Með barnabörnunum Kristján og Sigurjóna í fermingu tvíburanna Völu og Kristjáns í vor, en á myndina vantar þann minnsta, Víking Þór, sem er 9 mánaða og býr í San Francisco.
Með barnabörnunum Kristján og Sigurjóna í fermingu tvíburanna Völu og Kristjáns í vor, en á myndina vantar þann minnsta, Víking Þór, sem er 9 mánaða og býr í San Francisco.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján Jóhannsson fæddist 24. maí 1948 á Akureyri, nánar tiltekið í Hafnarstræti 53, sem er í Innbænum. Hann ólst þar upp til fjögurra ára aldurs og…

Kristján Jóhannsson fæddist 24. maí 1948 á Akureyri, nánar tiltekið í Hafnarstræti 53, sem er í Innbænum. Hann ólst þar upp til fjögurra ára aldurs og síðan á Spítalavegi 11 þar til hann fór 19 ára að heiman.

Hann lauk gagnfræðaprófi 1966, lærði ketil- og plötusmíði hjá Slippstöðinni á Akureyri, lauk prófi í plötusmíði í Iðnskólanum á Akureyri 1970 og prófi í dísilstillingum 1971. Kristján var í söngnámi hjá Sigurði Demetz Franzsyni í Tónlistarskóla Akureyrar 1972-74, í Aosta á Ítalíu 1974-75, í Piacenza á Ítalíu hjá Gianni Poggi 1975-78, í einkatímum hjá Ettore Campogalliani í Mantova á Ítalíu 1978-80 og hjá tenórsöngvaranum Ferruccio Tagliavini.

Kristján rak fyrirtækið Dísilstillingar hf. á Akureyri 1971-74. Hann byrjaði að syngja með Karlakórnum Geysi á Akureyri 1970, varð einsöngvari með kórnum 1971, söng fyrst í íslenskri óperuuppfærslu í La Bohéme í Þjóðleikhúsinu 1981, tók síðan þátt í nokkrum íslenskum óperuuppfærslum, hefur komið fram á fjölda tónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Mótettukór Hallgrímskirkju og haldið fjölda einsöngstónleika hér á landi.

Kristján var búsettur á Ítalíu frá 1976 og í ítalska bænum Desenzano við Gardavatn frá 1987 til 2009 þegar hann fluttist aftur til Íslands með fjölskylduna.

Hann söng víða um heim í þekktustu óperuhúsum veraldar, eins og á La Scala í Mílanó, fyrst 1988, söng fyrst á The Lyric Opera í Chicago 1989, söng fyrst í Vínaróperunni 1992, fyrst á Metropolitan í New York 1993, söng fyrst á Royal Opera House í Covent Garden í London 1994.

Önnur óperuhús sem hann var tíður gestur í voru L’Arena di Verona, Teatro dell’Opera di Roma, en blaðamaður í Verona tók saman að enginn erlendur óperusöngvari hefði sungið aðalhlutverk í jafnmörgum óperuhúsum á Ítalíu á einu leikári. Hann hefur sungið margoft síðan við þessi óperuhús og fjölda annarra kunnustu óperuhúsa á Ítalíu, Hann söng einnig víða í Þýskalandi, Frakklandi, Sviss, Austurríki, í Bandaríkjunum, Kína og Japan meðal annars.

Meðal hljómplatna Kristjáns sem gefnar hafa verið út hér á landi má nefna: Hin ljúfa sönglist (Jóhann Konráðsson og fjölskylda) 1980; Kristján Jóhannsson, 1983; Ítalskar aríur, 1988; Með kveðju heim, 1989; Með Kristjáni, 1989; Af lífi og sál, 1993; Söngvarnir hans Kristjáns: Sönglög og óperuaríur, 1993; Helg eru jól, 1998; Hamraborgin, 2000, og Portami Via, 2004. Þá hafa komið út með Kristjáni á vegum Naxos diskarnir Best of Opera, vol. 5.; Nessun Dorma and Other Favorites (Sony Classic); Italian Tenor Arias; Verdi: Aida; Verdi Aida (Highlights); Verdi: Aida (Verona 1992); Very best of Verdi.

Í seinni tíð hefur Kristján sinnt söngkennslu í síauknum mæli, verið með einkatíma og haldið fjölda söngnámskeiða við ítalska tónlistarskóla og fer árlega til Ítalíu og kennir þar við sumarskóla, La Musica Lirica.

Kristján er sérhæfður í ítalska óperufaginu, Verdi-óperum og verismo-óperum eins og Puccini og Leoncavallo, og söng sem Lirico og Lirico spinto – dramatískur tenór. Hans þekktustu hlutverk eru án efa Radames úr Aida, Calaf úr Turandot og Otello úr samnefndri óperu. Hlutverk Cavaradossi úr Tosca hefur ávallt verið honum hugfólgið, enda sennilega það hlutverk sem hann hefur oftast sungið. Kvikmynd Monicelli um Cavalleria Rusticana, þar sem Kristján söng Turiddu, vann til verðlauna á Ítalíu.

