Bestur Andri Már Rúnarsson, besti maður vallarins í gærkvöldi, neglir að marki ÍBV á Ásvöllum í gær.
Bestur Andri Már Rúnarsson, besti maður vallarins í gærkvöldi, neglir að marki ÍBV á Ásvöllum í gær. — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úrslitin í úrslitaviðureign Hauka og ÍBV á Íslandsmóti karla í handbolta ráðast í oddaleik í Vestmannaeyjum annað kvöld. Það varð ljóst eftir 27:24-heimasigur Hauka í fjórða leik liðanna á Ásvöllum í gærkvöldi

Á Ásvöllum

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Úrslitin í úrslitaviðureign Hauka og ÍBV á Íslandsmóti karla í handbolta ráðast í oddaleik í Vestmannaeyjum annað kvöld. Það varð ljóst eftir 27:24-heimasigur Hauka í fjórða leik liðanna á Ásvöllum í gærkvöldi.

Haukar byrjuðu með látum

Haukar mættu gríðarlega vel stemmdir til leiks og komust í 5:1 á upphafsmínútunum. Tókst ÍBV ekki að jafna eftir það og varð munurinn aldrei minni en þrjú mörk eftir fyrstu mínúturnar. Hann varð mestur átta mörk í seinni hálfleik og það reyndist of mikið fyrir ÍBV, þrátt fyrir fínt áhlaup undir lokin. Haukar buðu Eyjamönnum upp í dans í lokin, með því að nánast hætta að sækja á markið. Þeir fóru að verja forskotið, sem tókst að lokum.

Fáir höfðu trú á Haukum

Haukarnir hafa sýnt gríðarlegan styrk í einvíginu. Fáir, aðrir en leikmenn og þjálfarateymi Hauka, áttu von á öðru en að ÍBV yrði Íslandsmeistari í stöðunni 2:0 og á leiðinni í þriðja leik í Vestmannaeyjum. Stuðningsmenn ÍBV voru komnir með kampavínið í kælinn og til í trylltan fögnuð á heimavelli.

Nú, örfáum dögum síðar, eru Haukar með meðbyr á leiðinni í oddaleik. Stemningin á Ásvöllum í gær var stórkostleg og hún verður eflaust enn betri í Vestmannaeyjum annað kvöld. Nú reynir á ÍBV eftir tvo tapleiki í röð og með allt bæjarfélagið á bakinu. Pressan á þá er sannarlega til staðar. Pressan á Haukum er minni en á ÍBV, nú sem áður, þar sem fáir áttu von á því að liðið yrði í þessari stöðu fyrir nokkrum dögum.

Rétt eins og í síðasta leik í Vestmannaeyjum spiluðu fleiri leikmenn Hauka vel. Andri Már Rúnarsson var virkilega góður og skoraði sjö mörk. Stefán Rafn Sigurmannsson á nú sína bestu leiki á tímabilinu, þegar mest er undir.

Drógu tennurnar úr ÍBV

Varnarleikur Haukamanna var til fyrirmyndar stóran hluta leiks. Adam Haukur Baumruk var einn besti sóknarmaður Hauka í áraraðir, en hann spilar nú nánast bara vörn. Hann var glæsilegur í gær, sérstaklega í fyrri hálfleik, og lentu Eyjamenn oft í miklum vandræðum í sókninni. Þar fyrir aftan átti Aron Rafn Eðvarðsson flottan leik og saman drógu þeir tennurnar úr ÍBV, á meðan sóknin sá um að byggja upp forskot hinum megin, forskot sem nægði til sigurs.

Fleiri þurfa að spila vel

ÍBV þarf að fá meiri markvörslu og stærra framlag frá fleirum í sókninni. Rúnar Kárason, Arnór Viðarsson og Kári Kristján Kristjánsson þurfa meiri hjálp frá fleiri leikmönnum. Nú reynir á Eyjahjartað, gegn hungruðum Haukum sem eru með sjálfstraust og meðbyr.

Fyrir hlutlausa er þetta einvígi búið að vera stórkostlegt og vel við hæfi að úrslitin ráðist í Vestmannaeyjum í oddaleik. Stemningin í Vestmannaeyjum er ein sú allra besta hér á landi og í oddaleik, þegar allt er undir, verður hún á heimsmælikvarða. Vestmannaeyjar fara á hliðina, sama hvernig fer. Megi betra liðið vinna.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson