Þórshöfn Endurnýjun hráefnistankanna hefur verið í fullum gangi.
Þórshöfn Endurnýjun hráefnistankanna hefur verið í fullum gangi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir hjá Ísfélagi Vestmannaeyja á Þórshöfn síðustu mánuði og eru enn í gangi. Verið er að endurnýja hráefnistanka fiskimjölsverksmiðjunnar og búið að skipta út upphaflegu stáli frá árinu 1965 í þremur hráefnistönkum

Líney Sigurðardóttir

Þórshöfn

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir hjá Ísfélagi Vestmannaeyja á Þórshöfn síðustu mánuði og eru enn í gangi. Verið er að endurnýja hráefnistanka fiskimjölsverksmiðjunnar og búið að skipta út upphaflegu stáli frá árinu 1965 í þremur hráefnistönkum.

Árið 1990 voru tankarnir hækkaðir um fjóra metra og þá var einnig skipt um stál í toppum og botnum og er það í góðu lagi. Eftir breytingar núna hækka tankarnir um þrjá metra og tekur þá hver tankur tæp 1.700 tonn.

Að sögn starfsmanns fiskimjölsverksmiðju er eftir að einangra tankana og klæða að utan en þetta er mikil vinna sem líklega mun standa fram í ágúst.
Nýbygging við frystihúsið stendur einnig yfir og er hún ætluð sem starfsmannaaðstaða og skrifstofur en eldra skrifstofu- og starfsmannarýmið fer þá undir vinnsluna sjálfa. Byggt er að mestu úr forsteyptum einingum en steypa þarf í gólfin og fleira en stefnt er að verklokum einhvern tíma á næsta ári.

Þrátt fyrir umsvif og framkvæmdir gafst tími til að bregða á leik en Ísfélagið bauð starfsfólkinu á veglega árshátíð í maí og voru allir velkomnir sem unnið höfðu hjá félaginu síðastliðið ár. Eftir borðhald og skemmtidagskrá tók við dansleikur sem var öllum opinn en Jógvan Hansen og hljómsveit skemmtu þar dansþyrstum gestum fram á rauðanótt.

Höf.: Líney Sigurðardóttir