Meðal eftirminnilegra uppfærslna er þegar Kristján söng í Butterfly í uppfærslu Ken Russel 1983 á Spoleto Festival, en uppfærslan þótti tímamótauppfærsla. Hann söng frumsýningarkvöldið á Turandot þegar hún var færð upp í Forboðnu borginni í Beijing 1998 ásamt glæsilegum hópi listamanna frá Maggior Musicale í Flórens undir stjórn Zubin Mehta og í leikstjórn Yimou Zhang. Ein stærsta óperuuppfærsla sem hefur farið á svið var í Beijing 6.10. 2003, en það var Aida með Kristjáni í einu aðalhlutverkinu.

Kristján fékk lykil nr. 1 frá Akureyrarbæ 1992 og fékk afhenta fálkaorðuna frá frú Vigdísi Finnbogadóttur 1991. Kristján var gerður að heiðursborgara Desenzano 1991 og fékk orðu Cavaliere dall Merito del Stato Italiano 1990 sem er samsvarandi fálkaorðunni. Hann er handhafi fjölda viðurkenninga frá bæði Bandaríkjunum og ekki síst Ítalíu fyrir list sína og ekki síst er hann handhafi Grímunnar sem hann fékk 2018.

„Hvað frístund varðar þá nýt ég þess að sigla á Gardavatninu yfir sumartímann, kenna söng og koma þannig arfleifð minni áfram, og vera með fjölskyldunni enda mikill fjölskyldumaður.“

Fjölskylda

Eiginkona Kristjáns er Sigurjóna Sverrisdóttur, f. 7.5. 1959, verkefnastjóri hjá Íslandsstofu. Þau eru búsett í Kópavogi. Foreldrar Sigurjónu eru hjónin Sverrir Jónsson, f. 9.7. 1939, fyrrverandi starfsmaður Íslandsbanka, og Rannveig Guðmundsdóttir, f. 15.9. 1940, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra. Þau eru búsett í Kópavogi.

Fyrsta kona Kristjáns var Áslaug Kristjánsdóttir, f. 3.2. 1950, sjúkraliði í Reykjavík. Önnur kona Kristjáns var Doriet Kavanna, f. 30.12. 1950, d. 30.12. 1983, óperusöngkona.

Börn Kristjáns og Áslaugar eru 1) Ingvar Jóhann, f. 25.11. 1969, verslunarstjóri í Veiðihorninu en börn hans eru Þórey Ingvarsdóttir, f. 31.8. 2007, og tvíburarnir Kristján og Vala, f. 4.7. 2009; 2) Barbara Kristín, f. 8.7. 1974, mannauðsstjóri. Sambýlismaður hennar er Eyjólfur Einarsson, f. 25.1. 1970. Dóttir Barböru er Júlía, f. 12.12. 2006, menntaskólanemi. Börn Kristjáns og Sigurjónu eru 3) Sverrir, f. 4.8. 1987, hugmyndalistamaður hjá Sanzaru og Facebook. Eiginkona Sverris er Bryndís Lillian Hafþórsdóttir, f. 4.9. 1990, sýningarstjóri hjá galleríinu California College of the Arts. Sonur þeirra er Víkingur Þór, f. 26.8. 2022. Þau eru búsett í San Francisco, USA; 4) Víkingur, f. 22.8. 1989, sjálfstætt starfandi. Sambýliskona hans er Kristín Líf Örnudóttir, f. 13.9. 1993; 5) Rannveig, f. 15.9.1997, mastersnemi.

Systkini Kristjáns: Heiða Hrönn, f. 10.1. 1939, sjúkraliði á Akureyri, Anna María, f. 3.1. 1940, húsmóðir á Akureyri; Konráð Oddgeir, f. 9.4. 1943, d. 2000, ráðsmaður í Árnesi í Gnúpverjahreppi, Jóhann Már, f. 10.1. 1945, skipasmiður og bóndi í Keflavík á Hegranesi; Svavar Hákon, f. 15.3. 1946, ketil- og plötusmiður, bóndi í Litladal í Svínadal, A-Hún., og Björgvin Haukur, f. 17.1. 1953, tannsmiður á Akureyri.

Foreldrar Kristjáns voru hjónin Jóhann Konráðsson, f. 16.11. 1917, d. 27.12. 1982, söngvari og gæslumaður á geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, og Fanney Oddgeirsdóttir, f. 14.9. 1917, d. 4.5. 2009, gæslukona á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.