Erlend fjármögnun íslensku bankanna hefur reynst erfið á undanförnum misserum. Á meðan Ísland flokkast sem lítið land þegar horft er til seljanleika skuldabréfa hefur lánshæfismat landsins einnig haft nokkur áhrif á kjör.
Erlend fjármögnun íslensku bankanna hefur reynst erfið á undanförnum misserum. Á meðan Ísland flokkast sem lítið land þegar horft er til seljanleika skuldabréfa hefur lánshæfismat landsins einnig haft nokkur áhrif á kjör. — Ljósmynd/Colourbox
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenskum bönkum hefur reynst meira krefjandi en alla jafna að sækja erlenda fjármögnun við þær aðstæður sem uppi hafa verið á skuldabréfamörkuðum ytra undanfarin misseri, en langtímaskuldafjármögnun íslenskra banka er nánast öll erlend

Íslenskum bönkum hefur reynst meira krefjandi en alla jafna að sækja erlenda fjármögnun við þær aðstæður sem uppi hafa verið á skuldabréfamörkuðum ytra undanfarin misseri, en langtímaskuldafjármögnun íslenskra banka er nánast öll erlend. Smæð bankanna í alþjóðlegum samanburði hefur mikil áhrif á seljanleika bréfa þeirra – og þar með eftirspurn og kjör. Bankarnir eru þó ekki af baki dottnir í þessum efnum og hafa þeir undanfarið ráðist í útgáfur bæði á Norðurlanda- og evrumarkaði.

Skárri kjör en minna magn

Íslandsbanki er á meðal þeirra sem sótt hafa inn á Evrópumarkað þrátt fyrir aðstæður, er bankinn gaf á dögunum út almenn skuldabréf að fjárhæð 300 milljónir evra til þriggja ára á 7,375% föstum vöxtum, en það jafngilti 421 punkts álagi yfir millibankavöxtum í evrum. Í heild bárust tilboð frá 116 fjárfestum fyrir tæpar 800 milljónir evra eða sem nemur rúmlega tvöfaldri umframeftirspurn. Þá gaf Arion banki einnig út almenn skuldabréf fyrir 300 milljónir evra til þriggja ára. Bréfin bera 7,25% fasta vexti sem jafngilda 407 punkta álagi yfir millibankavöxtum í evrum. Fyrr á þessu ári höfðu Kvika og Landsbankinn einnig sótt sér fjármagn með skuldabréfaútgáfu.

Jón Guðni Ómarsson fjármálastjóri Íslandsbanka ræddi við ViðskiptaMoggann um stöðuna á markaðinum. Hann segir að skuldabréfaútboð í evrum hafi áður verið fyrirhugað undir lok síðasta árs, en evrumarkaðurinn hafi að lokum ekki þótt nægilega góður á þeim tíma og leiddi það til þess að ákveðið var að sækja þess í stað fjármagn á Norðurlandamarkað.

„Það er gott að hafa aðgengi að nokkrum mörkuðum, þeir helstu eru íslenski markaðurinn, Norðurlöndin og Evrópa. Aðstæður eru misjafnar á hverjum tíma á hverjum markaði, þannig að undir lok síðasta árs einbeittum við okkur að Norðurlöndunum. Núna ákváðum við aftur á móti að fara inn á Evrópumarkaðinn, þó að Norðurlöndin hafi verið opin og jafnvel hægt að sækja skárri kjör þangað, þar sem það getur verið erfitt að treysta því að Norðurlandamarkaðurinn sé með nógu mikið magn til þess að standa undir allri fjármögnun íslensku bankanna. Það er því mikilvægt að hafa Evrópumarkaðinn opinn líka.“

Smæð bankanna háir þeim

Hann lýsir því hvernig hann upplifi aðstæður á skuldabréfamörkuðum sem mjög óvenjulegar en þrátt fyrir það hafi eftirspurn í útboði bankans verið vonum framar.

„Síðasta ár var það versta í manna minnum á erlendum skuldabréfamörkuðum og ekki skánaði það nú í byrjun árs þegar slæmar fréttir tóku að berast af bönkum í Bandaríkjunum og eins Credit Suisse. Í aðdraganda útboðsins hittum við mjög marga erlenda fjárfesta um alla álfuna, aldrei jafn marga og nú. Það vinnur með okkur að geta sagt þeim að við séum ekki að glíma við sömu tapáhættu og bandarískir bankar þar sem skuldabréf í lausafjársafni okkar eru á markaðsvirði, auk þess sem það er almennt stöðugleiki í innlánum. Eftirspurnin í útboðinu reyndist enda mjög góð, rúmlega hundrað fjárfestar tóku þátt í því og heildareftirspurn nam tæpum 800 milljónum evra. Það ber því vitni að íslensku bankarnir hafi aðgengi að mörkuðum þó að það sé misdýrt,“ segir hann.

Hann segir markaðsaðstæður ytra hafa haft meiri áhrif á íslenska banka en marga aðra í Evrópu.

„Það er þó ekki þannig að fjárfestar hafi áhyggjur af stöðunni í íslensku efnahags- eða atvinnulífi, heldur er um að ræða lítil skuldabréf í evrópsku samhengi. Útboð okkar, sem hljóðaði upp á 300 milljónir evra, þykir með allra minnsta móti í Evrópu og því er seljanleiki slíkra bréfa takmarkaður sem gerir þau erfiðari í útgáfu.“

Enn óvissa í umhverfinu

Það hafi sýnt sig enn sem fyrr að þegar á móti blæs þýðir ekki annað en að sækja fram.

„Síðustu ár hafa sýnt að þegar markaðir verða erfiðir, þá þarf einfaldlega að ríða á vaðið og ráðast í útgáfu þó að það sé mjög dýrt. Með þessu erum við líka að vera varfærin og tryggja stöðu okkar enn þá betur, sem er mikilvægt við núverandi óvissu í alþjóðlega efnahagsumhverfinu,“ segir Jón Guðni og bætir við að hann vonist til þess að sjá markaðinn færast í eðlilegra horf með tíð og tíma, þótt óvissan sé enn töluverð.

„Ég er bjartsýnn að eðlisfari og er þokkalega vongóður um að stór hluti hinnar miklu hækkunar á vaxtastigi erlendis sé þegar kominn fram og að verðbólga tengd veirufaraldrinum og stríðinu í Úkraínu hafi náð hámarki, og það verði þannig meira jafnvægi í efnahagsumhverfinu horft fram veginn. Á móti kemur að það er enn töluverð óvissa í umhverfinu og þá sérstaklega hvað varðar vaxtastigið, hvort áhrif hækkana séu að fullu komin fram, á eignaverð og skuldsetningu heimila og fyrirtækja, bæði hér heima og erlendis.“

Lánshæfi Íslands of lágt metið

Lánshæfiseinkunn Íslands hjá erlendum matsfyrirtækjum hefur verið nokkuð til umræðu þar sem aðilum á markaði hefur þótt hún of lág og takmarkandi fyrir íslensk fjármálafyrirtæki, sem eðli máls samkvæmt geti ekki fengið hærri einkunn en hið opinbera. Jón Guðni segist geta tekið undir það.

„Ég er algjörlega sammála því, mér finnst lánshæfismatsfyrirtækin meta Ísland allt of lágt miðað við hvernig staðan er hér á landi. Við þurfum að samræma aðgerðir og hvernig við setjum styrkleika okkar fram hér á landi gagnvart þeim. Við þurfum að ná miklu betri árangri og ég held að við getum gert betur í þeim efnum.“