Meistaradeild Viktor Gísli Hallgrímsson og Gísli Þorgeir Kristjánsson.
Meistaradeild Viktor Gísli Hallgrímsson og Gísli Þorgeir Kristjánsson. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Landsliðsmennirnir Viktor Gísli Hallgrímsson og Gísli Þorgeir Kristjánsson eru í hópi 56 leikmanna sem tilnefndir eru í kjörinu á bestu handboltamönnum tímabilsins 2022-23 í Evrópumótum karla. Viktor Gísli, sem lék með Nantes í Meistaradeildinni í…

Landsliðsmennirnir Viktor Gísli Hallgrímsson og Gísli Þorgeir Kristjánsson eru í hópi 56 leikmanna sem tilnefndir eru í kjörinu á bestu handboltamönnum tímabilsins 2022-23 í Evrópumótum karla.

Viktor Gísli, sem lék með Nantes í Meistaradeildinni í vetur, er einn af sjö markvörðum sem eru tilnefndir en meðal hinna eru Niklas Landin, markvörður Kiel og danska landsliðsins, og Andreas Wolff, markvörður Kielce og þýska landsliðsins.

Gísli Þorgeir, sem er kominn með Magdeburg í fjögurra liða úrslit Meistaradeildarinnar, er einn af sjö miðjumönnum sem eru tilnefndir. Á meðal annarra tilnefndra í þeirri stöðu eru Luka Cindric, leikmaður Barcelona og króatíska landsliðsins, og Nedim Remili, leikmaður Veszprém og franska landsliðsins.

Þá er hinn 41 árs gamli hálfíslenski Hans Óttar Lindberg í hópi sjö sem eru tilnefndir sem hornamenn hægra megin. Hann leikur enn með danska landsliðinu og sló á dögunum markametið í þýsku 1. deildinni.

Færeyingar eiga líka fulltrúa í hópnum en einn af keppinautum Hans Óttars er færeyski landsliðsmaðurinn Hákun West Av Teigum sem lék með Skanderborg frá Danmörku í Evrópudeildinni í vetur ásamt því að taka þátt í að koma Færeyjum í lokakeppni EM í fyrsta skipti í sögunni.