmætt. Hildiþór lést eftir skamma sjúkdómslegu 30. april 2012. Anna og Hildiþór voru bæði miklir Dalamenn og héldu góðum tengslum við sveitunga sína og vini að vestan. Heimili þeirra var alltaf opið til gistingar. Anna naut þess að gefa fólki gott að borða og hafði gaman a að elda mat og baka. Anna var félagslynd og tók virkan þátt í starfi Breiðfirðingafélagsins og Félags breiðfirskra kvenna. Hún var formaður þess félags um tíma. Hún var ættrækin og vinamörg og naut samvista við fólk. Hún hafði áhuga á ættfræði og vildi heyra lífssögur fólks og sýndi fólki áhuga. Þau Anna og Hildiþór höfðu gaman af að ferðast um landið og ræktuðu vinskap við ættinga og vini um allt land.

Útför Önnu Margrétar Albertsdóttur fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 24. maí 2023, kl. 15.

Mig langar að minnast tengdamóður minnar, Önnu Margrétar Albertsdóttur, með fáeinum orðum. Kynni okkar hófust fyrir rúmum 30 árum þegar ég kom fyrst í Fellsmúlann. Það var strax líkt og þau hefðu þekkt mig alla tíð. Móttökurnar þar voru hlýjar og góðar en þannig tóku Anna og Hildiþór á móti fólki. Anna dekraði í mat og drykk og Hildiþór snerist og skutlaðist af einstakri lipurð. Þau voru rausnarleg heim að sækja.

Sameiginlegt áhugamál áttum við Anna en það var að ferðast um landið. Þau hjónin höfðu ferðast mikið. Á yngri árum með dætrum sínum í tjaldútilegur og í rútuferðum með Breiðfirðingafélaginu. Í seinni tíð tvö saman eða með vinum sínum. Flest sumur fórum við fjölskyldan í sumarbústaði hér og þar um landið. Eitt sinn barst það í tal á mínum vinnustað hvað ætti að gera í sumarfríinu og þegar ég sagðist ætla að vera í sumarbústað með tengdaforeldrum urðu sumir hissa og var slíkt greinilega ekki efst á þeirra óskalista. En ég hlakkaði alltaf til, Anna var skemmtilegur ferðafélagi og við nutum þess öll að ferðast saman hluta úr næstum hverju sumri. Hún þekkti landið vel, var fróð um staði og fólk og þekkti marga, hún átti svo auðvelt með að kynnast fólki.

Fyrir tveimur árum, þegar Anna varð 90 ára, fórum við í eftirminnilegt ferðalag. Fyrsti viðkomustaður var fæðingarstaðurinn hennar, Sauðafell, þar sem við fjölskyldan héldum veislu á afmælisdaginn hennar. Enginn annar staður var betur til þess fallinn en fallega húsið sem hún fæddist í á Sauðafelli. Enda var hún ánægð. Eftir veisluhöldin héldum við svo í ferð til Ísafjarðar. Þar heimsótti hún skólasystur sína frá Húsmæðraskólanum Ósk og þær fóru heimsókn í gamla skólann sinn sem nú er tónlistarskóli. Við notuðum tímann vel og fórum víða um nágrenni Ísafjarðar. Þessi afmælisferð var vel heppnuð og dýrmæt í minningunni.

Síðustu árin fór hún með okkur margar ferðir í sumarbústaðinn í Dölunum og þar naut hún sín vel enda fannst henni Dalaloftið alltaf besta loftið. Að koma við á Sauðafelli og hitta frændfólkið þar var fastur liður og held ég að henni hafi þótt það hápunkturinn í ferðunum. Líkamleg færni Önnu fór dvínandi síðustu árin og átti hún sífellt erfiðara með að komast um. Það reyndist henni þungt því hugurinn var mikill. Síðustu ferðirnar sínar fór hún á viljanum og seiglunni.

Mér er minnisstætt nokkuð sem gerðist fyrir örfáum árum og mér finnst lýsa henni vel, en hún vildi alla tíð birgja sig vel upp af mat fyrir veturinn. Hafa frystinn fullan af Dalakjöti, slátri og fleiru. Hún var þarna komin hátt á níræðisaldur, og við vorum saman að úrbeina kjöt, ég var orðinn lúinn og vildi fara að segja þetta gott og klára daginn eftir. Þetta leist henni ekki á, það væri svo lítið eftir, betra væri að klára þetta, enda gerðum við það. Ekki geyma til morguns það sem hægt er að ljúka við í dag. Dugnaðurinn var mikill og að gefast upp vildi hún ekki fyrr en í fulla hnefana.

Önnu Margréti þakka ég fyrir öll árin og mikinn hlýhug í minn garð alla tíð.

Þinn tengdasonur,

Guðjón.

Líkt og sól að liðnum degi,

laugar kvöldið unaðsblæ,

gyllir skýin gullnum roða,

geislum slær á lönd og sæ.

Þannig burtför þín í ljósi,

þinnar ástar, fögur skín.

Okkur fluttu ótal gæði

elskuríku störfin þín.

Elskulega amma, njóttu

eilíflega Guði hjá,

umbunar þess, er við hlutum,

ávallt þinni hendi frá,

þú varst okkar ungu hjörtum,

eins og þegar sólin hlý

vorblómin með vorsins geislum

vefur sumarfegurð í.

Hjartkæra amma, far í friði,

föðurlandið himneskt á,

þúsundfaldar þakkir hljóttu,

þínum litlu vinum frá.

Vertu sæl um allar aldir,

alvaldshendi falin ver,

inn í landið unaðsbjarta,

englar Drottins fylgi þér.

(Höf. ók)

Nú höfum við kvatt elskulega ömmu okkar sem við eigum svo margar góðar minningar um.

Amma var einfaldlega best. Allt frá því að við vorum litlar stelpur og alla tíð var alltaf svo gott að vera hjá ömmu. Þegar við vorum yngri vorum við mikið heima hjá ömmu og afa og best var að fá að gista. Þeim fannst líka svo gott að hafa okkur hjá sér og dekruðu við okkur út í eitt. Þegar við urðum eldri fórum við í heimsókn til hennar eins oft og við gátum og þess á milli hringdi hún í okkur til að heyra hvernig við hefðum það og hvernig gengi í því sem við vorum að gera, hvort sem það var skóli, vinna eða önnur verkefni. Hún hafði alltaf óbilandi trú á okkur og hrósaði okkur mikið fyrir það hvað við værum duglegar og klárar. Í hennar augum gátum við allt. Okkur þótti alltaf svo vænt um það hvað hún sýndi okkur og lífi okkar mikinn áhuga og gaf sér alltaf tíma fyrir okkur. Hjá henni vorum við í algjöru uppáhaldi.

Við erum þakklátar fyrir allar góðu minningarnar sem við eigum um ömmu sem var okkur svo einstök. Minningarnar um hana eru og verða okkur alltaf dýrmætar. Þær munum við varðveita.

Þórhildur og
Margrét Anna.

Dalirnir og fólkið í Dölunum var þráðurinn í lífi Önnu Margrétar Albertsdóttur, jafnt á unga aldri sem á efri árum. Anna fæddist á Sauðafelli í Dölum árið 1931 en flutti með foreldrum sínum Albert og Elísabetu að Svalbarða, þar sem miðsystirin Guðrún fæddist, og síðan að Skörðum. Þar fæddist yngsta systirin Svanhildur í gömlu baðstofunni sem er nú að finna í Þjóðminjasafni Íslands. Nokkrum árum síðar fluttist fjölskyldan að Erpsstöðum í sömu sveit. Ræturnar vestur í Dali voru alla tíð sterkar og Miðdalirnir voru Önnu mjög kærir og þangað leitaði hugurinn æ síðan. Ung að árum fór hún til Reykjavíkur þar sem hún vann ýmis störf en var á Erpsstöðum á sumrin við hefðbundin sveitastörf. Veröldin stækkaði og það varð Önnu ný lífsreynsla að dvelja á Ísafirði við nám í Húsmæðraskólanum Ósk. Hún minntist dvalarinnar þar ætíð síðan með gleði og hlýju því þar eignaðist hún kærar vinkonur fyrir lífstíð. Árið 1956 giftist Anna Hildiþór Kr. Ólafssyni bifreiðarstjóra sem var einnig ættaður úr Miðdölunum og þar með styrktust tengslin enn frekar við Dalina. Anna og Mummi hófu búskap í Reykjavík og eignuðust fljótlega íbúð á Hraunteigi, fluttu seinna í Fellsmúla og bjuggu síðustu árin í Árskógum. Þau eignuðust tvær dætur, Maríu og Elísabetu, sem hlúðu að móður sinni fram á síðasta dag. Heimili Önnu og Mumma var gestkvæmt og þangað kom margur Dalamaðurinn. Alla tíð fylgdust þau með frændfólki og vinum og lífinu á æskustöðvunum í öllum sínum tilbrigðum. Líkt og giftar konur af hennar kynslóð var hún lengst af húsmóðir en fór að vinna utan heimilis þegar barnauppeldinu lauk og vann meðal annars við ræstingar í Álftamýrarskóla. Hún hafði gaman af handverki enda margar handverkskonur í ættinni og á efri árum hafði hún mikla ánægju af postulínsmálun. Anna naut þess að ferðast um landið en oftast fór hún þó vestur í Dali.

Anna var bæði glaðlynd og félagslynd og átti auðvelt með að kynnast öðrum. Hún þekkti marga og var vinmörg, hafði gaman af samfundum og samræðum og leið vel innan um annað fólk. Ættrækni var henni mikilvæg og hún lagði sig fram við að halda tengslum við allt skyldfólkið og nutum við systkinin góðs af því. Þegar Anna sem ung kona kom til að vinna í Reykjavík hafði hún stuðning af foreldrum okkar þegar þau bjuggu í Vonarstræti 12. Hún endurgalt stuðninginn ríkulega og var alltaf til staðar þegar á þurfti að halda. Þegar Anna og Mummi fluttu á Hraunteiginn, sem var stutt frá æskuheimili okkar á Hofteignum, héldust tengslin og efldust.

Nú þegar komið er að leiðarlokum er ljúft að hugsa til liðinna daga um leið og við minnumst traustrar vináttu hennar við fjölskyldu okkar og þökkum Önnu hlýhug, áralanga samfylgd og vinskap.

Hildigunnur Ólafsdóttir og Haukur Ólafsson.