Hringlandaháttur Móttakan í Efstaleiti. Meðal þess sem byggingarfulltrúi gerði athugasemd við var að vask vantaði í skurðstofu, en þar er óheimilt að hafa vask.
Hringlandaháttur Móttakan í Efstaleiti. Meðal þess sem byggingarfulltrúi gerði athugasemd við var að vask vantaði í skurðstofu, en þar er óheimilt að hafa vask.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ágeir Ingvarsson ai@mbl.is Allt frá 11 ára aldri hefur Ágúst Birgisson lýta- og bæklunarskurðlækni dreymt um að reka sína eigin skurðstofu. Nú hefur hann látið drauminn rætast og er starfsemi að hefjast hjá Læknastofum Reykjavíkur og Skurðstofum Reykjavíkur í Efstaleiti 21 og 27C, eftir furðulangt úttekta- og leyfisferli.

Viðtal

Ágeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Allt frá 11 ára aldri hefur Ágúst Birgisson lýta- og bæklunarskurðlækni dreymt um að reka sína eigin skurðstofu. Nú hefur hann látið drauminn rætast og er starfsemi að hefjast hjá Læknastofum Reykjavíkur og Skurðstofum Reykjavíkur í Efstaleiti 21 og 27C, eftir furðulangt úttekta- og leyfisferli.

„Ég kynntist því fyrst í Svíþjóð árið 2007 að starfa á einkarekinni skurðstofu, en þaðan færði ég mig yfir á Læknastofurnar á Akureyri og síðan til Domus Medica,“ segir Ágúst. „Fyrir rúmu ári var Domus Medica lokað og fann ég þá annan stað til bráðabirgða en þótti alls ekki fullnægjandi, svo að í maí í fyrra festi ég kaup á húsnæðinu í Efstaleiti með það fyrir augum að innrétta þar tvær skurðstofur og sex móttökustofur.“

Húsakynnin eru á margan hátt mjög heppileg: byggingin ný og bæði skurðstofur og móttökustofur á jarðhæð. „Það skipti miklu að aðgengi að húsnæðinu væri gott, fjöldi brunaútganga í samræmi við kröfur, og nægileg lofthæð til að hægt væri að koma fyrir fullkomnum loftræstibúnaði. Þá gæti staðsetningin ekki verið betri, með heilsugæslu beint á móti og stutt í Landspítalann,“ útskýrir Ágúst. „Kemur það vel út að hafa móttökustofurnar og skurðstofurnar aðskildar, og hefur tekist að skapa gott andrúmsloft á staðnum.“

Bættu sífellt við nýjum athugasemdum

Faðir Ágústar er byggingaverkfræðingur og saman hönnuðu feðgarnir grunnskipulag rýmisins, en fólu arkitekti að ljúka verkinu. „Fylgja verður ströngum stöðlum, sérstaklega við hönnun skurðstofa, og þurfa þær t.d. að vera gluggalausar, með tiltekna lofthæð, og vera alveg loftþéttar. Skiptir loftræstingin mjög miklu máli og gerð krafa um loftskipti í skurðrýminu tuttugu sinnum á klukkustund, og þarf loftræstikerfið að viðhalda yfirþrýstingi til að tryggja að aðeins hreinsað loft sé í rýminu,“ segir Ágúst. „Ótal önnur smáatriði skipta máli, og þarf t.d. gólfdúkurinn að vera jarðtengdur, sérstakur frágangur að vera á rafmagnskerfi og leiðslum, og á eldvörnum sömuleiðis.“

Fyrirmælin koma frá embætti landlæknis en byggingarfulltrúi þarf að samþykkja teikningarnar og gera úttekt á framkvæmdinni, og þar rakst Ágúst á óvæntar flækjur og hindranir:

