Ísak Hörður Harðarson fæddist 11. ágúst 1956. Hann lést 12. maí 2023. Útför hans fór fram 24. maí 2023.

Þegar ég eignaðist Ísak fyrst að vini vorum við þrettán ára gamlir. Það gerðist þannig að við hittumst einhvers staðar í miðbænum og tókum tal saman þótt við þekktumst ekki að öðru leyti en að við vorum báðir í Austurbæjarskólanum. Einhverra hluta vegna fórum við að príla upp á byggingar sem urðu á leið okkar og í lok dagsins ákváðum við að framvegis myndum við ekki láta hús eða aðrar fyrirstöður trufla ferðir okkar heldur ferðast eftir sem beinustum línum á milli áfangastaða. Þetta þýddi að við klifruðum upp frá þessu allra okkar ferða og kynntumst fyrir vikið grindverkum, skúrum, þökum og bakgörðum miðbæjarins betur en flestir. Þetta varð líka til þess að ég kynntist vel Vífilsstaðahælinu, þar sem ég var settur í geymslu í nokkra mánuði til að gróa sára minna eftir að þessi ákvörðun okkar félaganna hafði farið úrskeiðis.

Ísak var einstaklega hugmyndaríkt og uppátækjasamt ungmenni, þannig að allt varð einhvern veginn áhugavert, djúpt og tilgangsríkt í návist hans. Hann átti það til að vera þunglyndur og ég efast um að við félagar hans höfum almennilega skilið þá erfiðu reynslu sem markaði hann. Hann missti móður sína á unga aldri og faðir hans flutti af landi brott fljótlega eftir það. En það er allavega víst að næmari og tilfinningaríkari manni hef ég ekki kynnst.

Ísak bjó á þessum árum hjá afa sínum og ömmu við Snorrabrautina. Hann hafði þar herbergi með sérinngangi. Þetta herbergi varð aðalsamkomustaður okkar félaganna og gekk undir nafninu Gula hælið. Við höfðum þarna nokkuð eftirlitslaust frjálsar hendur og þarna urðu margar sögur til. Ísak var þekktur fyrir það í Austurbæjarskólanum að eiga gjarnan megnið af því efni sem birtist í skólablaðinu. Þetta truflaði ritstjórn blaðsins, sem vildi fjölga röddum í blaðinu, og lausnin sem fannst var að koma fyrir kassa í skólanum þar sem nemendur gátu lagt inn greinar undir dulnefni. Ritstjórnin tók síðan að sér að velja áhugaverðustu skrifin til birtingar í blaðinu. Þessi lausn var hugsuð til að nemendur yrðu síður feimnir við að senda inn efni og ritstjórnin yrði hlutlaus í vali sínu. Líður nú og bíður og loks kemur blaðið út. Þá kemur í ljós, það sem ritstjórnin veit kannski ekki enn þann dag í dag, að allar greinarnar sem birtust í blaðinu í þetta skipti voru eftir Ísak undir mismunandi höfundarnöfnum. Ég man enn þá eitt af þessum nöfnum sem mér þótti sérlega ísakst, en það er nafnið „Smekklás Plastglas“.

Ég vil að lokum þakka kærum vini allt sem hann gaf mér og votta dætrum hans og aðstandendum samúð.

Bergur Þórisson.

Fyrir skemmstu barst mér sú sorgarfregn að Ísak vinur minn væri dáinn. Eins og ætíð þegar slík tíðindi berast setur að manni sára tómleikakennd; hlutir missa lit sinn og bjarma, og um stund er líkast því sem þeir verði aðeins séðir í gegnum þunna blæju.

Við Ísak þekktumst vel og það er margs að minnast. Eitt atvik er mér þó minnisstæðast, þótt það sé ef til vill líkara draumi en veruleika. Einu sinni sem oftar vorum við Ísak saman á næturvakt. Blátt hauströkkrið var sigið á og þegar orðið skuggsýnt. Á lóð spítalans voru nokkrir ljósastaurar á stangli. Vaktherbergið endurspeglaðist í rúðunni. Við borðið sat Ísak, önnum kafinn við þýðingu á bók sem hann hafði nýlega fundið og geymdi túlkanir á Ljóðaljóðum Biblíunnar. Hann var nýhafinn við að þýða túlkun á fjórða kafla ljóðanna, en í upphafserindinu má lesa eina sérstæðustu myndlíkingu verksins: „… hve fögur, og augu þín dúfur undir andlitsblæjunni …“

Í sama mund settist hvít dúfa á gluggasylluna fyrir utan. Syllan var svo þröng að dúfan neyddist til að þrýsta væng sínum að kaldri rúðunni. Augu hennar líktust svörtum perlum. Hún sat þar um stund, svo var hún flogin burt. Það hvarflar ekki að mér að dúfan hvíta hafi verið yfirnáttúruleg. Eflaust slapp hún í gegnum rifu á vírneti einhvers dúfnakofa í grenndinni, en tilviljunin er engu að síður fáheyrð.

Trúhneigð vinar míns var samtvinnuð skáldskap hans, en ekki hliðarspor eins og ýmsir gætu haldið. Trúin beinir sjónum okkar að ráðgátunni sem umlykur líf okkar. Það sem stundum er nefnt „jamais vu (aldrei séð) stendur sköpunaraflinu ef til vill nær en það sem kallast „déja vu“ (þegar séð). Hvort tveggja vekur óljóst hugboð um töfra sem verða ekki greindir nema rétt í svip. Í fyrra Korintubréfi segir: „Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis.“

Nú þegar vinur minn hefur kvatt þetta líf óska ég þess að óbrigðult ljósið sem hann treysti ætíð á vaki yfir honum.

Sveinbjörn Halldórsson.

Bækur Ísaks Harðarsonar hafa fylgt mér frá því að hans fyrsta, „Þriggja orða nafn“, kom út 1982 – og hann sjálfur bróðurpart æviskeiðs okkar því í upphafi ferils hans lágu leiðir okkar saman og við urðum vinir. Seinna meir átti ég því láni að fagna að vera útgefandi hans um skeið.

Skáldferill Ísaks er í einu orði sagt stórkostlegur. Þrátt fyrir frátafir við samningu eigin verka var hann afkastamikill – og ekki má gleyma fjölmörgum þýðingum hans. Það er ekki nokkur leið að gera upp á milli verka hans en ljóðabókin „Rennur upp um nótt“ er mér hjartfólgin og ekki að ástæðulausu því ég fékk að vera þátttakandi í útgáfu hennar. Í einu ljóði þeirrar bókar koma fyrir þessar línur:

Reyndar er ég svo margdauður að ég hlýt að eiga

margfalda upprisu í vændum.Ísak var ekki einhamur og ég er sannfærður um að hann rís upp aftur og aftur, ef ekki bókstaflega þá örugglega í skáldskapnum. Eftir útgáfu ljóðabókarinnar „Síðustu hugmyndir fiska um líf á þurru“, sem kom út 1989, sendi ég honum stutta kveðju sem ástæða er til að endurtaka núna þegar Ísak heldur til fundar við guð sinn:

Ónefnt – en samt tileinkað blekfiskinum vini mínum

Eitt sinn varstu staddur

í grunnum sjó og fótaðir þig

áfram. Utar. Dýpra.

Fyrst tók sjórinn í hné,

þá mitti –

og nú nær hann undir hendur.

Og það dýpkar;

bráðum missir þú botns

og neyðist til að synda.

Framundan er

blekhafið og stjörnuhiminninn.

Við Margrét sendum aðstandendum Ísaks okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Kristján Kristjánsson.