Stóryrðaglamur samfylkingarflokkanna um efnahagsmál er ekki til að auka trúverðugleika þeirra á því sviði. Þingmenn þeirra runnu hver á fætur öðrum í ræðustól þingsins í liðinni viku og kröfðust sérstakrar umræðu um efnahagsmál og mátti skilja að himinn og jörð væru að farast. Vissulega er ástæða til að ræða efnahagsmál en betra að það sé í eðlilegu jafnvægi og á þokkalega skynsamlegum forsendum.
Þess í stað fór Sigmar Guðmundsson til dæmis í pontu og spurði af hverju við værum „aftur og aftur að reyna að endurtaka sömu tilraunina með ónýtan gjaldmiðil sem skilar okkur sömu niðurstöðu aftur og aftur með reglulegu millibili“.
Talsmenn Evrópusambandsins á þingi grípa hvert tækifæri sem þeir telja sig hafa, nú síðast stýrivaxtahækkun, til að tala niður gjaldmiðilinn. En þeir virðast ekki hafa leitt hugann að því að þessi „ónýti“ gjaldmiðill hefur orðið til þess að hér er nánast ekkert atvinnuleysi, ólíkt því sem þekkist þar sem evran þeirra er notuð, og að hér er mikill og vaxandi hagvöxtur, margfaldur á við það sem er í draumalandinu. Þá hafa laun hækkað hér langt umfram það sem annars staðar þekkist.
Þessi góðu tíðindi af efnahagsástandinu eru einmitt meðal þess sem veldur því að grípa þarf í handbremsuna. Hér ríkir ekki neyðarástand í efnahagsmálum, heldur þensla sem bregðast þarf við.