Meyvant Þórólfsson
Meyvant Þórólfsson
Einkunnarorðin eru: Þétta byggð, fjölga íbúum og ferðamönnum, keyra öll hjól á yfirsnúningi og dæla stafrænni tækni í alla innviði

Meyvant Þórólfsson

Opin landamæri og skefjalaus tæknidýrkun eru orðin að eins konar rétttrúnaði hér á landi. Af ótta við að lenda á nástrái keppast frumbyggjar þessa lands við að tæknivæðast og laða hingað erlent vinnuafl og margofna menningarstrauma til að verða ekki undir í hinni hnattrænu hagsældarkeppni. Einkunnarorðin eru: Þétta byggð, fjölga íbúum og ferðamönnum, keyra öll hjól á yfirsnúningi og dæla stafrænni tækni í alla innviði. Enginn skal voga sér að amast við því að hér séu að myndast einangruð málsamfélög sneydd íslenskukunnáttu. Um miðja þessa öld mun alheimstungan enska hafa tekið við sem samskiptamál okkar regnkalda eyríkis að mati málfarslegra aðgerðasinna.

Íslenska í „alvöruheiminum“

Í nýlegri Morgunblaðsgrein benti menningarmálaráðherra á að við stæðum frammi fyrir siðferðilegum spurningum vegna hagnýtingar gervigreindar og stafrænnar miðlunar; réttmæt og eðlileg ábending. Það er orðin áleitin spurning, hvort hinum viti borna manni auðnist að ráða örlögum sínum í framtíðinni í stað róbóta með sýndargreind, sem sjálfhverfir tölvusnillingar hafa otað fram, óumbeðið.

Fyrir skemmstu birtist áhugaverð grein eftir Helgu Birgisdóttur í vefriti er nefnist Skólaþræðir um íslenskunám við Tækniskólann. Þar er lögð áhersla á gagnrýna hugsun og sjálfstæð vinnubrögð og námið snýst meðal annars um málvísindi í stafrænum heimi, kenningar um alheimstungumál og stöðu fámennra málsamfélaga. Nemendur lýsa ánægju yfir að læra íslensku er tengist „alvöruheiminum“ eins og einn orðar það, en sumir hafa þó áhyggjur af því að varðveisla íslenskrar tungu sé of kostnaðarsöm: „Auðveldara væri fyrir Íslendinga að vera með stærra og nytsamara mál sem móðurmál.“ Einn taldi íslensku hreinlega „hindra upptöku mikilvægra upplýsinga“.

Aðrir bentu þó á að heimurinn myndi „missa þann hluta menningarinnar sem okkur var falið að gæta“ ef við hyrfum frá því að varðveita tunguna, auk þess sem hún hefði „komið okkur á þann stað sem við erum á í dag“ eins og nemandi komst að orði.

Nytjastefna eða skyldusiðfræði

Nytjahugsun er undirliggjandi stef í fyrrnefndum rétttrúnaði, samanber þá glýju að lífið verði þægilegra ef við tileinkum okkur stærra og nytsamlegra samskiptamál. Markmiðið virðist vera sífellt meiri þægindi og velsæld eða „hátíðir allt árið um kring svo allir hafi alltaf eitthvað til að hlakka til“ eins og sagði í samstarfssamningi borgarstjórnarflokka Reykjavíkur eftir síðustu kosningar. Stefnan þar á bæ endurspeglar nokkuð skýrt téðan rétttrúnað.

Góðu heilli örlaði þó einnig á annars konar gildum hjá nemendum Tækniskólans, gildum sem má fremur kenna við skyldusiðfræði Kants en nytjastefnu. Að varðveita menningararfinn „sem okkur var falið að gæta“ er heilbrigð og fögur hugsjón, dygð sem hefur ekkert með veraldlega hagsæld að gera eða lífsþægindi í boði borgarstjórnar sem hefur misst allt niður um sig í hagstjórn og ráðstöfun fjármuna borgaranna að þeim forspurðum.

Formfegurð íslenskrar tungu verður seint ofmetin með sitt röklega kerfi fallbeyginga og skipulag sagna í tíðum, persónum, tölum, háttum og myndum. Hljóðkerfið er einstakt og setningahlutauppbyggingin skýr og rökrétt, en samt hæfilega opin og frjálsleg skáldum og rithöfundum til yndisauka og sköpunar. Göfgi íslenskrar tungu jafnast á við formfegurð og reglur stærðfræðinnar.

Drjúgan þátt í varðveislu tungunnar áttu málfarslöggur landsins með Fjölnismenn og Jónas Hallgrímsson í fylkingarbrjósti og síðar Eið Svanberg Guðnason, sem hélt úti eftirminnilegri bloggsíðu um málfar árum saman.

Um miðja 20. öld sýndu frumbyggjar Íslands Jónasi þakklæti sitt með því að lýsa bein hans þjóðareign og sigla með þau hingað frá fyrrverandi nýlenduherrum austur í Kaupmannahöfn. Afmælisdagur Jónasar var valinn dagur íslenskrar tungu og ljóð hans lýst ódauðleg.

Nú er hún Snorrabúð stekkur

En allt er í heiminum hverfult og nú er hún Snorrabúð stekkur, kvað Jónas. Hinn málfarslegi aðgerðasinni stendur nú í brjósti fylkingar, málfarslöggan er horfin á braut. Síðan hefur ekkert til hennar spurst. Sérstök ráðherranefnd var skipuð til að standa vörð um íslenska tungu gagnvart tækni- og samfélagsbreytingum. Síðan hefur ekkert til hennar spurst. Í byrjun þessa árs var lögð fram tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu til ársins 2026. Síðan hefur ekkert til hennar spurst. Þjóðareigninni, beinum Jónasar, var holað niður á Þingvöllum. Síðan hefur ekkert til þeirra spurst. Skinnhandritin – þau sem ekki höfðu verið tuggin, étin eða breytt í skófatnað og rekkjubotna í aldanna rás – lentu í sprengjuheldu byrgi í risastórri milljarða króna tunnu vestur á Melum ásamt íslenskri tungu. Síðan hefur ekkert til þeirra spurst.

Höfundur er háskólakennari á eftirlaunum.

Höf.: Meyvant Þórólfsson