„Þegar við skiluðum fyrstu teikningum fengum við tvær minni háttar athugasemdir frá byggingarfulltrúa, sem við löguðum og lögðum teikningarnar inn að nýju. En þá bættust við þrjár athugasemdir til viðbótar og þannig koll af kolli, með ítrekuðum fundum og ærnum tilkostnaði,“ segir Ágúst og bendir á að sumar athugasemdirnar hafi beinlínis stangast á við staðla landlæknis: „Þannig var eitt skiptið gerð athugasemd við það að ekki væri vaskur inni á skurðstofunni, en það er einmitt óheimilt vegna hættu á að bakteríur geti þrifist í niðurfallinu.“

Kom ferlið Ágústi mjög á óvart og segir hann furðu sæta að yfirvöld geti leyft sér svona vinnubrögð. „Ferlið virtist á köflum handahófskennt, en ef til vill má hafa vissan skilning á þessu enda ekki á hverjum degi sem það ratar á borð byggingarfulltrúa að taka út framkvæmd af þessu tagi. Allir virtust af vilja gerðir, en samt var stundum eins og athugasemdirnar væru helst til þess gerðar að senda boltann yfir á næsta mann og að sérfræðingarnir væru hikandi við að stimpla pappírana og þurfa þá að bera ábyrgð á niðurstöðunni.“

Bæði þurfti byggingarfulltrúi að samþykkja teikningarnar og gera úttekt að framkvæmd lokinni, og var þá röðin komin að Heilbrigðiseftirlitinu. Síðasta skrefið var síðan að fá samþykki landlæknis. „En bæði heilbrigðiseftirlitið og landlæknir voru að fara yfir nákvæmlega sömu hluti og byggingarfulltrúinn, og virkaði ferlið óþarflega þungt í vöfum,“ segir Ágúst.

Reiknast honum til að flókið úttektar- og leyfisferlið hafi valdið því að það tafðist um nærri hálft ár að opna stofuna. „Bæði fylgdi því beinn kostnaður að fara í gegnum ferlið, en framkvæmdin og tækjabúnaðurinn var líka dýr og kostnaðarsamt að láta svona aðstöðu standa ónotaða í langan tíma.“

Læknar ekki eins afkastamiklir á spítala

Fleiri læknar munu flytja inn á stofuna í lok sumars og segir Ágúst enn nokkur laus pláss. Áætlar hann að um átta til tólf læknar geti nýtt aðstöðuna enda skipti þeir vinnutíma sínum á milli eigin stofu og heilbrigðisstofnana hins opinbera. Nefnir Ágúst til samanburðar að ekki var óalgengt að í Domus Medica væru þrír eða fjórir læknar um hverja móttökustofu.

Þykir Ágústi það hafa marga kosti að geta tekið á móti sjúklingum á einkarekinni stofu og munar ekki hvað síst um hvað yfirbyggingin er lítil og hægt að nýta vinnudaginn vel. „Spítalarnir þjóna mjög mikilvægu hlutverki s.s. þegar kemur að stórum og mjög sérhæfðum skurðaðgerðum, en það er á margan hátt praktískara að sinna minni aðgerðum á einkareknum stofum því stjórnkerfi spítalanna er flókið og skriffinnskan mikil og tímafrek. Er það vægt áætlað að læknir geti afkastað tvöfalt fleiri aðgerðum á einkarekinni stofu en inni á spítala. Þá er svigrúmið minna á spítölunum á meðan að í einkarekstrinum hefur læknirinn betri stjórn á því hvernig hann hagar vinnu sinni og á t.d. auðveldara með að bregðast við ef mikil vöntun er á tilteknum aðgerðum.“

Spurður hvort að hann sjái það fyrir sér að Skurðstofur Reykjavíkur sérhæfi sig í tilteknum flokki aðgerða segir Ágúst ýmsa möguleika í stöðunni og að skurðstofurnar tvær fullnægi hæstu gæðakröfum: „Það hefur t.d. verið gerð úttekt á skurðstofunum sem staðfestir að þær henti fyrir liðskiptaaðgerðir og ígræðslu-skurðaðgerðir og því hægt að framkvæma þar nokkuð stórar aðgerðir.“

Höf.: Ásgeir Ingvarsson, Ágeir Ingvarsson