Kreml Rússneskir varðmenn sjást hér við einn af turnum Kremlarhallar í gær. Ráðamenn þar sögðust hafa áhyggjur af aðgerðum „úkraínskra vígamanna“ og sökuðu þá um hryðjuverk innan landamæra Rússlands.
Kreml Rússneskir varðmenn sjást hér við einn af turnum Kremlarhallar í gær. Ráðamenn þar sögðust hafa áhyggjur af aðgerðum „úkraínskra vígamanna“ og sökuðu þá um hryðjuverk innan landamæra Rússlands. — AFP/Kirill Kudryavtsev
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Rússnesk stjórnvöld sögðu í gær að þeim hefði tekist að uppræta skæruliðahópa sem réðust inn í Belgorod-hérað Rússlands frá Úkraínu á mánudaginn. Sagði í tilkynningu varnarmálaráðuneytisins að Rússar hefðu beitt flugher sínum og stórskotaliði til þess að fella skæruliðana í „andhryðjuverkaaðgerð“.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Rússnesk stjórnvöld sögðu í gær að þeim hefði tekist að uppræta skæruliðahópa sem réðust inn í Belgorod-hérað Rússlands frá Úkraínu á mánudaginn. Sagði í tilkynningu varnarmálaráðuneytisins að Rússar hefðu beitt flugher sínum og stórskotaliði til þess að fella skæruliðana í „andhryðjuverkaaðgerð“.

Náði herinn samkvæmt tilkynningu Rússa að stöðva framrás hópanna og hrekja þá aftur til Úkraínu, þar sem árásir héldu áfram þar til þeim var „eytt“. Sagði varnarmálaráðuneytið að rúmlega 70 úkraínskir vígamenn hefðu fallið í aðgerðinni, auk þess sem fjórum bryndrekum hefði verið eytt, en ekki var hægt að staðfesta þær fullyrðingar í gær.

Innrásin vakti mikla athygli á mánudaginn, en tveir hópar rússneskra sjálfboðaliða sem barist hafa með Úkraínumönnum gegn innrásinni lýstu yfir ábyrgð sinni. Kallaði annar hópurinn sig „Frelsi Rússlands“ og sendu forsprakkar hans frá sér myndband á mánudaginn, þar sem þeir hétu því að frelsa landið undan yfirráðum Pútíns Rússlandsforseta.

Hinn hópurinn kallar sig „Rússnesku sjálfboðaliðasveitina,“ en hann stóð á bak við aðgerðir innan landamæra Rússlands í Bríansk-héraði í upphafi mars-mánaðar. Mun hópurinn tengjast öfga-hægrihreyfingum innan Rússlands, og hafa Úkraínumenn lítið viljað af þeim vita.

Neitaði afskiptum Úkraínu

Rússar sökuðu Úkraínumenn á mánudaginn um að standa að hryðjuverkum innan Rússlands, en stjórnvöld í Kænugarði neituðu þeirri sök. Mikhaíló Podoljak, ráðgjafi Selenskís Úkraínuforseta, sagði á mánudaginn að rússneskir skæruliðahópar gætu vel hafa verið að verki. „Eina drífandi pólitíska aflið í alræðisríki, þar sem búið er að herða skrúfurnar, er alltaf vopnuð skæruliðahreyfing,“ sagði Podoljak.

Athygli vakti að skæruliðarnir beittu m.a. skriðdrekum í innrás sinni, en Podoljak sagði að líkt og allir vissu væri hægt að kaupa slík tól í hvaða hernaðarvöruverslun sem er. Vísaði hann þar til orða Pútíns árið 2014, þegar hann neitaði því með svipuðum rökum að rússneskir hermenn væru að ráðast inn í Donbass-héruðin, þrátt fyrir að rússneskir skriðdrekar hefðu sést á vígvellinum.

Vjatsjeslav Gladkov, héraðsstjóri í Belgorod, sagði að almennir borgarar hefðu verið fluttir á brott frá níu þorpum á landamærunum við Úkraínu vegna innrásar skæruliðanna, en að tólf manns hefðu særst vegna aðgerða þeirra.

Gladkov sagði að drónaárásir hefðu verið gerðar aðfaranótt þriðjudags á hús í héraðinu og á skrifstofubyggingu sem tilheyrði hinu opinbera, en að enginn hefði fallið í þeim. Hins vegar væri enn of snemmt fyrir þá sem flúðu heimili sín að snúa aftur, þar sem aðgerðir væru enn í gangi, og yfirvöld í héraðinu myndu láta vita þegar það væri öryggt.

Dmitrí Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, sagði að það sem hefði gerst á mánudaginn vekti miklar áhyggjur og að innrásin sýndi að það þyrfti að gera meira til þess að koma í veg fyrir „aðgerðir úkraínskra vígamanna“ gegn Rússlandi. Sagði Peskov að tilgangur „sérstöku hernaðaraðgerðarinnar“, sem rússnesk stjórnvöld kalla innrásina, væri að koma í veg fyrir að innrásir sem þessar endurtækju sig.

Breska varnamálaráðuneytið sagði í stöðumati sínu á innrásinni í gær að atburðir mánudagsins sýndu að Rússland glímdi nú við sífellt alvarlegri öryggisógnir í landamærahéruðum sínum, þar sem þeir hefðu nýverið misst orrustuþotur og herþyrlur, orðið fyrir því að lestarteinar hefðu verið sprengdir upp með heimatilbúnum sprengjum og nú síðast beinar aðgerðir andspyrnuhreyfinga. Sagði ráðuneytið að Rússar myndu án nokkurs vafa reyna að nýta þessi atvik til að setja sjálfa sig í hlutverk fórnarlambs stríðsins.

F-16-þjálfunin hafin

Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði í gær að þjálfun úkraínskra flugmanna á F-16-orrustuþotuna væri þegar hafin í Póllandi og nokkrum öðrum ríkjum, en Bandaríkjastjórn veitti leyfi fyrir því að slík þjálfun gæti hafist um helgina.
Borrell fundaði í gær með varnarmálaráðherrum aðildarríkjanna í Brussel, og sagði að þjálfunin myndi vissulega taka tíma, en að því fyrr sem henni gæti lokið, því betra.

Kajsa Ollongren, varnarmálaráðherra Hollands, sagði að bandalag þjóða í Vestur-Evrópu, sem meðal annars innihéldi Danmörku, Belgíu og Bretland, væri nú að leggja línurnar að því að hefja þjálfunina með það markmið að hún gæti hafist sem fyrst.

Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, sagði að Þjóðverjar væru að skoða hvernig þeir gætu aðstoðað, en þeir eiga ekki F-16-þotur og geta því ekki veitt þjálfun sjálfir.