Sæmundarstofa Hugsanlegt útlit nýja menningarhússins og kirkjunnar í Odda á Rangárvöllum. Núverandi Oddakirkja sést í baksýn.
Sæmundarstofa Hugsanlegt útlit nýja menningarhússins og kirkjunnar í Odda á Rangárvöllum. Núverandi Oddakirkja sést í baksýn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Tillaga að Sæmundarstofu í Odda á Rangárvöllum var kynnt á Oddastefnu sem fram fór á Hvolsvelli um helgina. Byggingin er hugsuð sem menningarmiðja héraðsins með fjölnotasölum fyrir almenning, veislu- og sýningarsal, auk þess að vera miðstöð rannsókna og fræða í nafni Sæmundar fróða. Stærsti salurinn, kirkjuskip byggingarinnar, getur með stækkun tekið allt að 500 manns í sæti auk þess að vera tónleikasalur þar sem fullskipuð sinfóníuhljómsveit getur komið fram.

Oddafélagið, sem er áhugamannafélag um endurreisn menningar- og fræðaseturs í Odda, hefur undirbúið uppbyggingu á staðnum með því að standa að ýmsum rannsóknarverkefnum. Staða þeirra var kynnt á Oddastefnunni. Oddi hefur notið stuðnings í RÍM-verkefninu, „Ritmenning íslenskra miðalda“ og fornleifarannsóknin á Hellunum merku hlaut styrk úr fornminjasjóði í ár, í fyrsta skipti.

Fjöllin eru altaristaflan

„Búið er að ræða um þessa uppbyggingu lengi, í þrjátíu ár. Okkur fannst tími til kominn að koma þessum hugmyndum í efnislegt form og fengum Sigríði Sigþórsdóttur hjá Basalti arkitektum til þess að fara yfir hugmyndirnar, þörf fyrir rými og innra skipulag. Einnig að koma með hugmynd að útliti,“ segir Ágúst Sigurðsson, formaður stjórnar Oddafélagsins. Tekur hann fram að tillögur að innra skipulagi skipti mestu máli. Hægt sé að ræða og þróa útlitið frekar, það sé ekki fast. „Mér finnst grunnhugmyndin mjög góð,“ segir hann.

Hægt verður að áfangaskipta byggingunni. Ágúst segir rökrétt að byrja á stóra salnum. Mesta þörfin sé á slíkum samkomusal. Risastór gluggi verður á stafni salarins og verður fjallahringurinn því eins konar altaristafla kirkjuskipsins. Ágúst segir að hugmyndin sé sótt í Gammabrekku, kvæði séra Matthíasar Jochumssonar, prests í Odda, sem skrifaði: „Hér setur drottinn þing.“

Ekkert liggur fyrir um það hvenær hægt verður að hefjast handa við byggingu Sæmundarstofu. „Það tekur einhver ár að byggja. Við höfum alltaf rætt um að allt þyrfti að vera komið fyrir árið 2033, á 900. ártíð Sæmundar fróða Sigfússonar.“

Oddafélagið leggur til að stofnað verði sjálfseignarfélag um uppbygginguna. Það taki við þeim undirbúningi sem áhugamannafélagið hefur unnið að. Ágúst vonast eftir að til liðs við Oddafélagið komi ráðuneyti menningarmála, sveitarfélögin þrjú í Rangárvallasýslu, þjóðkirkjan, Háskóli Íslands og ferðaþjónustan á Suðurlandi.

Ágúst telur ákjósanlegt að koma upp gistingu og veitingaþjónustu á staðnum eða í næsta nágrenni. Verið sé að byggja upp áfangastað og nú þegar komi margt fólk þangað og móttaka þess þurfi að vera í fastari skorðum en nú er.

Unnið er að því að koma upp útisýningu þar sem saga Odda og Sæmundar verður sögð. Stefnt er að þvi að hún verði tilbúin í síðasta lagi vorið 2024. Varanlegri sýningu verður síðan komið upp í Sæmundarstofu þegar hún verður risin.