Þórfríður Magnúsdóttir fæddist í Reykjavík 23. júlí 1952. Hún lést eftir langvarandi veikindi 25. febrúar 2023.
Hún var dóttir Guðrúnar Sveinsdóttur kennara í Kópavogi og Magnúsar Bærings Kristinssonar, skólastjóra Kópavogsskóla.
Hún ólst upp í Kópavogi og bjó þar og starfaði framan af ævi, en hin síðari ár bjó hún í Vesturbæ Reykjavíkur ásamt eiginmanni sínum, Óskari Gunnari Óskarssyni, f. 29. mars 1953. Þau hjónin eiga einn son, Óskar Gunnar, f. 7. desember 1971, en Óskar er kvæntur Sigríði Hrönn Þórarinsdóttur og eiga þau þrjú börn, Evu Maríu, f. 1998, Þórarin Gunnar, f. 2000, og Benóný Gunnar, f. 2009.
Þórfríður nam til þroskaþjálfa og starfaði m.a. á Kópavogshæli og á Landakotsspítala.
Útför hefur farið fram.
Með þessari stuttu grein viljum við kveðja Fríðu, systur okkar og frænku, en hún kvaddi þetta líf 25. febrúar síðastliðinn. Minningin um hana mun lifa með okkur um ókomna tíð.
Fríða fæddist 23. júlí 1952 á 25. afmælisdegi mömmu (ömmu). Við sem kynntumst henni í æsku munum eftir kátu barni sem alltaf var líf og fjör í kringum. Við sem kynntumst henni fullorðinni munum eftir hjartahlýrri manneskju sem vildi allt fyrir alla gera og var alltaf með opinn faðminn fyrir sína.
Við minnumst með sérstakri gleði stundanna sem við áttum saman í Bakkaseli, þar nutum við saman samverustunda i einstöku umhverfi við Þingvallavatn. Þá var oftar en ekki spilað og sungið lengi fram eftir kvöldi við kertaljós og arineld.
Því miður þróuðust mál þó með þeim hætti hin síðari ár að samband okkar við Fríðu rofnaði. Það er sárt að hugsa til þess nú að ekki verði hægt að endurnýja það í framtíðinni. Fríða tókst á við sínar áskoranir á sinn hátt og við lok hennar jarðnesku vegferðar viðurkennum við það og skiljum. Þrátt fyrir að leiðir hafi skilið hafði Fríða með sinni kátu nærveru áhrif á okkur öll.
Þegar við kveðjum Fríðu hugleiðum við þann lærdóm sem finna má í lífi hennar og fráfalli. Við erum minnt á viðkvæmni mannlegra tengsla og mikilvægi þess að hlúa að og þykja vænt um þau bönd sem við deilum. Það er áminning um að leggja sig fram um að brúa það bil sem kann að skilja okkur frá þeim sem okkur þykir vænt um.
Við sendum fjölskyldu Fríðu og öllum þeim sem syrgja fráfall hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur. Hvíl í friði, elsku systir og frænka. Megi minning þín lifa meðal þeirra sem kynntust þér og þínu stóra hjarta.
Brynhildur Steinunn Magnúsdóttir Bates, Svanhvít Guðrún Magnúsdóttir, Magnús Árni Skjöld Magnússon, Berglind María Kristinsdóttir, Katrín Jóna Kristinsdóttir, Hilmar Þór Bates, Arnar Ísleifur Bates, Örvar Jón Bates, Hildigunnur Erna Gísladóttir, Elísabet Hrönn Gísladóttir, Heimir Bæringur Gíslason, Úlfur Bæringur Skjöld Magnússon, Kolbeinn Tumi Skjöld Magnússon.