Verkföll Kjaradeila BSRB og Samtaka íslenskra sveitarfélaga er enn í hörðum hnút að sögb Sonju Ýr Þorbergsdóttur formanni BSRB.
Verkföll Kjaradeila BSRB og Samtaka íslenskra sveitarfélaga er enn í hörðum hnút að sögb Sonju Ýr Þorbergsdóttur formanni BSRB. — Ljósmynd/BSRB
Agnar Már Másson agnarmar@mbl.is Formenn samninganefnda BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga gengu á óformlegan fund aðstoðarsáttasemjaranna Elísabetar S. Ólafsdóttur og Aldísar Sigurðardóttur í gær. Fundurinn leysti þó fáa hnúta. Enn er langt til lands í kjaradeilunni og Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB segir að fundurinn hefði verið „skref aftur á bak“.

Agnar Már Másson

agnarmar@mbl.is

Formenn samninganefnda BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga gengu á óformlegan fund aðstoðarsáttasemjaranna Elísabetar S. Ólafsdóttur og Aldísar Sigurðardóttur í gær. Fundurinn leysti þó fáa hnúta. Enn er langt til lands í kjaradeilunni og Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB segir að fundurinn hefði verið „skref aftur á bak“.

„Við áttum fund með Sonju Ýri fyrir hönd BSRB og Ingu Rún [Ólafsdóttur] fyrir hönd sveitarfélaganna,“ segir Elísabet S. Ólafsdóttir í samtali við Morgunblaðið. „Þegar þessum fundi lauk eftir nokkra klukkutíma mátum við stöðuna þannig að það væri ekki tilefni til þess að boða annan.“

Of mikið ber á milli

Elísabet segir að fundurinn hafi verið kominn á þriðja tímann þegar sáttasemjarar komust að þessari niðurstöðu. Elísabet segir þó að ef grundvöllur reynist fyrir því að kalla til annars fundar verði það gert á svipstundu en eins og er liggi ekkert fyrir um hvenær næsti fundur verður.

„Þessi þráður sem við vorum að reyna að spinna í dag gekk ekki. Þannig að við erum í reglulegu sambandi við samningsaðila og um leið og eitthvað breytist og við teljum vera tilefni til fundar þá boðum við hann með skömmum fyrirvara,“ segir hún. „En eins og staðan er núna er ekki tilefni til þess að halda áfram. Það ber of mikið á milli.“

„Færðumst fjær“

„Því miður er deilan enn í hörðum hnút,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í samtali við Morgunblaðið. Fundurinn gerði deiluna ekki auðveldari að hennar sögn. Þvert á móti segir hún að deilendur hafi nú færst fjær frá hvor öðrum heldur en nær.

„Markmiðið var að sjá hvort hægt væri að þoka þessu eitthvað áfram, í ljósi þess að það skella frekari verkföll á í vikunni en niðurstaðan er í rauninni bara sú að við höfum tekið skref aftur á bak,“ segir Sonja en gefur ekki upp hvernig þessi fundur hafi verið skref aftur á bak. „Samtalið var bara þess eðlis að við færðumst fjær heldur en nær.“

Þriðja vika verkfallsaðgerða BSRB hefst því í dag þar sem enn er langt til lands í kjaradeilunni. Að öllu óbreyttu hefst verkfall næsta mánudag á leikskólum, í höfnum, áhaldahúsum, sundlaugum, almenningssamgöngum og vinnuskólum.

Þriðja vika verkfalla BSRB

Leiðbeinendur á leikskólum í Kópavogi, Garðabæ, Mosfellsbæ, Hveragerði, Árborg, Vestmannaeyjum, Skagafirði, Borgarbyggð, Stykkishólmi, Grundarfirði og Snæfellsnesbæ leggja niður störf í dag, á morgun og á fimmtudag. Í Ölfusi leggja hafnarstarfsmenn niður störf í dag og á fimmtudag en í Vestmannaeyjum á morgun.

Að óbreyttu hefjast frekari verkfallsaðgerðir í næstu viku.

Höf.: Agnar Már Másson